top of page

Lifandi ráðgjöf ehf.

Fjölskyldan og vímuefnasýki

Fjölskyldan og vímuefnasýki

Jóna Margrét Ólafsdóttir

Steinunn Hrafnsdóttir

 

Rannsóknir sýna að vímuefnasýki hefur ekki eingöngu alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn heldur alla fjölskylduna. Auk þess sem hún getur haft mikinn kostnað í för með sér fyrir samfélagið. Afleiðingar vímuefnamisnotkunar ná ekki eingöngu til heilsu og líðan þess vímuefnasjúka, þær koma einnig í ljós í félagslegu umhverfi einstaklingsins, svo sem í samskiptum í fjölskyldulífi og á vinnustað (Doweiko, 2009; Meyers, Apodaca, Flicker og Slesnick, 2002). 

Í þessari grein er fjallað um niðurstöður eigindlegrar rannsóknar sem gerð var árið 2009. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort þátttakendur upplifðu að vímuefnasýki makans hefði haft áhrif á fjölskylduna og þeirra eigin lífsgæði með tilliti til andlegra, líkamlegra og félagslegra þátta.Hér á eftir er vímuefnasýki skilgreind, gerð er grein fyrir nokkrum rannsóknum á áhrifum vímuefnasýki á fjölskyldur, fjallað er um aðferð, framkvæmd rannsóknar og helstu niðurstöður ásamt samantekt í lokin. 

Skilgreining á vímuefnasýki

Samkvæmt Alþjóða Heilbrigðismálastofnuninni (WHO, e.d.) sem gefur út greiningarkerfið ICD 10, (International classification of diseases) er skilgreining á vímuefnasýki eftirfarandi: 

1. Sterk löngun eða áráttukennd þörf fyrir efnið.2. Stjórnleysi í neyslu vímuefnisins. Neysla verður tíðari, meiri eða varir lengur en gert var ráð fyrir.3. Líkamleg fráhvarfseinkenni þegar dregið er úr neyslu eða vímuefni notuð til þess að draga úr fráhvarfseinkennum.4. Aukið þol gagnvart vímuefninu. Aukið magn þarf til að ná fram sömu áhrifum og áður fengust.5. Sífellt meiri tími fer í að nálgast vímuefni, neyta þeirra og ná sér eftir neyslu og þá á kostnað frístunda eða annars sem veitir vellíðan.6. Neyslu er haldið áfram þrátt fyrir augljósan líkamlegan eða andlegan skaða (WHO. e.d.).

 

