Lifandi ráðgjöf ehf.
Kenningar um alkóhólisma
Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir
Kenningar eru settar fram til að búa til heildarmynd og skýra einstaka þætti eða snúinn
veruleika. Kenningar geta hvorki sagt til um rétt eða rangt heldur eru þær aðeins hugmyndir.
Hægt er að setja kenningar fram á ákveðinn hátt og draga má af þeim tilgátur.
Ef tilgáturnar eru svo prófaðar með tilraunum eða öðrum rannsóknum má draga af niðurstöðum
þeirrar rannsóknar ályktun um hvort kenningin er réttmæt eða ekki. Flestir þeir sem starfa að
meðferðarkerfum alkóhólisma í dag skilgreina alkóhólisma sem sjúkdóm.
Rökin fyrir sjúkdómshugtakinu eru stjórnlaus neysla og líkamleg og sálræn fráhvörf
(Sölvína Konráðsdóttir, 2001).
Sálfræðikenning Freuds um persónuleikann viðurkennir ekki alkóhólisma sem sjúkdóm. Samkvæmt kenningunni telur sálgreinirinn að alkóhólistinn hafi staðnað á munnstiginu, þ.e. þegar þörfum er fullnægt í gegn um munn, sogþörf, þorsta og hungur. Einnig er bent á, þessari kenningu til stuðnings, að alkóhólistar geti verið barnalegir, uppteknir af ytri aðstæðum og geti ekki tekist á við ýmsa félagslega þætti, s.s. samskipti við aðra og hafi lítið þolgæði. Sá sem verður alkóhólisti er talinn þjást af líkamlegum eða sálrænum sársauka og þessar þjáningar eigi jafnvel rætur að rekja til barnæsku. Vellíðunartilfinningin sem kemur í kjölfar vímunnar slær á þá höfnunartilfinningu sem viðkomandi þjáist af og hefur haft frá barnæsku. Þessi sterka þörf fyrir vellíðan er vanþroski sem einstaklingurinn hefur ekki vaxið frá síðan í frumbernsku. Til þess að alkóhólistinn nái bata þarf sálgreinirinn að draga fram þessar tilfinningar og hjálpa honum að átta sig á sársaukanum í dulvitundinni (Sölvína Konráðsdóttir, 2001).
Persónuleikakenning Jungs er kenning innan sálfræðinnar en er mjög ólík kenningu Freuds. Samkvæmt kenningunni er gert ráð fyrir dulvitund; einstaklingur sem hefur lélega sjálfsmynd er líklegur til þess að þróa með sér ákveðna hegðun til þess að fela líðan sína fyrir umhverfinu. Hann notar áfengi til þess að ná einhvers konar jafnvægi. Áfengið breytir upplifun einstaklingsins á eigin sjálfi eða persónuleika. Hann fer í hlutverk sem hann telur sig eiga að vera í gagnvart umhverfinu og öðru fólki. Hætt er við að einstaklingurinn festist í hlutverki þeirrar persónu sem hann telur sig eiga að vera þegar hann er undir áhrifum áfengis, geri hann það telur Jung að viðkomandi sé hættara við að leita í áfengi (Sölvína Konráðsdóttir, 2001).
Námskenningar og skilyrðingar er kenning um andstæð ferli, sett fram sem kenning um orsakir alkóhólisma og þróun. Kenningin skilgreinir ekki alkóhólisma sem sjúkdóm heldur er það lært atferli. Ferli sem orðið er til vegna sjálfskapaðra hvata líkt og með önnur áunnin hegðunarmynstur, þ.e. vellíðunarferlið, það að drekka, er komið af stað og þar af leiðandi er vanlíðunarferlið, sem eru fráhvörfin í kjölfar drykkjunnar, einnig farið að stað. Litið er á þróun alkóhólisma sem hringrás, þ.e. drykkja, aukið þol og loks fráhvörf sem kalla svo aftur á drykkju. Með þessari kenningu er einnig hægt að útskýra þær hvatir sem fær einstaklinginn til þess að drekka við mismunandi aðstæður (Sölvína Konráðsdóttir, 2001).
Samkvæmt félagsnámskenningum hafa margir þættir áhrif á félagsmótun einstaklingsins. Félagsnámskenningin er byggð á víxlverkun, þ.e. einstaklingurinn hefur áhrif á umhverfi sitt og samskipti við aðra einstaklinga sem og sömu þættir hafa áhrif á einstaklinginn og umhverfið. Drykkjumenning í samfélagi sem viðkomandi býr í hefur áhrif á viðhorf hans til drykkjusiða. Ef einstaklingur elst upp við það að áfengisdrykkja sé notuð við hvert tækifæri, t.d. að haldið sé upp á jákvæða þætti með drykkju og drykkja sé einnig notuð til að lina þjáningar, telur sá hinn sami eðlilegt að nota áfenga drykki við sömu aðstæður. Þessi kenning segir í stuttu máli að þeir drykkjusiðir sem einstaklingurinn temur sér sé lærð hegðun (Sölvína Konráðsdóttir, 2001).
