Lifandi ráðgjöf ehf.
Börn í drykkjusjúkum fjölskyldum
Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir. (2004).
Heiti ritgerðarinnar og umfjöllunarefni er: Börn í drykkjusjúkum fjölskyldum. Hvað er það sem mótar einstaklinginn, umhverfið eða erfðirnar? Hegðunarmunstri barna sem alast upp í drykkjusjúkum fjölskyldum er lýst og reynt að finna út hvort þessi einkenni fylgja einstaklingnum inn í fullorðinsár. Vegnar þessum börnum ver þegar þau fullorðnast?
Í lokaorðum set ég fram þá fullyrðingu að það skipti miklu máli að vinna úr þeim erfiðleikum sem uppvöxtur í áfengissjúkri fjölskyldu skapar.
Hvað mótar einstaklinginn?
Félagssálfræðingar telja að umhverfi og reynsla móti einstaklinginn. Líffræðisálfræðingar telja að erfðir eigi einnig stóran þátt í því hvað móti einstaklinginn í að verða eins og hann er. Þannig mætti með sanni segja og telja nokkuð víst, að umhverfisþættir, nám og erfiðir ráði mestu um mótun einstaklingsinns (Wade og Tavris. 2003).
Í Bandaríkjunum er talið að í einni fjölskyldu af hverjum sex, alist börn upp við alkóhólisma. Það segir okkur að 28 til 34 milljónir barna og fullorðinna, alist upp eða hafi alist upp við alkóhólisma. Talið er og fullyrt að lang flestir þeirra sem alast upp slíkar aðstæður þjáist af andlegum og líkamlegum veikindum sem rekja má til þessara uppeldisaðstæðna.
Í uppeldinu lærist ákveðið hegðunar munstur sem fullorðin börn alkóhólista ómeðvitað eru enn í þegar þau stofna sína eigin fjölskyldu. Samskiptin í nýju fjölskyldunni geta því orðið óeðlileg þrátt fyrir að enginn alkóhólismi sé í þeirri fjölskyldu. Áhrifa sjúkdómsins alkóhólisma flyst því frá einni kynslóð til annarar ef ekkert er að gert.
Með öðrum orðum er geta einstaklingsins til að vera í samskiptum við annað fólk, persónulega eða óformlega töluvert skert. Hæfni þeirra til að leysa vandamál og bera ábyrgð er að öllu jöfnu önnur og minni en þeirra sem alist hafa upp við eðlilegar aðstæður.
Það er staðreynd að uppkomin börn alkóhólista velja sér mjög oft maka sem á við áfengis og vímuefnavanda að stríða. Samskipti í alkóhólískri fjölskyldu er það sem einstaklingarnir þekkja og því ekki óeðlilegt að viðkomandi leiti í sama farið. Einstaklingurinn bregst eðlilega við óeðlilegu ástandi. Margir sem leitað hafa aðstoðar til félagsráðgjafa eða sálfræðinga segja að þeim líði einungis vel ef þeir hafi einhvern til að hugsa um (Crespi og Sabatelli, 1997).
Margir einstaklingar sem koma frá heimilum þar sem alkóhólismi og vanræksla hefur verið viðvarandi ástand í uppvexti þeirra, koma ekki verri út í samfélagið en aðrir. Þeir takast á við skyldur sínar sem einstaklingar í samfélaginu og eru ekki síðri en þeir sem koma úr “heilbrigðum,, fjölskyldum.
Margir félagsráðgjafar undra sig á þessu og halda því fram að það ætti að spyrja enn frekar í rannsóknum á börnum alkóhólista. Spyrja spurninga eins og hvort hafi meiri áhrif í að móta einstaklinginn, umhverfi og uppeldisskilyrði eða erfðir (Fischer og Wampler, 1994)?
Börn í drykkjusjúkri fjölskyldu
Börn sem koma úr áfengissjúkum fjölskyldum eru í hættu að vera á eftir í þroska og eiga oft við hegðunarvandamál að stríða. Þetta er þó ekki algilt og getur verið mjög einstaklingsbundið.
