top of page

Lifandi ráðgjöf ehf.

Áfengissýki og fordómar

Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir. (2004).

Í þessari ritgerð fjalla ég um fordóma gagnvart áfengisýki. Í byrjun ætla ég í stuttu máli að reyna að svara spurningunum: Hvað eru fordómar og hvers vegna verða fordóma til?
Næst kem ég að sjúkdómnum áfengis og vímuefnafíkn, sem ég tel verða fyrir miklum fordómum í samfélaginu. Eru fordómar gagnvart áfengissýki og af hverju?
Að lokum reyni ég að svara hvernig hægt er að eyða fordómum? Hvað er til ráða, og hvers þurfa félagsráðgjafar að gæta?

Hvað eru fordómar?

Orðið fordómur lýsir afstöðu til manna og málefna ( Orðabók Menningarsjóðs, 1985). Fordómar eru sprottnir af hatri og mikilli vanþóknun á ákveðnum hópi fólks og hegðun þess. Oft eru fordómarnir sprottnir upp af ósanngjörnum misskilningi og neikvæðri mynd sem dregin er upp jafnvel í samfélaginu sem við lifum í (Wade, C. og Tavris, C., 2003).
Þær tilfinningar sem liggja að baki fordóma eru meðal annars, reiði og vanmáttur. Stundum hafa þessar tilfinningar og viðhorf skapast af vanþekkingu eða biturri reynslu einstaklingsins af ákveðnum hópi fólks og hegðun þess. Það sem gerist þegar fordómar verða til er í sálfræðinni kallað hefting, það er þegar einstaklingurinn er heftur í að ná settu marki.
Í félagslegu umhverfi er einstaklingnum oft settar hömlur af samferðarmönnum, allt frá foreldrum til þeirra hafta sem felast í kynþátta og kynjafordómum og hvers kyns misrétti. Stundum er hindrunin fólgin í takmörkun einstaklingsins sjálfs, eitthvað sem einstaklingurinn ætlar sér að ná, er heft (Atkinson R.L., Atkinson R.C. og E.R. Hilgard, 1988).
Með því að fá ekki fullnægt hvötum sínum verður einstaklingurinn reiður og áttar sig jafnvel ekki sjálfur á tilfinningunni. Til þess að fá útrás fyrir reiðina er henni beint að mönnum eða málefnum sem eru jafnvel heftun einstaklingsins alls óskyld. Þetta er kallað misbeind ýgi.
Fordómar þeir sem stundum brjótast út gegn minnihluta hópum eru oft litaðir misbeindri ýgi. Þá eru minnihluta hóparnir notaðir sem blórabögglar (Atkinson R.L., Atkinson R.C. og E.R. Hilgard, 1988). Fordómar eru hluti af venjubundinni hugsun. Á hverjum degi er eitthvað áreiti í umhverfinu sem fer um hugann og er flokkað í viðhorf, fordóma og staðalmyndir.
Þetta mat er ekki háð vilja heldur ómeðvitað og sjálfvirkt, það er að segja utan sjálfráðs vilja okkar (vísindavefur, 2004).

 

Fordómar gagnvart áfengissýki.