Spennulosunarkenningin segir að einstaklingurinn læri að áfengi hjálpar honum að slaka á, ráða við streitu, ótta, árekstra og pirring. Kenningin er byggð á því að einstaklingurinn upplifi vellíðan og aukinn kraft til að eiga við erfiða hluti og sækir því í vímuefnið. Viðkomandi neytir einnig vímuefna til þess að slá á líkamleg óþægindi, s.s. fráhvörf (Dodgen og Shea, 2000).
Væntingakenningin byggist á því að þegar einstaklingurinn drekkur í fyrstu upplifir hann vímu sem hann sækir í að komast aftur í, því endurtekur viðkomandi drykkjuna. Þegar hann er svo orðinn háður efninu finnst honum betra að halda áfram að drekka til þess að slá á þá vanlíðan sem kemur í fráhvörfunum (Dodgen og Shea, 2000).
Sjúkdómshugtakið kom fyrst fram er Benjamin Rush (1746–1813), yfirlæknir við Háskólann í Fíladelfiu, setti fram þá hugmynd að áfengismisnotkun leiddi til sjúkdóms. Rush hefur oft verið kallaður faðir amerískra geðlækninga og er án efa einn sá fyrsti sem lét áfengissýki sig varða. Áhugi hans á áfengi og áfengistengdum málum kom til bæði af persónulegri og faglegri reynslu. Árið 1784 birti Rush grein sem hann nefndi „Rannsókn/athugun á áhrifum áfengis á mannslíkamann og tengsl við lífsgæði og aðra félagslega þætti“. Þessi ritgerð vakti mikla athygli og hefur oft verið endurprentuð. Hún markar upphaf kenninga um áfengissýki og sjúkdómshugtakið. Þó svo að endanleg skilgreining á þessu tvennu hafi ekki verið til fyrr en árið 1870, markar ritgerð Benjamins Rush upphafið að þeirri umræðu og rannsóknum sem komu í kjölfarið (White,1998).
Jellinek var sá sem stjórnaði fyrstu rannsókninni sem gerð var á neyslu og misnotkun áfengis. Sú rannsókn var gerð 1952. Árið 1960 setti Jellinek fram þá kenningu að alkóhólismi væri sjúkdómur. Hann greindi alkóhólista í fimm meginflokka og kallaði þá Alpha, Beta, Gamma, Delta og Epsilon eða sálfræðileg fíkn, líkamleg sjúkdómseinkenni sem væri afleiðing af neyslu áfengis en ekki líkamleg fíkn, líkamleg fíkn og stjórnlaus neysla, líkamleg fíkn en ekki stjórnlaus neysla og túradrykkja. Hann taldi að þeir sem fengju Gamma-alkóhólistagreininguna væru líklegastir til að fara í meðferð. Jellinek og félagar hans settu einnig fram þá tilgátu að orsakir alkóhólisma væru líffræðilegir og að þessa líffræðilegu þætti mætti rekja til erfða. Fræðimenn eru almennt sammála um að hvort sem alkóhólismi er skilgreindur sem sjúkdómur eða ekki þá sé þetta ástand sem leiði til sjúkdóma. (Sölvína Konráðs, 2000).
G.E. Vaillant gerði langtíma rannsókn á hópum manna frá unglingsaldri til fimmtugs. Hjá þeim einstaklingum sem misnotuðu áfengi í rannsókninni fór heilsa þeirra, andleg og líkamleg, stigversnandi og aukið stjórnleysi var sýnilegt. Þessar rannsóknir voru í samræmi við niðurstöður rannsókna Jellineks og að einkenni sjúkdómsins voru mjög misjöfn og einstaklingsbundin. Niðurstaða Vaillants var að alkóhólismi væri framsækinn sjúkdómur, stigvaxandi og framvinda hans endaði annaðhvort með bindindi eða dauða (Kinney, 2006).