Áhrif vímuefnasýki á fjölskyldur
 

Vert er að benda á að áhrif vímuefnaneyslu á tengsl og samskipti í fjölskyldum og í hjónabandi eru flókin og margslungin. Rannsóknir benda til að margir erfiðleikar í fjölskyldum tengist vímuefnasýki svo sem andlegt og líkamlegt ofbeldi, átök, samskiptaerfiðleikar, fjárhagsvandi , skilnaðir, vanræksla barna og aukin hætta á að börn í slíkum fjölskyldum verði sjálf vímuefnasjúk. Þó ber að geta þess að þrátt fyrir þessa miklu erfiðleika þá eru einnig rannsóknir sem sýna fram á að ákveðnir verndandi þættir í fjölskylduumhverfinu geta minnkað líkur á að börn og unglingar skaðist varanlega (Doweiko, 2009).
Rannsóknir hafa sýnt að marktækt minni samheldni, minna sjálfstæði og meiri átök eru í fjölskyldum þar sem er vímuefnasjúkur einstaklingur en í öðrum fjölskyldum (Mahato, Ali, Jahan, Verma og Singh, 2009). Fjármunum er eytt í neysluna og aðilinn sem ekki er í neyslu fer gjarnan í það hlutverk að vera fyrirvinnan eða sá aðili sem ber ábyrgð á fjárhagslegri afkomu fjölskyldunnar (U.S. Department og Health and Human services, 2005). Langtímarannsókn var gerð í Bandaríkjunum á erfiðleikum í hjónaböndum þar sem annar eða báðir aðilar misnotuðu vímuefni. Rannsóknin var fólgin í því að 195 giftum pörum var fylgt eftir í fjögur og hálft ár  og tekin viðtöl við báða aðila í samböndunum í sitt hvoru lagi, fjórum sinnum á tímabilinu. Niðurstöður þessarar rannsóknar leiddu í ljós að einstaklingarnir töldu að streita, andlegt ofbeldi og depurð hefði áhrif á eigið drykkjumynstur. Hvernig áhrif, kom það fram. Einnig kom fram í rannsókninni að fjölskyldur vímuefnasjúkra búa við mikið óöryggi sem smám saman gat leitt til langvarandi streitu og jafnvel einkenna áfallastreituröskunar (Keiley, Keller og El-Sheikh, 2009). Ábyrgð heimils þar sem annar aðilinn í parasambandi á við vímuefnasýki eða aðra virka geðsjúkdóma að stríða, lendir oft á makanum sem ekki er veikur eða eldri börnum í fjölskyldunni. Í samskiptamynstri þar sem kerfi innan fjölskyldunnar fer úr skorðum skapast togstreita og tilfinningaleg vanlíðan. Sem dæmi má taka þar sem ábyrgð samskipta og hlutverka einstaklinga ruglast. Maki hugsar um maka sinn eins og barn eða barn er farið að takast á við samskipti og ábyrgð sem hæfir ekki þroska þess, getu eða aldri (Becvar og Becvar, 1999). Í nýlegri rannsókn á mökum vímuefnasjúkra einstaklinga kom í ljós að ofdrykkjan hafði neikvæð áhrif á samskipti og tilfinningalíf í fjölskyldunni. Árekstrar, andlegt og líkamlegt ofbeldi var algengt og vanræksla í uppeldi barna. Sumir þátttakendur í rannsókninni lýstu hegðunarmynstri vímuefnasjúka makanum á eftirfarandi hátt. Í fyrstu er makinn góður við viðkomandi segir fallega hluti og opnar sig tilfinningalega, sem breytist síðan í neikvæða hegðun. Makinn særir, verður illkvittinn eða beitir líkamlegu ofbeldi. Sumir þátttakendur rannsóknarinnar höfðu ekki frá neinu jákvæðu að segja um samskiptin í fjölskyldunni. Í rannsókninni var einnig reynt að greina hvort tímalengd parasambandsins hefði áhrif á drykkjumynstrið. Niðurstaðan var sú að ekki var unnt að staðfesta að eitthvert eitt tímabil í parasambandi ýtti undir drykkju/neyslu maka (Kenneth, Leonard og Eiden, 2007). Í rannsókn Rotunda og Doman (2001) var sýnt fram á að viðbrögð maka við neyslugeta haft mikil áhrif á þann vímuefnasjúka. Þannig geta viss viðbrögð ýtt undir og flýtt fyrir því að sá vímuefnasjúki leiti sér aðstoðar. Aftur á móti geta önnur viðbrögð á sama hátt komið í veg fyrir og dregið á langinn að vímuefnasjúki einstaklingurinn leiti sér aðstoðar. Rannsókninni var ætlað að draga fram hvort ákveðin hegðun maka gæti ýtt undir áframhaldandi drykkju og jafnvel komið í veg fyrir að vímuefnasjúkir reyndu að leita sér aðstoðar. Í rannsókninni var sýnt fram á að óæskilegur stuðningur maka getur viðhaldið sjúklegu ástandi. Ef makinn tók langtímum saman alla ábyrgð og skyldur af þeim vímuefnasjúka og drakk og/eða notaði önnur vímuefni með viðkomandi. Einnig ef maki sagði ósatt og afsakaði þann vímuefnasjúka til að hylma yfir neysluna. Ákveðin viðhorf hjá makanum gagnvart sambandinu gátu þannig ýtt undir óæskilegan stuðning sem gat viðhaldið ástandinu (Rotunda og Doman, 2001). Vímuefnasjúkir einstaklingar eiga oft erfitt með að sinna foreldrahlutverki vegna neyslu sinnar sem getur leitt til andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar vanrækslu barna. Þetta getur leitt til kvíða, streitu og áhættuhegðunar hjá börnum og unglingum. Þættir sem hafa verndandi áhrif á börn og unglinga sem alast upp við vímuefnasýki eru til dæmis hversu lengi neysla foreldra hefur varað, hvort það eru eldri systkini sem sinna þeim eða aðrir ættingjar eða vinir (Doweiko, 2009; Mahato o.fl., 2009). 
Rannsóknir hafa sýnt að skilnaðir eru tíðir í samböndum þar sem er mikil neysla. Það er þó ekki hægt að fullyrða hvort ástæða skilnaðanna sé vegna neyslunnar eða vegna þess að einstaklingarnir eiga einfaldlega ekki saman (Chaudron og Wilkinson, 1988; Kenneth o.fl., 2007). Í rannsóknum kemur þó einnig fram að í sumum samböndum býr ákveðin styrkur sem orðið hefur til í fjölskyldunni vegna þeirra erfiðleika sem vímuefnaneyslunni fylgir og fjölskyldan hefur orðið að takast á við vegna neyslu makans. Einstaklingarnir nýta þessa styrkleika og finna sínar eigin leiðir til þess að komast af í gegnum erfiðleikana. Algengt er að einhver einn aðili þá oftast maki taki það hlutverk að sér að leysa úr vandamálum sem upp koma, líka þeim sem skapast vegna neyslunnar. Við það er viðkomandi aðili að reyna að hlífa þeim vímuefnasjúka og öðrum fjölskyldumeðlimum, til dæmis börnum (Miller og Gorski, 1982). Rannsóknir hafa auk þess sýnt að afleiðingar neyslu einstaklings sem er einn eða í parasambandi hefur bæði sálræn áhrif og efnahagsleg áhrif á einstaklinginn og makann. Félagslegu og sálrænu afleiðingarnar af neyslunni hafa einnig í för með sér að sá aðili sem er í neyslu og makinn geta þróað með sér reiði, streitu, kvíða, vonleysi, skömm, einangrun, hugsa ekki um líkamlega heilsu og sýna jafnvel af sér óeðlilega kynferðislega hegðun (U.S. Department og Health and Human services, 2005).