Í samfélaginu eru fordómar gegn vissum sjúkdómum miklir. Dæmi um slíka sjúkdóma eru geðveiki, flogaveiki, spilafíkn og áfengissýki.
Það sem einkennir hugmyndir margra um þessa sjúkdóma er tilfinningaleg afstaða fólks til þeirra. Þeir einstaklingar sem eiga við þessa sjúkdóma að stríða, eiga oft erfitt með að fóta sig í samfélaginu.
Viðhorfið gagnvart alkóhólisma er að þetta sé aumingja skapur og að það sjáist best á því að einstaklingurinn er alls gáður þegar hann tekur fyrsta glasið. Ef hann drekkur alltaf of mikið og líður illa á eftir, ætti hann að geta sleppt því að drekka. Hægt er að svara svona fullyrðingum með því að segja: Það vill enginn vera alkóhólisti. Engu líkara er að fólk horfi framhjá staðreyndum sem hafa legið fyrir áratugum saman. Staðreyndir um starfsemi heilans sem sýna óeðlilega virkni þegar einstaklingurinn fer í það ástand sem kallað er fíkn. Sneiðmyndir sýna glögglega að virknin er margföld þegar fíknivakar eru til staðar. Í því ástandi er einstaklingurinn nær stjórnlaus. Þetta er ástandið sem fíkill fer í áður en hann fer í neyslu.
Þó einstaklingurinn fái viðeigandi meðferð og sé vel á veg kominn í batann sinn og nái að halda sjúkdómnum niðri, hefur hann alltaf þessa stimplun. Stimpill sem segir að hann er alkóhólisti. Samfélagið leyfir einstaklingnum ekki að gleyma því.
Atvinnurekendur ráða síður alkóhólista í vinnu, foreldrar vilja helst ekki að börn sín bindist alkóhólistum og alkóhólistar eiga mjög erfitt með að kaupa sér líftryggingu. Þetta eru bara brot af því sem hægt er að telja upp og getur flokkast sem fordómar.
Þannig er hægt að segja, út frá þessu að fordómar gagnvart áfengisjúkum stafi af mestu leiti af þekkingarskorti. Það er þó ekki skoðun mín að þekkingarskortur sé alltaf eina orsök fordóma. Reiði til dæmis, getur verið rót vandans eins og til dæmis hjá aðstandendum fíkla. Ekki er víst að fordómar þeirra stafi af þekkingarskorti. Reiðin gæti átt sér upptök í vanmætti aðstandandans.
Fordómar gagnvart áfengissýki hafa lengi verið til staðar, og sjálfsagt eru það fáir sem ekki hafa einhverja skoðun á sjúkdómnum. Það sem einkennir afstöðu manns og mótar mest um viðhorf, er vit og skynsemi. Þetta gildir um flest.
Það sem hins vegar gerist þegar við fyllumst fordómum er að við notum hvorugt. Hvorki vit eða skynsemi. Þá förum við að notast við brjóstvitið og látum viskuna lönd og leið. Tilfinningarnar taka völdin.
Skilaboðin sem samfélagið sendir okkur í gegnum kvikmyndir og auglýsingar um áfengisdrykkju eru oft þessi, “hraustir menn drekka bjór og vískí” og “fínar konur drekka sherry og campavín”. Samtímis eru skilaboðin einnig þau að “drukknir menn eru rónar” og “drukknar konur eru druslur og lélegar mæður”. (Hjalti Björnsson, NCAC, SÁÁ, munnleg heimild, 6. nóvember, 2004)
Dregin er upp stöðluð mynd af hópi fólks (stereotypes) svart-hvít mynd af áfengisdrykkju. (Wade, C. og Tavris, C., 2003). Svart-hvítar staðalmyndir eða stimplanir eru oftar en ekki undanfari fordóma. Stundum þarf alkóhólistinn að eiga við sína eigin fordóma gagnvart sjúkdómnum. Hann hefur kannski sjálfur haft skömm á alkóhólisma og talið drykkjuvanda aumingjaskap. Allt í einu stendur einstaklingurinn sjálfur frammi fyrir því að þurfa leita aðstoðar vegna neyslu.
Mikil vanlíðan og skömm fylgir þessari líðan. Þetta getur tafið fyrir því að alkóhólistinn leiti sér meðferðar, baráttan við eigin fordóma og viðhorf, ekki síður en dóm samfélagsins. (Hjalti Björnsson, NCAC, SÁÁ, munnleg heimild, 6. nóvember, 2004).

 

Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir fordóma?

