top of page

Fræðsluefni

Hér getur þú nálgast fræðsluefni um áfengis- og vímuefnamál og fengið upplýsingar um nýjustu rannsóknir í faginu.

Enginn ætlar sér að verða áfengissjúkur/vímuefnasjúkur.

 

Vímuefnanotkun/áfengisnotkun þýðir að einstaklingur notar vímuefni/drekkur áfengi af hófsemi í félagslegu umhverfi án þess að lenda í vanda vegna neyslunnar. Vímuefnamisnotkun/áfengismisnotkun: þegar einstaklingur notar vímuefni/drekkur áfengi til deyfingar á innri sálfélagslegri vanlíðan, einstaklingur fer að lenda í vanda vegna neyslu, er þó ekki orðinn líkamlega háður, en getur þróað með sér vímuefnasýki/áfengissýki. 
Vímuefnasýki/áfengissýki vísar til þess þegar einstaklingur er orðin líkamlega, andlega og félagslega háður vímuefninu/áfenginu sem 

hefur áhrif á heilsu hans og fjölskyldu. Hann notar vímuefni/drekkur áfengi til að forðast fráhvörf og vanlíðan, þolmyndun eykst og neysla verður stjórnlaus. Neysla heldur áfram þrátt fyrir skaðlegar afleiðingar líkamlega, andlega og félagslega. Heilabreytingar eiga sér stað í heila og tala fræðimenn því um áfengisýki/vímuefnasýki sem heilasjúkdóm.

Systkini vímuefnasjúkra

 

Börn sem eiga systkini í vímuefnavanda verða vitni að óeðlilegu samskiptamunstri í fjölskyldu eins og rifrildi á milli foreldra vegna neyslu systkinis eða ofbeldishegðunar systkina. Tilfinningalegt ójafnvægi myndast og gerir heimilislífið erfitt og flókið. Niðurstöður rannsókna benda til að systkini vímuefnasjúkra þjást af innri vanlíðan sem hefur áhrif á félagslega hæfni þeirra, sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Streitukennt andrúmsloft heimilis birtist í kvíða og andlegri vanlíðan systkina sem upplifa sorg, einmanaleika, reiði og skömm. Mikilvægt er að systkini unglings í vímuefnaneyslu fái faglega aðstoð, stuðning og skilning á aðstæðum sínum. Börn sem fá ekki aðstoð geta þróað áfram með sér vanlíðan inn í fullorðinsár sem getur haft alvarlegar afleiðingar á tilfinningalega og félagslega heilsu þeirra.

Hver eru algengustu vandamálin á heimilum þegar kemur að áfengisneyslu yfir hátíðir?

 

Mikil ringulreið og óvissa mótast af ástandi þess sem drekkur. Þarfir hans og þrár hafa algjöran forgang innan fjölskyldunnar. Óvíst er að fólk utan fjölskyldunnar vita af ástandi þess sem drekkur og líðan annarra fjölskyldumeðlima. Á heimili barna sem alast upp við drykkjusýki eru eftirfarandi boðorð í heiðri höfð: ekki tala, ekki treysta og ekki sýna tilfinningar. Það fer að bera á samskiptaerfiðleikum innan fjölskyldunnar og rifrildi fer vaxandi. Skömmin, sektarkenndin, kvíðinn, reiðin og sorgin eru oft ríkjandi tilfinningar aðstandenda áfengissjúkra sem hefur síðan áhrif á félagsleg tengsl. Fólk forðast að sækja jólaboð og bera fyrir sig afsakanir á að geta ekki mætt. Þetta er ákveðin þróun svo fjölskyldan einangrast smá saman frá stórfjölskyldu og vinum. Í slíkum aðstæðum er ráð að opna á vandann og segja sínum nánustu frá erfiðleikum varðandi drykkju maka og vera hreinskilin gagnvart því. Það er algeng ranghugmynd að halda að það sé einhver skömm og ósigur að búa við áfengissýki og að þetta muni lagast ef ekki er talað um það og gerast ekki aftur. Því fyrr sem fjölskyldan hættir að fela drykkju þess áfengissjúka og styðja við óeðlilega hegðun í meðvirkni, því fyrr fær fjölskyldan aðstoð og viðkomandi leitar hjálpar við drykkju sinni.

Hvernig er hægt að aðstoða börn kvíði þau jólunum?

Með virkri hlustun er hægt að heyra hvort barn er kvíðið.

Ef ósamræmi er í því sem barnið segir og líkamlegri tjáningu getur það verið vísbending um að svo sé. Sem dæmi má nefna barn sem spurt er hvort það hlakki til jólanna? Barnið svarar því játandi og bætir við „mikið“ en andlitið geislar hvorki af eftirvæntingu né gleði heldur depurð og áhyggjum. Einnig er ef barnið er að kvarta yfir líkamlegum streitueinkennum svo sem þreytu og magaverk. Þegar nær dregur að jólum verða kennarar og námsráðgjafar stundum varir við breytta hegðun barna. Ef barn kvíðir jólunum og það tengist drykkju annars eða beggja foreldra þarf að hjálpa barninu að opna á þá umræðu svo barnið sé ekki að burðast eitt með það leyndarmál. Nauðsynlegt er foreldrar geri sér grein fyrir að áfengisdrykkja þess geti haft áhrif á líðan barna.

bottom of page