top of page

Lifandi ráðgjöf ehf.

Unglingar og vímuefnaneysla

Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir. (2004).

Hvað er víma?

Áfengi, hass, amfetamín, kókaín og e–töflur eru dæmigerð vímuefni sem valda vímuefnaneytandanum vellíðan um leið og það breytir um hegðun og hugsun hans. Neytandinn missir dómgreind og hömlur og á honum sést víman.
Vímuefni eru þau efni sem sótt er í vegna þess að þau valda góðri líðan og vímu. Jákvæð hvatning er aðalhvati allrar neyslu í upphafi. Við stöðuga notkun vímuefnisins ánetjast einstaklingurinn efninu og fylgir því neikvæð hvatning til áframhaldandi neyslu. Vanlíðan og óþægindi koma fram er neyslu er hætt. Sú vanlíðan verður síðan rót áframhaldandi neyslu. Til að forðast það að takast á við timburmennina eða fráhvörfin er hvati til að halda áfram neyslu (Þórarinn Tyrfingsson, munnleg heimild, 28. október 2004).

Hvaða vímuefni nota unglingar mest?

Vímuefnin sem unglingar eru mest að nota eru: Hass, áfengi, örvandi efni s.s. amfetamín, kókaín og e – pillur, ávanabindandi lækna lyf s.s. paxal, tafil og fleira.
Flestir þeirra sem ánetjast sterkari vímuefnum byrja í áfenginu. Áfengisneysla verður tíð og leiðir oft að sér að einstaklingurinn fer að fikta með hass. Í hass vímunni finnst honum hann ekki eins stjórnlaus svo fljótlega verður hassið aðalvímuefnið. Fyrst er reykt einu sinni til tvisvar í viku, svo oftar og á nokkrum mánuðum getur einstaklingurinn verið komin í dagneyslu á hassi. Algengt er að einstaklingurinn byrjar síðan að taka inn örvandi efni um helgar samhliða hassneyslunni. Hjá sumum þróast þetta síðan út í daglega neyslu á örvandi efnum. Þunglyndið og óvirknin sem er megineinkenni hassneyslunnar leiðir oftast til neyslu á örvandi efnum.
Fljótlega fer neyslan að setja mark sitt á líf neytandans og smátt og smátt fer að fjara undan honum. Einstaklingurinn þarf meiri svefn og er óvirkari við daglegt líf, hann einangrast frá fjölskyldu sinni, hann fer eignast vini sem deila með honum neyslu og gömlu vinirnir sem ekki eru í neyslu hverfa. Einkunnir fara lækkandi og fjarvistir úr skóla aukast eða skólasókn verður engin, með öðrum orðum verður hæfni einstaklingsins til náms, vinnu og að takast á við daglegt líf ört minnkandi
Mikil neysla er líkleg til að hægja á bæði á andlegum og líkamlegum þroska, dæmi eru um þrítuga menn sem hafa komið í meðferð á Vog og verið með þroska á við sextán ára unglinga (Hjalti Björnsson, munnleg heimild, 28. október 2004).

Hvað er vímuefna misnotkun og hvað er að vera háður vímuefnum?

Það má ekki villast á þeim einstakling sem drekkur sér til vandræða og þess sem er orðin háður vímuefnum. Á þessu er reginmunur.
Til að einstaklingur sé greindur sem misnotandi vímuefna þarf eitt eftirtalinna atriða hafa verið til staðar síðastliðna 12 mánuði.

 

  1. Endurtekin vímuefnaneysla svo daglegum skyldum er ekki sinnt s.s. heima fyrir, skóla eða vinnu. Brottrekstur úr tíma eða skóla sem tengist vímuefnaneyslu.

  2. Endurtekin vímuefnaneysla þar sem líkamleg hætta skapast svo sem að aka bíl undir áhrifum.

  3. Neysla sem veldur lögbrotum eða handtöku.

  4. Neysla heldur áfram þrátt fyrir að hún valdi félagslegum og persónulegum vandamálum (American Psychiatric Association. (1998). Diagnostic and statistical manual of mental disorders ).