 

Aðferð og framkvæmd

 

Rannsóknin var framkvæmd á tímabilinu janúar til ágúst 2009. Tekin voru viðtöl við tíu einstaklinga sem eiga maka sem er vímuefnasjúkur, fimm konur og fimm karlmenn. Karlarnir voru á aldrinum 38 til 65 ára og konurnar 40 til 51 árs. Val á viðmælendum var snjóboltaúrtak, stundum kölluð keðjuverkandi viðtöl, það er að segja einn einstaklingur benti á viðmælanda sem benti svo á annan og sá viðmælandi á þriðja viðmælandann og svo koll af kolli. Þessi aðferð er heppileg þegar leitað er eftir sérstakri upplifun og reynslu þátttakenda í rannsókn. Dýpri skilning er hægt að öðlast á aðstæðum og upplifun einstaklinga þegar notuð er eigindleg rannsóknaraðferð, þar sem rannsóknarverkfærin eru viðtöl og um fáa þátttakendur er að ræða. Rannsakandinn getur einnig með þessari rannsóknaraðferð öðlast skilning á þeirri merkingu sem fólk leggur í sitt eigið líf (Esterberg, 2002). Takmarkanir rannsóknarinnar eru að hún byggir á litlu úrtaki og því ekki unnt að alhæfa um alla maka vímuefnsjúkra. En rannsóknin gefur vísbendingar sem nýta má til frekari rannsókna á fjölskyldum vímuefnasjúkra.

 

Niðurstöður

 

Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og reynsluheim viðmælendanna voru eftirfarandi þemu sameiginleg hjá þátttakendum

 

  1. Vímuefnasýkihafði áhrif á fjölskyldur þátttakenda og andlega líðan svo sem kvíða og streitu.

  2. Þátttakendur höfðu ekki alist upp við vímuefnasýki en veikindi eða áföll í æsku.

  3. Þátttakendur höfðu upplifað andlegt og líkamlegt ofbeldi.

  4. Þátttakendur lýstu rofnum tengslum við stórfjölskyldu, einangrun og að líta á vinnustað sem griðastað.