Sjúkdómshugtakið hefur verið gagnrýnt bæði af leikmönnum og fagfólki. Þessi gagnrýni reis hæst upp úr 1980 þegar fjöldi greina voru birtar þar sem mismunandi kenningum var lýst, t.d. námskenningum, félagsmótunarkenningum o.fl. Þessar kenningar áttu að vera jafngóðar ef ekki betri en sjúkdómskenningarnar. Þær voru settar þannig fram að ekki væri hægt að vinna samkvæmt fleiri en einni kenningu í einu. Annaðhvort var unnið eftir kenningunni um að alkóhólismi væri sjúkdómur eða að alkóhólisma væri hægt að rekja til félagsmótunar eða námskenninga o.fl. Þeirri gagnrýni var varpað fram að sjúkdómshugtakið miðaði að því að eingöngu heilbrigðisstarfsmenn gætu meðhöndlað alkóhólista en hefðu í raun ekki mannafla eða þekkingu til þess að fylgja alkóhólistanum og fjölskyldu hans eftir. Þeir sem gagnrýndu kenningar Jellineks töldu sjónarhorn hans of þröngt, alkóhólistar væru ekki allir eins. Þeir væru mismunandi og því ætti ekki það sama við um þá alla. Af þessum ástæðum hafa margar síðari rannsóknir beinst að þessum þáttum, þ.e. breytileika þeirra er glíma við alkóhólisma (Kinney, 2006).
Að greina sjúkdóminn alkóhólisma getur oft verið erfitt. Í fyrstu er nauðsynlegt að skilgreina hvað er sjúkdómur og síðan hvort alkóhólismi falli undir það. Í daglegu tali merkir orðið sjúkdómur að einhverjum líði ekki vel eða þjáist. Í raun og veru eru það samt læknar sem einir ákvarða hvað er sjúkdómur og hvað ekki. Almenningur er sammála um að lina beri þjáningar fólks. Þetta er mikilvægur þáttur í skilningi almennings á sjúkdómi (Pétur Tyrfingsson, 1997).
Þeir sem telja að alkóhólismi sé ekki sjúkdómur segja að með sjúkdómshugtakinu sé verið að losa einstaklinga sem eiga við drykkjuvanda að stríða undan allri ábyrgð. Þannig sé hugtakið alkóhólismi notað til að réttlæta neyslu. Þeir sem telja alkóhólisma ekki vera sjúkdóm hafa einnig notað þá röksemd að alkóhólismi hafi engar sannanlegar líffræðilegar orsakir. Þeir telja að ofneysla hvaða vímugjafa sem er sé ákveðinn hegðunarvandi en ekki að þar liggi að baki einhvers konar líffræðilegar orsakir. Enn fremur telja þeir að alkóhólismi sé afleiðing kringumstæðna og sálrænir kvillar séu orsök neyslunnar (Sölvína Konráðs, 2001) samanber sálfræðikenningarnar og félagsnámskenningarnar.
Fjölmargar endurteknar fylgnirannsóknir gefa til kynna að há fylgni er á milli þess að eiga náinn ættingja (foreldra, systkin) sem er alkóhólisti og að verða sjálfur fíkinn í áfengi eða önnur vímuefni. Einnig er ættleiddum eða fósturbörnum, sem eiga líffræðilega foreldra er þjást af alkóhólisma, hættara við að verða alkóhólistar en þeim börnum sem eiga foreldra sem ekki eru alkóhólistar. Gerðar hafa verið rannsóknir á eineggja og tvíeggja tvíburum sem aldir hafa verið upp saman eða í sitt hverju lagi. Þeir hafa átt líffræðilegt foreldri sem er alkóhólisti og niðurstöður úr þessum rannsóknum hafa sýnt fram á að um arfgengi sé að ræða. Það hefur lengi verið viðurkennt að alkóhólismi liggur í ættum og á síðari árum hafa margar rannsóknir stutt þá tilgátu. Flestir vísindamenn hallast að því að það séu margir þættir sem valdi alkóhólisma. Þar spili saman erfðir einstaklingsins, umhverfi og uppeldi (Dodgen og Shea, 2000).
Skilgreining Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO
Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni er skilgreining á alkóhólisma svohljóðandi:
1. Sterk löngun eða áráttukennd þörf fyrir efnið.
2. Stjórnleysi í neyslu vímuefnisins. Neysla verður tíðari, meiri eða varir lengur en gert var ráð fyrir.
3. Líkamleg fráhvarfseinkenni þegar dregið er úr neyslu eða vímuefni notuð til þess að draga úr fráhvarfseinkennum.
4. Aukið þol gagnvart vímuefninu. Aukið magn þarf til að ná fram sömu áhrifum og áður fengust.
5. Sífellt meiri tími fer í að nálgast vímuefni, neyta þeirra og ná sér eftir neyslu og þá á kostnað frístunda eða annars sem veitir vellíðan.
