top of page

Bati

Lifandi ráðgjöf ehf.

Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir

Til þess að ná bata er það algert skilyrði að alkóhólistinn geri sér grein fyrir því að sjúkdómurinn er fjölþátta, stigvaxandi og ólæknandi og algert bindindi á öll efni sem geta valdið vímu er forsendan fyrir bata. Í meðferð er unnið með það að alkóhólistinn læri að breyta viðhorfum sínum og hegðun og einnig unnið að því að undirbúa einstaklinginn fyrir það verkefni að takast á við lífið án vímuefna. Hann lærir aðferðir til að ráða við streitu og kvíða. Þetta er gert með því að kenna honum að nota dagsplan og að vera skipulagður í daglegum verkefnum. Það er talið hjálpa til þess að forðast hraða og ráðaleysi. Hreyfing losar spennu og reglulegt mataræði er nauðsynlegt til að halda líkamanum í jafnvægi. Hluti af frumbatanum er að stunda AA-fundi (Gorski og Miller, 1986).

Eftir meðferð er enginn albata; það reynir fyrst á einstaklinginn þegar hann kemur aftur út í samfélagið. Að koma úr vernduðu umhverfi eins og inniliggjandi meðferð og út í samfélagið aftur er mjög streituvaldandi, þess vegna er lögð áhersla á að sjúklingar sæki göngudeildarstuðning eftir meðferðina. Að ná bata er ekki bein lína upp á við heldur gerist það í áföngum og í meðferðinni er gert ráð fyrir að um sé að ræða nokkur stig;

1. Viðurkenning.
2. Jafnvægi náð.
3. Frumbati, sátt og að læra að komast af án notkunar vímuefna.
4. Bati, jafnvægi kemst á lífsvenjur.
5. Síðbati, persónuþroski.
6. Vöxtur og þroski.
(Gorski og Miller, 1986).

Það er mjög einstaklingsbundið hversu langan tíma tekur að ná bata. Einnig fer það eftir því úr hvaða neyslu viðkomandi kemur, hversu lengi hann var í neyslu eða hversu langt sjúkdómurinn er genginn. Það er til dæmis mikill munur á því hvort um er að ræða áfengisneyslu, neyslu róandi lyfja eða amfetamínneyslu.

Það tekur lágmark tvö ár að ná þokkalegum bata. Viðurkenningin kemur oftast áður en til meðferðar er komið. Eitthvað gerist svo að alkóhólistinn áttar sig á að drykkja hans er vandamál ellegar að hann kemur í meðferð í mikilli afneitun. Með fræðslu og einkaviðtölum áttar hann sig á því að hann er alkóhólisti og að hann stjórnar neyslu sinni. Lágmarksjafnvægi, andlegt og líkamlegt, næst í afeitrun og þá er hægt að fara í áframhaldandi meðferð, sem getur verið inniliggjandi eða á göngudeild. Meðferðin felst í því að öðlast sátt og læra að lifa án áfengis, svo og því að alkóhólistinn fer að vinna í AA-samtökunum eftir að hann kemur heim. Batinn, jafnvægi í lífsvenjum, áframhaldandi vinna í samtökunum og styrking fjölskyldutengsla eru verkefni fyrstu mánaðanna eftir að heim er komið. Þetta er kallaður síðbati og hann getur eins og áður segir tekið allt að tvö ár. Á þessu tímabili fer fíkillinn oft að geta talað um tilfinningar sínar og verður nánari fjölskyldu sinni (Gorski og Miller, 1986).

 

Heimildir:
Gorski, T. og Miller, M. (1986). Staying sober. USA: Independence press.

bottom of page