  5. Vímuefnasýkin hafði andleg og félagsleg áhrif á börnin í sambandinu.

  6. Þátttakendur höfðu upplifað skilnað og fjárhagslegt tjón.

 

Fram kom munur á upplifun og reynsluheimi á milli kynja, til dæmis töluðu allar konurnar um streitutengda andlega og líkamlega sjúkdóma sem þær höfðu leitað aðstoðar með hjá lækni. Karlarnir töldu sig ekki hafa fengið hliðarsjúkdóma aðra en andlega vanlíðan sem ekki var meðhöndluð af lækni. Þrír karlar í rannsókninni höfðu einnig fengið greininguna vímuefnasýki og litu þeir frekar á sig sem vímuefnasjúka en sem aðstandenda þó að maki þeirra væri vímuefnasjúkur. Þó var reynsla og upplifun þessara karla samhljóða við þá viðmælendur sem ekki voru vímuefnasjúkir. Í þessari rannsókn kom fram að átta af tíu þátttakendum, fjórar konur og fjórir karlar, höfðu skilið við maka sinn og farið í annað samband og þá við aðra einstaklinga sem fengið höfðu greininguna vímuefnasýki. Ein kona og einn karl voru en í sambúð við maka sinn. 
Þátttakendurnir tíu í rannsókninni voru allir sammála því að vímuefnasýki hefði mikil áhrif á fjölskyldur. Rökstuðningur þeirra var sá að veiki aðilinn gæti auðveldlega stjórnað andlegri líðan fjölskyldunnar með því að varpa eigin vanlíðan yfir á aðra. Að stjórna líðan annarra geta einstaklingar gert á ýmsan hátt meðal annars með því að virða ekki mörk annarra og beita efnahagslegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi. Eins og einn þátttakendanna komst að orði „þetta hefur svakaleg áhrif á allt og alla“. Allir viðmælendur töldu sig hafa upplifað vanlíðan fljótlega í byrjun sambands við maka eða eftir því hvernig vímuefnasýkin þróaðist. Þátttakendurnir nefndu sérstaklega andlega líðan eins og kvíða, reiði, depurð, vonleysi og skömm eins og reynsla þriggja þátttakenda lýsir. „Þegar ég sá að henni fór að líða illa kom hugsunin hvað geri ég nú á ég að láta þetta yfir mig ganga og svo bara beygði maður sig og lét yfir sig ganga. [...] Eftir því sem árin liðu þá breyttist þetta í reiði“. Þátttakendur voru allir sammála því að hugtakið meðvirkni væri raunverulegt og sex viðmælendanna töldu sig vera meðvirkir. Meðvirkni lýstu þátttakendurnir sem þörf fyrir að stjórna hegðun og líðan annarra, hugsa meira um þarfir annarra en sínar eigin, virða ekki eigin mörk, léleg sjálfsmynd, lítil sjálfsvirðing, kvíði, skömm og reiði.

 

Uppeldisaðstæður
 

Fram kom í viðtölum við þátttakendur að sjö af viðmælendunum tíu hefðu orðið fyrir áföllum eða veikindum í æsku. Allir viðmælendur nema þrír höfðu ekki alist upp við vímuefnasýki innan fjölskyldunnar. Allir þátttakendur rannsóknarinnar þekktu þó til þess að einhver í stórfjölskyldunni hafði átt við vímuefnasýki að stríða. Þrjár konur af fimm höfðu átt við alvarleg veikindi að stríða á barnsaldri og ein af þeim varð fyrir kynferðislegri áreitni tólf ára gömul. Þrír af fimm körlum höfðu orðið fyrir áfalli við að missa náin ættingja á unglingsárum og töluðu þeir um að það hefði haft mikil áhrif á þá.

