top of page

Lifandi ráðgjöf ehf.

Meðvirkni

Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir

 

Í þessari grein verður fjallað um skilgreiningar á hugtakinu meðvirkni og óæskilegan stuðning aðstandenda sem birtist oft í afneitunar og varnarháttum sem þróast með sjúkdómnum alkóhólisma ekki eingöngu hjá þeim sjúka heldur einnig aðstandendum hans. Sett verður fram uppkast á greiningarskilmerkjum um meðvirkni og hvaða leiðir er hægt er að fara til þess að þekkja og meðhöndla meðvirkni. Einnig verður fjallað um óskráðar reglur í alkóhólískum fjölskyldum og óæskilegan stuðning aðstandenda. Í lokin í greininni verður fjallað um gagnrýni á hugtakið meðvirkni.

 

Skilgreiningar á meðvirkni

 

Fagaðilar sem störfuðu við áfengismeðferð byrjuðu á að skoða hvaða áhrif alkóhólismi hafði á líðan og hegðun aðstandanda. Þeir komust að því að tveir þættir voru áberandi í hegðun fjölskyldunnar það voru meðvirkni og óæskilegur stuðningur. Þessir þættir voru mjög í sviðsljósinu varðandi fjölskyldur alkóhólista á sjöunda áratugnum.

 

Óæskilegur stuðningur er þegar aðstandandi tekur upplýsta ákvörðun um að gera þeim vímuefnasjúka kleift að vera í neyslu vímuefna án þess að þurfa að bera ábyrgð á hegðun sinni. Aðstandandinn gerir sér ekki grein fyrir að hann er í raun að gera rangt, hugsunin er að hjálpa þeim veika vegna væntumþykju og hann áttar sig ekki á óeðlilegri hegðun sinni (Doveiko, 2006).

 

Meðvirkni er hægt að lýsa sem andlegri vanlíðan og erfiðleikum með að vera í nánum tengslum við aðra. Ríkjandi líðan meðvirks einstaklings er lítil sjálfsvirðing og lítið sjálfstraust. Hugsunin hjá langflestum er: Ég verð að gera öllum til geðs svo öllum líki vel við mig.  Frekari dæmi um hugsanir og hegðun meðvirks einstaklings er meðal annars, lífið er ekki leikur og allt er tekið alvarlega. Einstaklingarnir eiga í erfiðleikum með náin tengsl og treysta ekki neinum (Cruse – Wegscheider,1987).

 

Skilgreining á meðvirkni er eftirfarandi:

 

Meðvirkni er ástand sem breytir persónuleika einstaklings sem veldur því að viðkomandi verður mjög háður tilfinningalega, félagslega og stundum líkamlega vegna hegðunar annarar manneskju. Þessi líðan hefur áhrif í öllum félagslegum samskiptum einstaklingsins (Cruse – Wegscheider, 1987, bls. 2).

 

Samkvæmt Cermak (1986) þá segir hann að þegar einstaklingur hefur greinst með meðvirkni þá búi hann við skert lífsgæði. Skilgreining á veikindum og sjúkdómum er sú að þegar eitthvert líffæri eða líffærakerfi starfar ekki eðlilega með þeim afleiðingum að einstaklingurinn fær ekki notið sín þá sé hann veikur. Ekki fer fram hjá þeim fagaðilum sem eru að meðhöndla aðstandendur alkóhólista að þeir njóta sín engan veginn og gætu því samkvæmt því verið veikir.

 

Önnur skilgreining á meðvirkni er eftirfarandi:

 

Meðvirkni sést sem auðgreinanleg fastmótuð einkenni sem koma fram hjá flestum einstaklingum sem búa í eða alast upp í fjölskyldum þar sem einn eða fleiri eru haldnir fíkn eða áfengissýki. Einkennin valda svo mikilli óstarfhæfni hjá einstaklingnum að tala má um blandaða persónuleikaröskun samkvæmt DSM III (Cermak, 1986, bls.1).