 

Í greiningunni að vera áfengis og vímuefnaháður er skoðað hvort einstaklingurinn er orðinn háður vímuefninu. Þrjú eða fleiri af eftirtöldum atriðum þurfa að vera fyrir hendi til að fá þá greiningu:
 

  1. Aukið þol. Meira magn af efninu þarf til að ná sömu áhrifum.

  2. Fráhvarf eftir langa og mikla vímuefnanotkun. S.s. svefnleysi, kvíði, óróleiki og hraður hjartsláttur.

  3. Vímuefnið notað oftar og meira en áður.

  4. Viðvarandi löngun og misheppnaðar tilraunir til að draga úr neyslu.

  5. Mikill tími fer í að útvega vímuefnið, neyta þess og jafna sig á eftir.

  6. Fjölskylda, skóli og vinna vanrækt.

  7. Neyslu er haldið áfram þó viðkomandi geri sér grein fyrir að neyslan veldur viðvarandi eða endurteknum líkamlegum eða andlegum veikindum (DSM-IV,1998).

 

Algengt er að fólk haldi að það að fara í meðferð þýði að einstaklingurinn sé alkóhólisti. Svo er alls ekki. Greining þarf að fara fram. Margir unglingar koma til meðferðar áður en þeir eru orðnir háðir vímuefnum. Mikil vinna er oft lögð í félagslega þætti unglingsins (Hjalti Björnsson, munnleg heimild, 28. október 2004).

 

Áhættuþættir.

Þeir áhættuþættir sem gætu ýtt undir að unglingur leiðist út í fíkniefnanotkun eru meðal annars erfiðar fjölskylduaðstæður eins og vímuefnaneysla foreldrar sem gæti þá jafnframt verið vísbending um erfðir, veikindi foreldra, vanræksla eða ofbeldi á heimili.
Lítil eða léleg tengsl við foreldrar er einn áhættuþáttanna. Það er mikilvægt fyrir foreldra að þekkja unglingana sína og fylgjast með í hvaða félagskap þeir eru. Þannig er auðveldara fyrir foreldrana að grípa fyrr inní ef unglingurinn á í vandræðum. Helsti áhættuhópurinn fyrir það að unglingur leiðist útí neyslu eru jafningjarnir, það eru þeir sem helst kynna unglinginn fyrir vímuefnum. Unglingurinn óttast meira höfnun jafningjanna en refsingu foreldranna (Bryndís Gestsdóttir, munnleg heimild, 9. nóvember 2004).

 

Aðrir áhættuþættir sem geta spilað inní er einelti, offita, það að strákar verða kynþroska seint og stelpur verða kynþroska snemma. Þessir þættir eru oft þess valdandi að unglingurinn passar ekki inní jafningjahópinn og þess vegna leitar þá frekar til jaðarhópanna sem sumir hverjir einkennast af vímuefaneyslu meðlima. Þá er það vitað að skilnaðir og tíðir búferlaflutningar eru áhættuþættir, því þessu fylgir oft að byrja í nýjum skóla (Hjalti Björnsson, munnleg heimild, 28. október 2004).
 

Meðferðarúrræði.

Helstu tilkynningar um vanda unglina kemur frá foreldrum, skólum, lögreglunni og barnaverndarnefnd (Bryndís Gestsdóttir, munnleg heimild, 9. nóvember 2004). Meðal þeirra sem sjá um meðferðarúrræði fyrir unglinga eru Barnaverndarstofa og SÁÁ. Meðalaldur unglinga sem leitað er með til Félagsþjónustunnar og SÁÁ er um 16 ár. Stundum byrja þó mál einstakra barna að koma upp á borð hjá Félagsþjónustunni fyrr. Það er oftast mjög alvarlegt. Þá eru það oftast tilkynningar frá skólum um skróp, ofbeldi, neyslu og aðra andfélagslega hegðun.
Foreldrar barna sem fara í neyslu og koma frá reglusömum heimilum leita oftast snemma til Félagsþjónustunnar og er þá hægt að grípa inn í vandann á fyrstu stigum. Þá er hægt að vinna með unglinginn og foreldra hans í sínu umhverfi. Unglingnum er kennt að ráða við fíkn, takast á við kvíða, fara á AA fundi og hjálpað út úr neysluhópnum. Einnig er honum hjálpað með nám og samskipti við sína nánustu.
Félagsþjónustan hefur meðal annars samning við meðferðar þjónustu sem heitir Ný leið. Sú þjónusta einkennist af því að meðferðaaðilarnir vinna með unglinginn í hans umhverfi. Samkvæmt Bryndísi Gestsdóttir félagsráðgjafa er þetta meðferðarform framtíðin í meðferðarþjónustu af þessu tagi. Ný leið býður uppá tvær þjónustuleiðir Lífslistina og íhlutun. Með Lífs- listinni er í senn leitast við að virkja listræna hæfileika og finna nýjar leiðir til að takast á við lífið. Íhlutun er síðan fjölskyldu- og samfélagsmiðuð nálgun. Unnið er með þá orskakaþætti sem gætu haft áhrif á frávikshegðun. 