 

Andlegt og líkamlegt ofbeldi

 

Allir viðmælendurnir töluðu um að hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi í sambandinu sem þau lýstu á þann veg að makinn annað hvort þagði og hundsaði viðkomandi, sagði niðrandi ummæli um viðkomandi eða fjölskyldu hans/hennar. Gert var lítið úr viðmælanda bæði á almannafæri og í einrúmi, eða ásakað um framhjáhald svo dæmi séu tekin. Allar konurnar og einn af karlmönnunum lýstu einnig líkamlegu ofbeldi af hendi makans. Ég gat þolað þetta andlega ofbeldi en þegar kom að líkamlega ofbeldinu gat ég ekki meira […] þá einmitt hugsaði ég með mér ef ég geri ekki eitthvað núna […] þá dey ég það var bara ekkert öðruvísi […] ég eiginlega vissi hvað var að fara að gerast þetta lærist þetta hegðunarmunstur. Ég gat ekki hugsað mér að hringja í mömmu eða systur mínar og vera algjör lúser. Allir viðmælendurnir töldu að vímuefnasýkin hefði haft áhrif á fjölskylduna sem birtist í þeirri mynd að makinn upplifði brotna sjálfsmynd, litla sjálfsvirðingu og lét auðveldlega stjórnast af líðan og gerðum þess vímuefnasjúka.
Rofin tengsl, einangrun, atvinna
Allir viðmælendurnir töldu að þeir hefðu á uppvaxtar- og ungdómsárum verið í góðum tengslum við fjölskyldu sína sem hafi svo rofnað þegar viðkomandi stofnaði sína eigin fjölskyldu og makinn þróaði með sér vímuefnasýki. Í viðtölum kom fram : Um leið og við fórum að búa þá gerði hann í því að gera lítið úr fólkinu mínu það særði mig [...] hann kom ekki með mér til þeirra var annað hvort reiður eða drukkinn og ég þoldi ekki að vera að svara spurningum um hann svo öll samskipti minnkuðu. Ég gat ekki sagt neinum hvernig mér leið, foreldrar mínir og systkini mín voru öll farsæl og heilsteypt allt, ég bara einangraði mig og mína fjölskyldu frá þeim en saknaði þeirra óskaplega. Átta af tíu þátttakendum töldu að vímuefnasýki maka hefði ekki haft áhrif á atvinnu þeirra Þvert á móti höfðu einstaklingarnir staðið sig vel í störfum sínum og lagt sig fram um að láta allt líta vel út útá við eins og kemur fram í eftirfarandi ummælum:. Ég stóð mig vel í námi og vildi helst vera bara í háskólanum þar var mín sjálfsmynd að ná að útskrifast með gráðu. Eftir að ég lauk stúdentsprófi þá var ég mjög leitandi lærði að vera sjúkraliði, framreiðslumaður og nú með háskólapróf í félagsvísindum og gekk vel í þeim vinnum sem ég tók mér fyrir hendur þetta var viðurkenning mín á mér sem manneskju. Það var best að vera í vinnunni fannst mér [...] ég kunni það. Ég fór í vinnuna ég fékk þar viðurkenningu og virðingu og leið vel þar [...] vinnan var griðastaður.

 

Andleg og félagsleg áhrif á börnin

 

Þátttakendurnir voru samhljóma í frásögnum sínum um að neysla makans hafði haft áhrif á hegðun og líðan barna þeirra. Konurnar töluðu um að hafa fundið fyrir kvíða og óöryggi hjá börnum sínum en karlmennirnir töldu sig ekki hafa fundið fyrir því. Tvær kvennanna lýstu upplifun sinni þannig: Eldri strákurinn er mjög kvíðinn og lokaður ég veit samt ekki hvort það er vegna þess að faðir hans var oft með læti og ruglaður af drykkju eða vegna þess að hann var lagður í einelti í skóla [...] kannski var hann lagður í einelti vegna líðan sinnar heima fyrir maður veit þetta svo sem ekki [...] getur ekki allt haldist í hendur?

 

Skilnaðir og fjárhagslegt tjón

 

Allir þátttakendur voru sammála um að vímuefnasýki maka hefði komið illa við þá fjárhagslega.Sérstaklega nefndu þeir lágar tekjur sem voru tilkomnar vegna þess að þeir voru eina fyrirvinna og/eða að tekjur höfðu lækkað í kjölfar erfiðs skilnaðar við þann vímuefnasjúka. Tveir þátttakendur lýstu reynslu sinni og upplifun á þennan hátt: Þegar ég skil við manninn minn fór ég bara út með dóttur mína og plastpoka [...]ég átti andvirði hálfrar hæðar sem var í húsnæði okkar g fékk það ekki nema að hluta til baka þegar við skildum [...] ég fékk ekki það sem ég átti í eignunum svo fjárhagslega kom ég illa út úr þessum skilnaði. Ég hef ágætis peningavit enda starfa ég við það og með ágætis laun [...] ég vildi bara skilja við hana og losna svo ég gaf henni útborgun í íbúð. 