 

Samkvæmt þessari skilgreiningu verða ekki allir meðvirkir án þess að gert sé grein fyrir í hverju sá munur liggi. Gæta þarf að í þessari skilgreiningu hvort meðvirknin sé aðalatriðið eða víkur meðvirkni hugtakið fyrir skilgreiningunni um blandaða persónuleikaröskun (Cermak,1986).

 

Munurinn á óæskilegum stuðningi (að gera kleift) og meðvirkni er að með óæskilegum stuðningi veit einstaklingurinn hvað hann er að gera en meðvirki einstaklingurinn þróar ómeðvitað með sér ákveðna hegðun. Sami einstaklingurinn getur verið bæði meðvirkur og verið með óæskilegan stuðning við alkóhólistann. Einnig getur einstaklingur verið með óæskilegan stuðning við hegðun alkóhólistans en ekki meðvirkur. Dæmi um þetta er þegar einstaklingur gefur götunnar manni pening sem hann veit að viðkomandi fer með og kaupir áfengi fyrir (Doveiko, 2006).

 

Meðvirkur einstaklingur hættir að geta greint á milli eðlilegrar og óeðlilegrar hegðunar. Lítið sjálfsmat leiðir til þess að viðkomandi á erfitt með að taka sjálfstæðar ákvarðanir eða ábyrgð til dæmis í vinnu. Einkenni meðvirks einstaklings eru að hann hefur þörf fyrir að stjórna og hugsa um aðra. Það að vera upptekin við að hugsa um aðra og vanda annarra forðar þeim meðvirka frá því að þurfa að skoða sjálfa/nn sig. Með því að hugsa um aðra lyftir meðvirki einstaklingurinn sinni eigin sjálfsvirðingu upp ómeðvitað með þeirri hugsun, ég er svo góð/ur að ég er alltaf að hjálpa öðrum. Þetta er varnarháttur og afneitun á eigin líðan og stöðu. Einstaklingar sem geta orðið meðvirkir eru makar alkóhólista og börn sem eiga foreldra sem eru alkóhólistar (Cruse – Wegscheider,1987).

 

Rannsókn sem athugaði hvort drykkja og neysla alkóhólista hafi áhrif á hann sjálfan og áhrif á þá einstaklinga sem búa með viðkomandi, maka og börn. Sýnt hefur verið fram á að viðbrögð maka við neyslu/drykkju alkóhólistans hefur mjög mikil áhrif á þann sem er í neyslu. Þannig geta viss viðbrögð ýtt undir og flýtt fyrir því að alkóhólistar leiti sér aðstoðar. Aftur á móti geta önnur viðbrögð á sama hátt komið í veg fyrir og dregið á langinn að alkóhólistinn leiti sér aðstoðar. Rannsókninni var ætlað að draga fram hvort ákveðin hegðun makans gæti ýtt undir áframhaldandi drykkju og jafnvel komið í veg fyrir að alkóhólistar reyndu að leita sér aðstoðar. Í rannsókninni kom fram að óæskilegur stuðningur makans getur viðhaldið sjúklegu ástandi. Meðal annars tók makinn langtímum saman alla ábyrgð og skyldur af alkóhólistanum og drakk og/eða notaði önnur vímuefni með viðkomandi. Gagnvart öðrum sagði makinn ósatt og afsakaði alkóhólistann til að hylma yfir neysluna. Ákveðin viðhorf hjá makanum gagnvart sambandinu ýttu undir óæskilegan stuðning sem gat viðhaldið ástandinu. Það hafa ekki margar rannsóknir sýnt fram á að það sé vænlegra til árangurs varðandi óæskilega stuðning maka hvort íhlutast eigi fyrst í mál alkóhólistans eða samtímis makanum. Eða hvort vænlegra sé til árangurs að makinn sé tekinn fyrst til meðferðar án tillits til þess sem alkóhólistinn gerir (Rotunda og Doman, 2001).

