Lifandi ráðgjöf ehf.
Þróun sjúkdómsins
Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir
Viðhorf þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu til áfengis- og vímuefnasjúklinga hafa breyst mikið með vaxandi þekkingu. Alkóhólismi og önnur vímuefnafíkn er smám saman tekin að birtast sem líffræðilegur heilasjúkdómur er myndast við endurtekna notkun vímuefna. Mislangur þróunarferill á sér stað þar sem umhverfis- og erfðaþættir verka saman og skapa þannig fullmótaða sjúkdómsmynd. Sjúklingurinn missir hæfni til að stöðva drykkjuna einhvers staðar á þróunarferlinum þrátt fyrir löngun og ýmsar tilraunir. Eina tryggingin fyrir varanlegri lækningu er eilíft bindindi ( SÁÁ, e.d.)
Langvarandi áfengisneysla getur stuðlað að margvíslegum líkamlegum vandamálum. Þar má nefna ýmiss konar skemmdir á heila og taugum, vannæringu, vöðvarýrnun, lifrarbólgu og briskirtilsbólgu. Fyrir þjóðfélagið er ofneysla áfengis ákaflega kostnaðarsöm, meðal annars vegna afbrota, morða, sjálfsvíga, fósturskemmda og vinnutaps, svo eitthvað sé nefnt ( SÁÁ, e.d.).
Áfengis- og vímuefnafíkn er stigversnandi sjúkdómur. Einstaklingurinn byrjar að neyta vímuefnisins í fyrstu til þess að slaka á. Hann finnur að hömlur losna, feimni og kvíði hverfa. Fljótlega verður ekki hægt að skemmta sér án þess að nota vímuefnið. Neyslan er farin að vera til staðar við aðrar aðstæður en skemmtanir einvörðungu, s.s. til þess að slaka á eftir vinnudag, fá sér einn svo hægt sé að sofna. Þolið við vímuefninu eykst, brátt fara tómstundir og áhugamál að snúast um áfengi og áhugamál breytast. Drykkjumunstrið breytist, timburmenn og óminni gera vart við sig og stigversna. Á þessu stigi fer einstaklingurinn að reyna að stjórna drykkjunni, ætlar t.d. bara að drekka um helgar. Timburmenn breytast í fráhvörf og óminnið lengist. Eftir því sem líður á
drykkjuferilinn og afleiðingar drykkjunnar verða meiri eykst kvíði og þunglyndi. Í stað þess að tengja vanlíðunina við drykkjuna er brugðið á það ráð að breyta ytri högum, dæmi um slíkt eru flutningar, breytingar á vinnu og jafnvel hjónaskilnaður. Alkóhólistinn réttlætir sig og skilur ekkert hvað er að gerast. Hann drekkur vegna þess að allt er svo ómögulegt, að því er honum finnst. Þegar alkóhólistinn hefur misboðið sér vegna stjórnlausrar hegðunar bæði til þess að komast í drykkju og í drykkjunni sjálfri er eitt aðaleinkenni sjúkdómsins varnarhættir alkóhólistans sem verða meira áberandi. (Miller, Gorski og Miller, 1982).
Varnarhættir eru nauðsynlegir fyrir allar manneskjur. Ef einstaklingur setur
upp varnarhátt er það vegna þess að viðkomandi höndlar ekki þær aðstæður
sem hann er í. Nauðsynlegt er fyrir fagfólk að þekkja algengustu varnarhætti
alkóhólista til þess að geta unnið með þá. Þessir varnarhættir geta verið
t.d. afneitun, bæling, yfirfærsla, að draga úr skaðanum, frávarp og gleyping.
Vinna þarf með varnarhátt með þeirri aðferð að fara á bak við hann og ræða hann.
Ef ráðist er beint að varnarhættinum verður hann enn sterkari hjá einstaklingnum.
Meðferðaraðili þarf að bera virðingu fyrir varnarháttum alkóhólistans
líkt og sinna eigin. Varnir eru oft miklar hjá alkóhólistum og þróast með
sjúkdómnum. Oftast láta alkóhólistar af þeim þegar þeir fá fræðslu og upplýsingar
um hvað er að og þeir fá aukinn skilning á vandanum. Það að geta ekki
horfst í augu við vandann stafar oftast af skilningsleysi. Það hjálpar
alkóhólistanum og fjölskyldu hans að lifa af í sársaukafullu ferli að hafa
uppi varnir (Goldstein, 2001).
Andlega er alkóhólistinn orðinn hrak, sjálfsvirðingin er engin orðin, sektarkenndin og skömmin eru að buga hann. Fráhvörfin verða verri, sviti, skjálfti og hjartsláttartruflanir koma upp og jafnvel lifrarbólga. Mjög lengi halda afneitunin og réttlætingarnar alkóhólistanum uppréttum, þetta er ekki svo slæmt. Alkóhólismi bitnar á öllum hliðum lífsins, andlega, líkamlega og félagslega. Þegar kemur að því að einstaklingurinn gengur fram af sjálfum sér eða verður fyrir áfalli, leitar alkóhólistinn sér oftast hjálpar (Miller, Gorski og Miller, 1982).
Heimildir:
Goldstein, E.G. (2001). Object relations theory and self psychology in social work practice. New York: The Free Press.
Miller, M., Gorski, T. og Miller, D. (1982). Learning to live again USA: Independence press.
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Hvað er alkóhól? Sótt 05.04. 2007 af:
http://saa.is/default.asp?sid_id=9601&tre_rod=001|003|001|&tId=1