 

Samantekt

 

Af greiningu viðtala má sjá að þátttakendur lýsa mörgum sameiginlegum áhrifum vímuefnasýki á fjölskyldumeðlimi. Allir þátttakendurnir töldu að vímuefnasýki hefði haft andleg, félagsleg og líkamleg áhrif á fjölskyldur þeirra.Þrír af tíu viðmælendum höfðu alist upp við vímuefnasýki en sjö af viðmælendunum höfðu upplifað áföll á barnsaldri svo sem eigin veikindi, dauðsföll náinna ættingja og kynferðislegt ofbeldi. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem alast upp við vímuefnasýki eða upplifa annarskonar áföll í æsku svo sem andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, ástvinamissi og veikindi geta tekið með sér ákveðna andlega vanlíðan og hegðun inni í fullorðinsárin. Áföllunum geta fylgt breytingar á sjálfsmati sem getur komið fram í lélegri sjálfsmynd og skorti á sjálfstrausti. Ef ekki er unnið úr vanlíðan barnsins í kjölfar áfalls getur þessi vanlíðan og skerta sjálfsmynd haft áhrif á fullorðinsárum þar með talið makaval og að fara inn í veik sambönd (Williams og Keane, 2004) Samband viðmælenda við stórfjölskyldu hafði breyst við þróun vímuefnasýkinnar. Allir þátttakendur sögðu að tengslin við stórfjölskyldu hefðu verði góð á ungdómsárum en þau tengsl hefðu rofnað með vaxandi drykkju maka, vanlíðan fjölskyldunnar og einangrun. Þetta er í samræmi við umfjöllun Cruse (1987) þar sem fjallað er um óskráðar reglur í vímuefnasjúkum fjölskyldum. Þessar reglur eru helstar: Ekki segja frá það er leyndarmál í fjölskyldunni og ekki treysta neinum. Af þessum sökum geti fjölskyldur sem búa við vímuefnasýki einangrast og dregið sig í hlé frá stórfjölskyldu og vinum 

 

Viðmælendurnir töldu að makinn hefði beitt andlegu ofbeldi á þann hátt að virða ekki persónuleg mörk þeirra og beina reiði sinni að þeim. Auk þess ætti siðferðileg hnignun sér stað sem lýsti sér meðal annars með ábyrgðaleysi í fjármálum og framhjáhaldi. Í viðtölum kom fram að allir þátttakendurnir töldu að neysla makans hefði haft áhrif á hegðun og líðan barna þeirra. Konurnar töluðu um að hafa fundið fyrir kvíða, óöryggi og reiði hjá börnum sínum. Þessar niðurstöður eru í sömu átt og niðurstöður rannsóknar Kenneth o.fl. (2007) þar sem fram kemur að einstaklingar sem eru vímuefnasjúkir eigi oft erfitt með að sinna foreldrahlutverki vegna neyslu sinnar.Í rannsókn Sher (1997) kom fram að þau einkenni sem finna mætti hjá börnum vímuefnasjúkra væru kvíði, taugaveiklun, hvatvísi og ofvirkni en þessi einkenni er einnig að finna hjá þeim sem ekki alast upp við vímuefnasýki en er í marktækt meira mæli hjá börnum vímuefnasjúkra (Sher, 1997). Niðurstöður nokkurra rannsókna á vegum U.S. Department of Health and Human services (2005) hafa fjallað um og sýnt fram á að vímuefnasýki hefur sálfélagsleg og efnahagsleg áhrif á einstaklinginn og makann. Makinn sem ekki er í neyslu tekur á sig fjárhagslega ábyrgð og fer í það hlutverk að verða fyrirvinnan. Niðurstöður úr viðtölum þessarar rannsóknar staðfesta þetta.
Þó mikið hafi verið skrifað um áhrif vímuefnasýki á fjölskyldur þá byggir sú umfjöllun aðallega á kenningum og almennum skoðunum um áhrif vímuefnasýki á fjölskyldukerfið. Mikil þörf er á frekari rannsóknum á fjölskyldum vímuefnasjúkra því skortur er á klínískum rannsóknum á þessu sviði og minni athygli hefur beinst að aðstoð og meðferð fyrir fjölskyldur vímuefnasjúkra heldur en að hinum vímuefnasjúku sjálfum. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa vísbendingar sem nýta mætti til frekari rannsókna á áhrifum vímuefnasýki á íslenskar fjölskyldur. Einnig gætu frekari rannsóknir leitt til aukinnar þekkingar þeirra fagaðila sem sjá um meðferð vímuefnasjúkra og aðstandenda þeirra. Sú þekking gæti aukið öryggi fagaðila í starfi sem gæti bætt meðferðarheldni beggja hópa og lífsgæði. Auk þess sem frekari rannsókna gætu aukið skilning í heilbrigðis- og velferðarþjónustu um mikilvægi þess að styðja við félagasamtök og stofnanir sem sérhæfa sig í að meðhöndla og styðja við vímuefnasjúka og fjölskyldur þeirra.