 

Hringur og mynstur meðvirkni

 

 

Það merkilega við einstakling sem er meðvirkur er að þrátt fyrir tilfinningalega vanlíðan þá virðist það ekki í raun vera vilji hans að losna við vanlíðunina sem tengist því að vera meðvirkur. Viðkomandi leitar til fagaðila því einstaklingnum líður ekki vel en tengir vanlíðan sína starfi eða félagslífi en ekki álaginu við að búa með virkum alkóhólista. Fyrir meðvirkan einstakling er það umbun að þjást og finna til af völdum annarra. Ef alkóhólistinn væri ekki til staðar svo hinn meðvirki gæti ekki lengur bent á að væri orsök vanlíðunar sinnar og haldið áfram að taka ábyrgð á myndi meðvirki einstaklingurinn finna til meiri vanmáttar, smánar og sjálfsvorkunnar.

 

Hringur meðvirkninnar er á þessa leið: Einhversstaðar í hringnum hefur einstaklingurinn orðið meðvirkur og þegar meðvirknin hefur öðlast líf í einstaklingnum verður það ómeðvitað. Einstaklingurinn er með lítið sjálfstraust og ófær um að aðgreina sig, stuðningur við aðra til þess að vera sáttur við sjálfan sig, nauðsynlegt að fá viðurkenningu frá öðrum. Einstaklingurinn trúir að hann geti ekki veitt maka sínum viðnám, einstaklingurinn reynir að forðast árekstra sem geta reynt á samskiptin og að lokum einstaklingurinn upplifir sig vanmáttugan og hefur ekkert sjálfstraust (Doveiko, 2006).

 

Hægt er að skipta einstaklingum sem verða meðvirkir í tvo hópa. Annars vegar eru það þeir sem hafa alist upp við alkóhólisma og erfiðar aðstæður einstaklingarnir læra snemma hegðunarmunstur meðvirkninnar og taka með sér inní fullorðinsár. Svo eru það þeir einstaklingar sem hafa alist upp við eðlilegar heimilisaðstæður og fara inn í alkóhólískt samband. Einstaklingarnir læra leikreglur og hegðun sem fylgir sambandinu og verða síðar meðvirkir. Það eru ekki allir með lítið sjálfstraust svo að ef einstaklingur með gott sjálfstraust sem fer inní samband með alkóhólista bakkar eðlilega  út úr því ef viðkomandi finnur að það ógnar honum. Þar með er hringurinn rofin. Einnig getur einstaklingur verið tilfinningalega heill og farið inní samband með meðvirkum einstakling og stuðlað að því að hringurinn rofnar í samvinnu með þeim sem var meðvirkur. Þetta segir að það eru ekki allir meðvirkir frá barnsaldri en þó er stór hluti fullorðinna uppkomin börn alkóhólista og geta þar með verið meðvirkir frá barnsaldri (Doveiko, 2006; Subby, 1987).

 

Fagaðilar sem starfað hafa við áfengis- og vímuefnameðferðir hafa orðið varir við svipuð mynstur í fari meðvirkra einstaklinga. Þessi mynstur má flokka í eftirfarandi hlutverk:

 

  1. Einfarinn, tilfinningalega lokaður: Er hættur að láta sig málin varða og er alveg sama.

  2.  Einstaklingur sem þarfnast stöðugt viðurkenningar: þarfnast viðurkenningar frá maka.

  3. Umönnunaraðilinn: Helgar líf sitt í að hugsa um alkóhólistann.

  4.  Þátttakandinn: Tekur þátt í lífsstíl og hegðun alkóhólistans en er stöðugt að reyna að breyta honum.

  5. Stjórnandinn: Reynir að stjórna öllu og öllum í kringum sig bæði hegðun og líðan.

  6. Píslarvottur: hengir sjálfsvirðingu sína á hversu mikið einstaklingurinn hefur fórnað í lífi sínu fyrir alkóhólistann.