 

Önnur meðferðarúrræði sem eru á vegum Félagsþjónustunnar (Barnaverndarstofu) eru Stuðlar. Starfsemi Stuðla skiptist í þrennt:

1)Greiningu og meðferð á meðferðadeild
2) Eftirmeðferð eftir útskrift af meðferðadeild
3) Neyðarvistun á lokaðri deild. Lengd meðferðar á meðferðardeild er frá 6 vikum til 4 mánuði.

 

Eftir dvölina á meðferðardeild er svo boðið upp á eftirmeðferð á vegum Stuðla, sú starfsemi fer fram í við Skúlagötu í Reykjavík. Enn einnig getur Félagsþjónustan boðið uppá eftirmeðferð hjá Götusmiðjunni.

Eftir að meðferð líkur getur einstaklingurinn fengið fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustunni sem kallaður er námsstyrkur. Upphæð styrksins nemur 81.396 kr. á mánuði og er ætlaður til þess að aðstoða unglinginn að fara aftur í skóla og koma undir sig fótum á ný. Forsendur fyrir að fá þennan fjárhagsstyrk eru erfiðar félagslegar aðstæður og lítill stuðningur frá fjölskyldu (Bryndís Gestsdóttir, munnleg heimild, 9. nóvember 2004).

 

Barnaverndarstofa býður einnig uppá langtímameðferð. Heimilin sem eru á vegum Barnaverndarstofu eru átta og eru öll út á landi. Þau eru: Árbót, Berg, Laugaland, Háholt, Hvítárbakki, Torfastaðir, Geldingarlækur og Götusmiðjan. Götusmiðjan er einnig í samvinnu við Félagsþjónustuna og getur hún útvegað pláss þar án samráðs við Barnavernd. Hvert þessara heimila hafa pláss fyrir sex einstaklinga í einu nema Laugaland hefur átta pláss. Götusmiðjan hefur þrettán pláss fyrir unglinga undir 18 ára aldri en eins og áður sagði getur Félagsþjónustan pantað vistun þar án samráðs við Barnaverndarstofu (Barnaverndarstofa, 2002).

Ekki eru allir á eitt sáttir með það úrræði að senda unglinginn í langtímameðferð og færa þau rök fyrir máli sínu, að þegar unglingurinn komi svo aftur í bæinn 6-24 mánuðum seinna sé lítið breytt í umhverfi hans. Heima bíða sömu foreldrarnir, neysluvinirnir, skólinn og fátt er breytt (Bryndís Gestsdóttir, munnleg heimild, 9. nóvember 2004).

 

SÁÁ er með sérstaka unglingameðferð sem samanstendur af 10-12 dögum á unglingadeild á Vogi, 28 daga eftirmeðferð á Vík sem er fyrir stúlkur og Staðarfell sem er fyrir stráka. Í meðferðinni er þeim kennt að takast á við fíkn og kvíða. Og læra að lifa lífinu án fíkniefna. Einstaklingurinn fær fræðslu um AA samtökin og lögð er áhersla á mikilvægi þeirra. Meginmarmið meðferðar SÁÁ er að efla samstarfsvilja unglinganna.
Eftir meðferð er svo stuðningur á göngudeild sem kallaður er U- hópur og félagsskapur sem heitir Ungt fólk í SÁÁ. Það er öflugur hópur unglinga sem samanstendur bæði af þeim sem hafa verið edrú í 3-4 ár og þeim sem eru nýútskrifaðir. Þarna læra unglingarnir að þekkja tilfinningarnar sínar upp á nýtt og læra að þekkja mörkin sín, hvað þau vilja og hvað ekki, einnig hvað þykir þeim gaman og hvað ekki (Hjalti Björnsson, munnleg heimild, 28. október 2004).

 

Heimildir:

American Psychiatric Association. (1998). Diagnostic and statistical manual of mental disorders. (7. útgáfa). Washington, DC: Höfundur.

Ársskýrsla Barnaverndarstofa (2002). Gutenberg, 2003.

Ársskýrsla SÁÁ (2002). Reykjavík: SÁÁ.

 

bottom of page