 

Heimildir
 

Becvar, D. S. og Becvar, R. J. (1999). Systems theory and family therapy (2. útgáfa). Washington, DC.: University Press of America.
Chaudron, D. C. og Wilkinson, D. A. (ritstjórar). (1988). Theories on alcoholism (2. útgáfa). Toronto: Addiction Research Foundation.
Cruse, W. S. (1987). Choicemaking (2. útgáfa). Florida:Health Communications, Inc.
Doweiko, H. E. (2009). Concepts of Chemical Dependency (8. útgáfa). California :Brooks/Cole.
Esterberg, K. G. (2002). Qualitative methods in social research. Boston: McGraw Hill.
Keiley, K. M., Keller, S. P. og El-Sheikh, M. (2009). Effects of physical and verbal aggression, depression, and anxiety on drinking behavior of married partners: a prospective and retrospective longitudinal examination. Aggressive Behavior, 35, 296- 312.
Kenneth, E., Leonard, E.K. og Eiden, D.R. (2007). Marital and Family Processes in the Context of Alcohol Use and Alcohol Disorders. Annu Rev Clin Psychol. 3. bls. 285–310.
Mahato, B., Ali, A., Jahan, M., Verma, A. N. og Singh, A. R. (2009). Parent-child relationship in children of alcoholic and non-alcoholic parents. Industrial Psychiatry Journal, 18, 32-35.
Meyers, R. J., Apodaca, T. R. Flicker, S. M. og Slesnick, N.( 2002). Evidence-Based approaches for the treatment of substance abusers by involving family members. The Family Journal: Counseling and therapy for couples and families,10, 281-288.
Miller, M. og Gorski, T. (1982). Family recovery. Growing beyound addiction. United States og America: Independence Press.
Rotunda, J. R. og Dorman, K. (2001). Partner enabling of substance use disorders: Critical review and future directions. The American journal of family therapy, 29, 257-270.
Sher, J. K. (1997). Psychological characteristics of children of alcoholics. Alcohol health & research worl, 21, 247-254.
U.S. Department of health and human services (2005). (2. útgáfa). Substance abuse treatment and family therapy. Rockville: Höfundur.
WHO (e.d). Lexicon of alcohol and drug terms published by the World Helalth Organization. Sótt 04. september 2011 af http://www.who.int/substance_abuse /terminology/who_lexicon/en/index.html
Wilson, P. J. og Keane, M. T. (ritstjórar). (2004). Assessing psychological trauma and PTSD (2. útgáfa). The Guilford Press: New York.

 

Áður birt: Þjóðarspegilinn. Rannsóknir í Félagsvísindum XII Félagsráðgjafadeild (2011). Halldór Sig. Guðmundsson. Ritstjóri. Sótt 10. febrúar 2012

 

 

bottom of page