  7. Frelsarinn: Berst á móti neyslu einstaklingsins en gerir það á þann hátt að  alkóhólistinn er aldrei neyddur til þess að taka afleiðingum gerða sinna.

  8. Saksóknarinn: Sakar alla aðra um vandamálin en alkóhólistann tjáir reiði og biturð á þann hátt sem píslavotturinn gæti ekki (Doveiko, 2006).  

 

Með aðstoð fagaðila er hægt að hjálpa einstaklingum bæði börnum og fullorðnum með viðhorfsbreytingar og auka sjálfstraust, sjálfsvirðingu og sjálfsmynd. Þau fastmótuðu neikvæðu viðhorf sem meðvirkur einstaklingur hefur þróað með sér til sjálfs sín geta fagaðilar unnið með og snúið því ferli við. Einstaklingnum er gert grein fyrir að hegðun þeirra gengur út á að viðkomandi er að bregðast eðlilega við í óeðlilegum aðstæðum (Cruse – Wegscheider,1987).

 

Eftir því sem meðvirkni einstaklings þróast sem stafar af þeirri streitu sem áfengisdrykkjan veldur verður viðkomandi háðari því hegðunarmunstri sem meðvirkir einstaklingar þróa með sér .

 

Afneitun og varnarhættir

 

Afneitun og varnarhættir sem eru algengir hjá meðvirkum einstaklingum eru eftirfarandi:

 

  1. Frávarp felst í því að ætla öðrum kennd sem býr í manni sjálfum. Af því að kenndin er óþægileg er það fyrsta stigið að afneita henni og eigna hana öðrum.

  2. Bæling tilfinninga, þegar bæling á sér stað er hvöt eða minningum sem eru ógnandi haldið utan meðvitundar, óminni er dæmi um bælingu.

  3. Hefting eða reiði birtist sem árásarhneigð sem beinist að því sem veldur heftingunni til dæmis að einstaklingnum  sjálfum, maka, foreldrum eða samfélaginu.

  4. Réttlæting Í henni felst að finna skynsamlega eða viðurkennda ástæðu fyrir verknaði eða hegðun svo það virðist sem við höfum hegðað okkur skynsamlega og eðlilega.

  5. Hjálparleysi lærist þegar einstaklingur lendir í erfiðleikum sem ekki er hægt að leysa með neinum ráðum, til dæmis einstaklingar í ofbeldissambandi eða vera í alkóhólísku sambandi eða alast upp við alkóhólisma.

  6. Afturhvarf/bakrás verður þegar einstaklingur hverfur aftur til eldra hegðunarmynsturs vegna mikillar streitu til dæmis skapofsaköst eða algert ósjálfstæði hjá fullorðnu fólki (Chaudron og Wilkinson, 1988).

 

Óskráðar reglur í alkóhólískum fjölskyldum

 

Reglur í fjölskyldum þar sem alkóhólismi er til staðar eru: Ekki segja frá það er leyndarmál í fjölskyldunni og ekki treysta neinum. Í fjölskyldum þar sem einstaklingar eru meðvirkir verða til fastmótuð hegðunarmunstur t.d. lært hjálparleysi. Dæmi um lært hjálparleysi er meðal annars, móðir sem tekur alla ábyrgð á börnum sínum og leyfir þeim ekki að hafa skoðun á hlutunum eða bera ábyrgð á eigin ákvörðunum. Annað dæmi, faðir sem tekur bilaða hjólið af syni sínum sem ætlar að reyna að gera við það því hann treystir sjálfum sér betur til þess en barninu. Síðasta dæmið er makinn sem sér algerlega um fjármálin því hann treystir ekki hinum aðilanum til þess. Af þessu leiðir lært hjálparleysi sem meðvirkir einstaklingar eiga auðvelt með að skapa í sínum fjölskyldum þar sem þeir taka á sig alla stjórn og ábyrgð. Þrátt fyrir mikla reiði og sorg bælir meðvirki aðstandandinn tilfinningar sínar niður og segir við aðra, það er ekkert að mér, ég er ekki reið/ur þrátt fyrir að allt fas og látbragð segi aðra sögu. Ástæða fyrir þessum tvöföldu skilaboðum er meðal annars ótti við höfnun eða að vera yfirgefin. Þó svo að viðkomandi þrái jafnvel að losna út úr sambandi sem einkennist af vímuefnaneyslu og/eða ofbeldi (Cruse – Wegscheider,S. 1987).