Að vera barn alkóhólista er ekki það eina sem skapar einstaklinginn, heldur eru það margir aðrir utan að komandi þættir sem spila þar inn í. Inni á heimilunum er oft ósamkomulag, lítil umhyggja og lítið af jákvæðri hvatningu.
Margir hafa rannsakað hvernig þessir einstaklingar koma út í samfélagið. Þeir sem staðið hafa að þess konar rannsóknum hafa komist að því að þessir einstaklingarnir eiga oft við meiri andlega og líkamlega sjúkdóma að stríða á fullorðinsárum (Loukas, Piejak, Bingham, Fitzgerald og Zucker, 2001).
Til þess að komast af í drykkjusjúkum fjölskyldum, þar sem nánast allt er gert til þess að alkóhólistinn fari ekki að drekka, verður til ákveðið hegðunar mynstur. Maki, börn, foreldrar og systkini fara inn í ákveðin hlutverk.
Mismunandi hugtök eru notuð yfir þessi hegðunar mynstur. Hjá börnum eru þessi hlutverk oft nefnd trúðurinn, týnda barnið, hetjan og svarti sauðurinn. Víða í AA – samtökunum eru þessi hugtök notuð og samþykkt, en þau hafa lítið verið rannsökuð (Fischer og Wampler, 1994).
Hlutverk barna í drykkjusjúkri fjölskyldu
Börn í drykkjusjúkum fjölskyldum taka oft að sér þýðingarmikil hlutverk. Viðbrögð barnanna við drykkjusjúkum einstaklingum innan fjölskyldunnar geta verið margvísleg.
Sum þeirra verða uppreisnargjörn, önnur draga sig í hlé eða þau taka að sér hlutverk foreldris og annast systkini sín. Hægt er að orða þetta þannig að þessi börn eru að takast á við verkefni sem eru í engu samræmi þroska þeirra og aldur.
Hlutverkum barna drykkjusjúkra foreldra er gjarnan skipt í fjóra flokka eftir því hvaða einginleikar verða mest ríkjandi hjá þeim:
Týnda barnið: Barnið eyðir miklum tíma einsamalt við ýmislegt hljóðlátt dund. Barnið er mjög rólegt og fáir taka eftir því. Barnið fær hvorki jákvæða né neikvæða athygli og þetta er barnið sem ekki þarf að hafa áhyggjur af.
Trúðurinn: Barnið hefur geislandi persónuleika og er ávallt skemmtilegt. Barnið kemst því af með því að nota kímnigáfu sína.
Svarti sauðurinn: Barnið fyrirlítur fjölskyldu sína og vill ekki vera hluti af henni. Ástæðan er sú að það lærir snemma að hvorki umbun né athygli fæst í fjölskyldunni hvort heldur sem hegðun þess er rétt eða röng. Barnið sækist eftir neikvæðri athygli og er því oft til vandræða, til dæmis í leikskóla og skóla.
Hetjan: Barnið tekur að sér alla ábyrgð á heimilinu og er sjálfu sér meðvitað um það sem er að gerast. Barnið reynir öllum stundum að bæta ástandið og láta öðrum líða vel (Sölvína Konráðs, 2001).
Í þessu hegðunar mynstri er barnið, án tillits til hverjar þarfir þess eru. Þessi hegðun og þetta atferli er oft á kostnað líðan barnsins. Jafnvel ef barnið er í jákvæðu hlutverki er það á kostnað neikvæðra tilfinninga hjá því. Ef barnið er í hlutverki hetjunnar verður það að haga sér vel og vera úrræðagott þrátt fyrir mikinn kvíða og óöryggi. Þessi hegðun er samþykkt við vissar aðstæður, þar sem hún á við.
Á öðrum sviðum getur hún unnið á móti einstaklingnum í lífinu s.s. á fullorðins árum. Óraunhæfur kvíði getur orðið viðvarandi og hamlað fólki í daglegu lífi (Fischer og Wampler, 1994).
Rannsakað hefur verið hjá ungu fólki sem alist hefur upp við drykkjusýki hvort hafi verið meira ríkjandi í æsku, jákvætt hlutverk (hetjan, trúðurinn) eða neikvætt hlutverk (týnda barnið, svarti sauðurinn). Niðurstöður þeirra rannsókna sýndu að jákvæðu hlutverkin komu minna í ljós, en meira fór fyrir neikvæðu hlutverkunum (Fischer og Wampler, 1994).