6. Neyslu er haldið áfram þrátt fyrir augljósan líkamlegan eða andlegan skaða (WHO. e.d.).
Greiningar DSM IV Bæði SÁÁ og áfengisdeild Landspítala–Háskólasjúkrahúss styðjast við handbók ameríska geðlæknafélagsins þegar sjúkdómurinn áfengissýki eða önnur vímuefnafíkn er greind. Stór hópur sérfróðra lækna kom að gerð þeirra viðmiðunareinkenna sem er að finna í fjórðu útgáfunni, sem er skilgreind DSM IV (American Psychiatric Association, (1994) Diagnostic statistical manual of mental disorders).
Eftirfarandi skilgreiningar eru úr DSM IV:
Substance abuse = Vímuefnamisnotkun
Vímuefnamisnotkun má greina hjá einstaklingi í óeðlilegri vímuefnaneyslu sem veldur honum verulegri óstarfhæfni og vanlíðan. a. Vímuefnaneysla endurtekin þrátt fyrir að daglegum skyldum sé ekki sinnt, s.s. vinnu, skóla og heimilisstörfum. Vanræksla kemur fram gagnvart fyrrgreindum þáttum sem og fjölskyldu, börnum og heimili.
b. Vímuefnaneysla viðhöfð þrátt fyrir að það geti skapað líkamlega hættu, s.s. að vera í vímu og aka bíl.
c. Vímuefnaneysla endurtekin þrátt fyrir að hún valdi lögbrotum, dæmi: Hegðun undir áhrifum getur leitt til handtöku.
d. Vímuefnaneyslu haldið áfram þrátt fyrir stöðuga félagslega og persónulegra árekstra.
2. Substance dependence = Vímuefnafíkn
a. Aukið þol sem einkennist annaðhvort af þörf fyrir að drekka verulega aukið magn af áfengi til að verða ölvaður eða ná fram þeim áhrifum sem óskað er.
b. Áberandi minni áhrif fást þegar sama áfengismagn er notað hverju sinni.
c. Fráhvarf eftir langa og mikla drykkju sem lýsir sér annaðhvort með tveimur eða fleiri eftirtalinna einkenna: skjálfta, svefnleysi, kvíða, óróleika, ofskynjunum, krampa eða ofurstarfsemi sjálfráða taugakerfisins, t.d. svita eða hröðum hjartslætti. Áfengi eða róandi lyf er notað til að laga eða forðast áfengisfráhvarf.
d. Vímuefnið notað í meira mæli eða setið lengur að drykkju en ætlað var í fyrstu.
e. Viðvarandi löngun eða misheppnaðar tilraunir til að draga úr eða hætta neyslu vímuefna.
f. Miklum tíma er eytt í að verða sér út um vímuefni eða jafna sig eftir neyslu.
g. Fjölskylda eða vinna er vanrækt vegna vímuefnaneyslu eða hætt er við eða dregið úr ýmsum heilbrigðum venjum eða tómstundum.
h. Áfengisneyslu er haldið áfram þó að viðkomandi geri sér grein fyrir að hún veldur viðvarandi eða endurteknum líkamlegum eða andlegum veikindum (DSM IV, 1994). Nægjanlegt er að til staðar séu þrjú af þessum viðmiðunaratriðum og áfengissýkin getur þá verið með eða án líkamlegrar vanabindingar. Líkamleg vanabinding er greind með því að til staðar eru viðmiðunaratriði 1 eða 2 eða bæði (DSM IV, 1994).
Eins og sjá má af þessu er ekki mikill munur á DSM IV greiningunni og skilgreiningu WHO. Þær eru nánast samhljóma.
Heimildir:
American Psychiatric Association. (1994). Diagnostic and statistical manual of mental disorders. (4. útgáfa). Washington, DC: Höfundur.
Dodgen, C.E. og Shea, M.W. (2000). Substance use disorders USA: Academic Press, USA 2000.
Kinney, J. (2006). Loosening the grip. (8. útgáfa). New York: McGraw-Hill.
Sölvína Konráðs. (2001). Sálfræðilegar skýringar á alkóhólisma. Í Árni Einarsson og Guðni R. Björnsson (Ritstj.), Fíkniefni og forvarnir (bls. 91-104). Fræðslumiðstöð í fíknivörnum.
White, W.L. (1998). Slaying the dragon, The history of addiction treatment and recovery in America. (3. útgáfa). USA: A Chestnut Health Systems Publication
WHO e.d. Sótt 08. 04. 2007 af:
http://www.who.int/substance_abuse/terminology/who_lexicon/en/index.html