 

Leiðir til að þekkja og meðhöndla meðvirkni

 

Hvernig á að meðhöndla meðvirkni? Það eru tvær leiðir sem oftast eru farnar af fagfólki þegar meðvirkur einstaklingur leitar aðstoðar. Sú fyrri er sú sem flestir fara vegna þekkingarleysis á fíknisjúkdómum og meðvirkni. Meðferðaraðilinn reynir að fást við einkennin og meðhöndla þau. Kvíði, þunglyndi og reiði sem dæmi eru þá meðhöndluð sem sértæk einkenni og sjálfstæð vandamál og meðhöndluð sem slík án tillits til orsaka. Seinni leiðin sem oft má sjá hjá meðferðaraðilum sem einblína á fíknisjúkdómana að þeir eru of uppteknir af alkóhólistanum og því að fjölskyldumeðferðin sé stíluð um of inn á að hjálpa þeim fíkna. Vegna þess getur verið að þarfir meðvirka einstaklingsins séu ekki skoðaðar nægilega vel (Cermak,1986).  

 

Sérstaklega þarf að hafa í huga eftirfarandi fimm atriði hjá meðvirkum einstaklingum þegar liggur fyrir að viðkomandi er með vísbendingar um meðvirkni og áður en einstaklingnum er vísað í fjölskyldumeðferð.

 

  1. Hvernig er neyslu einstaklingsins háttað, áfengi, vímuefni, róandi ávanalyf og fl.

  2. Býr viðkomandi við þær aðstæður að bati geti átt sér stað.

  3. Þjáist viðkomandi á áfallastreituröskun (e. Post traumatic stress disorder).

  4. Meta þarf hvort einstaklingsmeðferð hæfi betur en hópmeðferð.

  5. Meta þarf á hvaða batastigi viðkomandi er (Cermak, 1986).

 

Gagnrýni á hugtakið meðvirkni

 

Margir sem leita til meðferðaraðila eða í sjálfshjálparhópa koma eru sjálfir búnir að greina hjá sér meðvirkni. Einnig virðist það hugarfar ríkjandi bæði á meðal fagaðila og almennings að einstaklingar sem koma frá meðal annars alkóhólískum fjölskyldum séu meðvirkir (Baer, Marlatt og McMahon, 1993).

 

Gagnrýnin á greininguna eða hugtakið meðvirkni er því sú að það geta verið aðrir þættir sem stuðla að litlu sjálfstrausti, markaleysi og vanlíðan hjá einstaklingnum en sú að hafa búið við alkóhólisma. Einnig þarf að rannsaka betur hvort að aðrir umhverfisþættir geti ýtt undir þessa líðan þá með tilliti til kyns, félagslegrar stöðu í samfélaginu og kynþáttar.

 

Í rannsókn Sher (1997) varpar hann fram þeirri spurningu hvaða sannanir séu til fyrir því að meðvirkni sé til. Þrátt fyrir að Institute of Medicine hafi í skýrslu árið 1989 hvatt til aukinna rannsókna á meðvirkni og meðvirkum einstaklingum þá eru vísindalegar rannsóknir á meðvirkni nánast ekki til. Auk þess eru þær rannsóknir sem til eru meingallaðar vegna aðferðarfræðilegra takmörkunar. Sérstaklega hvað varðar þau úrtök sem notuð eru og hversu þröngt sjónarhorn rannsóknanna er. Þá tiltekur Sher einnig að lítið sem ekkert hafi komið fram í þessum rannsóknum  sem styðji gagnsemi meðvirknihugtaksins fram yfir önnur vel skilgreind hugtök eins og þunglyndi, og kvíðaraskanir.