Ágreiningur hefur verið um hvort einstaklingar sem alist hafa upp í drykkjusjúkum fjölskyldum og hafa myndað sér ákveðið hegðunar mynstur haldi því fram á fullorðins ár. Ef svo væri, er þá hægt að gera ráð fyrir því að svarti sauðurinn og tínda barnið væru líklegri til andfélagslegrar hegðunar og afbrota?
Eru trúðurinn og hetjan líklegri til að vera í góðu starfi hjá stóru fyrirtæki og vegna vel í lífinu (Fischer og Wampler, 1994)?
Ekki hafa verið gerðar formlegar rannsóknir á hvort drengir eða stúlkur séu líklegri að festast í ákveðnum hlutverkum. Leiða má þó líkum að því að stúlkur séu frekar í jákvæðu hlutverkunum en drengir í neikvæðu hlutverkunum (O Hare, 1995).
Lokaorð
Segja má að þeir sem alast upp í áfengissjúkum fjölskyldum fái nokkuð fast mótuð einkenni sem rekja megi til aðstæðna í fjölskyldunni á uppvaxtarárum þeirra. Þessi einkenni verða ekki til þess að þessum einstaklingum vegni verr eða farnist illa almennt þó ekkert sé að gert.
Ef ekki er unnið úr tilfinningalegum afleiðingum uppvaxtaráranna hefur verið sýnt fram á að þessum einstaklingum líður oft illa og heilsa þeirra er verri á fullorðinsárum. Einstaklingurinn leitar jafnvel í sama farið, eignast sína eigin drykkjusjúku fjölskyldu. Það val byggist kannski eingöngu á því að viðkomandi hefur ekki fengið þá fræðslu og andlegu aðstoð sem nauðsynlegt er að hann fái. Fræðslan þarf að vera um hvað er alkóhólismi, hvað er að vera aðstandandi alkóhólista og hvað er meðvirkni.
Við það að fá fræðslu tel ég að sjálfsvirðing einstaklingsins aukist og viðkomandi verði frekar í stakk búinn til að velja hvað það er sem hann vill og óskar í lífinu. Hann á auðveldara með að komast út úr því hegðunar munstri sem hann hefur tamið sér og vera vakandi fyrir þeim merkjum sem segja honum að hann er að fara í sama farið aftur.
Það er því mat mitt að miklu máli skipti aðkoma félagsráðgjafa að þessum einstaklingum. Fagleg úrvinnsla á vandamálum þeirra snemma á lífsleiðinni skiptir mjög miklu og getur aukið lífsgæði einstaklingsins verulega.
Heimildir:
Crespi, T.D. og Sabatelli, R.M. (1997). Children of alcoholics and adolescence: Individuation, development, and family systems. Adolescence. Roslyn Heights, 32, 407 – 418. Sótt 01. nóvember, 2004, úr Proquest gagnagrunninum.
Fischer, J.L. og Wampler, R.S. (1994). Abusive drinking in young adults: Personality type and family role as moderators of family-of-origin influences . Journal of Marriage and the Family, 56, 469 – 480. Sótt 29. október, 2004, úr Proquest gagnagrunninum.
Loukas, A., Piejak, L.A., Bingham, R., Fitzgerald C.,Hiram,E. og Zucker, R.A. (2001). Parental distress as a mediator of problem behaviors in sons of alcohol-involved families. Family Relations, 50, 293-302. Sótt 29. október, 2004, úr Proquest gagnagrunninum.
O Hare, T. (1995). Mental health problems and alcohol abuse: Co-occurence and gender. Health & social Work, 20, 207 – 302. Sótt 31. október, 2004, úr Proquest gagnagrunninum.
Sölvína Konráðs (2001). Sálfræðilegar skýringar á alkóhólisma. Í Fíkniefni og forvarnir, Handbók fyrir heimili og skóla (bls. 108-109). Reykjavík: Fræðslumiðstöð í fíknivörnum.
Wade, C. og Tavris, C. (2003). Psychologi. 7. útgáfa, New Jersey: Pea. Edu. Ins.