Vanþekking og upplýsingaskortur er aðalorsök fordóma. Tilfinningaleg afstaða og viðhorf sem mótast af þekkingarleysi er einnig meðvirkandi þáttur. Það er því ljóst að fræðsla og aftur fræðsla er lykilatriði í baráttunni gegn fordómum.
Félagsþjónustan, Vímulaus æska, Lögreglan og margir fleiri vinna að forvörnum og fræðslu um vímuefnaneyslu. Svo fræðslan fer snemma af stað til barna og unglinga.
Það er til umhugsunar að fordómar eru tiltölulega litlir hjá börnum og unglingum gagnvart fíklum. Þannig að fræðslan virðist skila sér þar, en þyrfti að ná til fullorðinna með einhverjum hætti.
Foreldrar ættu einnig að vera vakandi fyrir því að ræða þessi mál án fordóma. Þeir þurfa að gefa börnum sínum kost á því að vita að ef vímuefna er neytt eru líkur á að einstaklingurinn missi stjórn á neyslu sinni og fái sjúkdóminn alkóhólisma. Fylgja þarf með fræðslunni að hægt er að ná tökum á þessum sjúkdómi og læra að lifa með honum.
Markmið sem t.d. SÁÁ (Samtök áhugafólks um vímuefnavandan) vinnur að er að útrýma vanþekkingu og fordómum á áfengisvandamálinu og hafa áhrif á almenningsálitið með fræðslu um eðli sjúkdómsins.
Framan af síðustu öld höfðu heilbrigðisstéttir lítil afskipti af áfengis- og vímuefnafíkn. Á seinni helming aldarinnar hefur áhugi þeirra vaxið töluvert og kemur þar einkum þrennt til.
Í fyrsta lagi hafa læknar og hjúkrunar fólk þurft í auknum mæli að sinna fylgikvillum þessa sjúkdóms einkum eitrunum og sýkingum. Slys eru einkum algeng hjá alkóhólistum.
Í öðru lagi er vaxandi fjöldi sprautufíkla sem jafnan eru líkamlega veikari en aðrir fíklar og gjarnan fórnarlömb alnæmis og lifrarbólgu C (saa, 2004). Fagfólki verður það stöðugt skiljanlegra að enginn vill vera í stöðu fíkils sem er við dauðans dyr. Samt ná þeir oft ekki bata.
Í þriðja lagi þá hefur þekking vaxið gríðarlega á síðustu árum á fíknisjúkdómum. Þessi aukna þekking hefur valdið því að vísindum er nú beitt í glímunni við fíknina.


Lokaorð.

Ljóst er að upplýsingar og fræðsla eru lykilatriði til að koma í veg fyrir fordóma. Einnig er nauðsynlegt að almenningur viti yfir höfuð hvað fordómar þýða og af hvaða meiði þeir eru sprottnir. Óvíst er að einstaklingur sem ræðst að minnihluta hópi gerði það ef einhver segði honum að vandinn lægi hjá honum sjálfum, í einhverjum óuppgerðum málum. Einnig ef einstaklingnum væri bent á, að með fordómum væri hann að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra sem minna mættu sín. Er ekki líklegt að viðkomandi myndi endurskoða viðhorf sín? Umburðarlyndi er hægt að kenna og ala á. Kenna fólki að meta fjölbreyttleika mannlífsins og vera með opinn huga gagnvart því óþekkta.
Félagsráðgjafar þurfa vissulega að skoða sín eigin viðhorf og hugmyndir um lífið og tilveruna áður en þeir taka til starfa. Einfaldlega vegna þess að í störfum sínum mæta þeir daglega einstaklingum og viðfangsefnum sem gjarnan tilheyra jaðarhópum sem fordómar beinast oft gegn.

 

Heimildarskrá.

Orðabók Menningarsjóðs, (1985). Sótt 4. nóvember, 2004, af
www.visindavefur.hi.is

Rita L. Atkinson, Richard C. Atkinson, Ernest R. Hilgard, (1988),
Sálfræði II, 8. útgáfa, Reykjavík: Iðunn.

SÁÁ, sótt 4. nóvember 2004 af
www.saa.is

Vísindavefur, sótt 4. nóvember, 2004, af
www.visindavefur.hi.is

Wade,C. og Tavris,C. (2003). Psychologi, 7.útgáfa, New Jersey: Pea. Edu. Ins.

 

 

bottom of page