 

Meðvirknihugtakið eins og hugmyndir um börn alkóhólista hafa nokkuð misst marks vegna þess hve almenn og víðtæk skilgreiningin er. Þá er jafnvel varasamt að draga of miklar ályktanir um einstaklinginn út frá einföldum upplýsingum um að viðkomandi hafa búið með alkóhólista. Af þessum ástæðum telur Sher margar metsölubækur um meðvirkni lítið gagnlegar ef ekki skaðlegar vegna þess hve almennt þær skilgreina vandann og alltof mikið er um alhæfingar (Sher, 1997).

 

Það gæti einnig verið umhugsunarvert hvort rekja mætti ástæðuna fyrir að einstaklingar telji sig meðvirka og þá fagaðilar ranglega greina einstaklinginn. Ástæðan fyrir því gæti verið sú að viðkomandi horfist ekki í augu við að um annarskonar andlega sjúkdóm gæti verið um að ræða svo sem þunglyndi sem getur leitt til óvirkni einstaklingsins. Einstaklingar hafa í gegnum aldirnar þurft að glíma við ýmsa erfiðleika hvort sem þeir hafi verið einir, í fjölskyldum eða með öðrum til þess að komast af og hafa komist af og fólk mun halda því áfram (Baer, Marlatt og McMahon, 1993).

 

Gagnrýnendur hafa líka bent á að kenning um meðvirkni tekur ábyrgð af hegðun alkóhólistans. Þessi kenning er sett upp við hlið fjölskyldusjúkdómslíkansins svo allir í fjölskyldunni eru eða geta verið flokkaðir veikir ef þeim líður ekki vel sem getur verið lausn í alkóhólískum fjölskyldum. Sett hefur einnig verið út á það að meðvirkni sé af sumum fræðimönnum líkt við áfengissýki og að meðvirkni sé heilasjúkdómur. Það er að segja að umbunarkerfið í heila meðvirka einstaklingsins fari af stað í vissum samskiptum hans við alkóhólistann líkt og vímuefnið gerir fyrir heila alkóhólistans. Helsta gagnrýnin á meðvirkni kenninguna er að ekkert af þessum kenningum um meðvirkni hefur verið hægt að sanna með vísindum (Doveiko, 2006).

 

Heimildir

 

Baer, J. S., Marlatt, A. G. Og McMahon, R. J. (Ritstj.). (1993). Addictive Behaviors Across the Life Span. SAGE Publications. London.
Cermank, Timmen, L. (1986). Diagnosing and Treating Co-Dependence. Johnson Institute Books. USA: Minnesoda.
Chaudron, D. C. Og Wilkinson, D. A. (Ritstj.). (1988). Theories on alcoholism.  2. Útgáfa. Addiction Research Foundation. Toronto, Canada.
Cruse – Wegscheider, Sharon.(1987). Choicemaking. 2. útgáfa. Health Communications, Inc. Florida: Deerfield Beach.
Doweiko, H. E. (2006). Concepts of Chemical Dependency (6. Útgáfa). USA: Thomson Brooks/Cole.
Rotunda, J. R. og Dorman, K. (2001). Partner enabling of substance use disorders: Critical review and future directions. The American journal of family therapy. 29. bls. 257-270.
Sher, J. K. (1997). Psychological caracteristics of children of alcoholics. Alcohol health & research world. 21. bls. 247-254.

Subby, R. (1987). Lost In The Shuffle. Health Communications, Inc. Florida: Deerfield Beach.

 

 

 

 

bottom of page