Konur og vímuefnafíkn
Lifandi ráðgjöf ehf.
Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir. (2007).
Fram til okkar daga hefur verið litið þannig á að alkóhólismi og fíknisjúkdómar séu sjúkdómar karla. Og þó að fleiri karlar séu í meðferð en konur er það þannig að fíknisjúkdómar lækka meðalaldur hjá konum í Bandaríkjunum um heil 15 ár (Blume, 2005).
Konur sem koma í áfengis- og vímuefnameðferð þurfa því sérstakrar athygli við. Jafnvel þótt þær komi úr svipuðum félagslegum aðstæðum og karlar á sama aldri og hafi svipaða menntun og karlar á sama aldri, þá glíma þær við önnur vandamál en karlarnir. Meðferðarmarkmiðin eru önnur og athygli meðferðaraðila verður að taka tillit til sérþarfa kvennanna ef vel á að fara (Storie, 2005).
Ef meðferðaraðili þekkir sérþarfir kvenna og hvernig á að fást við þær geta líkur aukist á meiri árangri og betri meðferðarheldni. Margar af þessum sérþörfum geta hreinlega hindrað konur í að ná bata af áfengissýkinni sé þeim ekki sinnt. Það er því grundvallarskilyrði þess að konum vegni vel í meðferð að tekið sé tillit til þessara þátta þannig að sníða megi meðferðina að hverri konu, að meðferðin verði sem mest einstaklingsmiðuð. Rannsóknir hafa sýnt að nokkur atriði eru frábrugðin í sjúkdómsþróuninni hjá konum (Storie, 2005).
-
Konur eru næmari fyrir áfengi en karlar.
-
Alkóhólmagn í blóði er óútreiknanlegt frá degi til dags hjá konum þótt drukkið sé sama áfengismagn.
-
Áfengissýki eykur þunglyndi sem getur valdið minnkandi kynlífslöngun hjá konum.
-
Fíknisjúkdómar virðast þróast hraðar og fyrr hjá konum en körlum.
-
Minna magn af áfengi og styttri tíma þarf hjá konum en körlum til að sjúkdómurinn þróist á alvarlegra stig.
-
Konur eru oftar í blandaðri neyslu áfengis og lyfja, og neysla lyfseðilsskyldra lyfja er mun algengari hjá konum en körlum.
-
Þunglyndi er undanfari og oft meðvirkandi þáttur í þróun sjúkdómsins hjá konum, þunglyndi hjá körlum er oftast afleiðing af áfengisneyslu.
-
Fósturskaðar er sértækt vandamál hjá konum sem drekka á meðgöngu.
-
Áfengissjúkar konur lifa að meðaltali 15 árum skemur en kynsystur þeirra sem ekki glíma við sjúkdóminn og dánartíðni þeirra er fjórum sinnum hærri en að meðaltali (Storie, 2005).
Konur í meðferð
Rannsóknir sýna að þróun vímuefnasjúkdómsins er mun hraðari hjá konum en körlum, jafnvel þó að um svipaða eða sömu neyslu sé að ræða (Blume, 2005). Einnig sýna þær að konur drekka svipað og karlar í lítrum talið (Wilsnack og Wilsnack, 2002). Konur eru 32,35 % þeirra sem leita sér aðstoðar í meðferð hjá SÁÁ (Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavanda [SÁÁ], 2006). Ástæðan sem konur gefa fyrir því að þær leita sér ekki aðstoðar er yfirþyrmandi ótti. Ótti við að geta ekki orðið sér úti um viðunandi barnagæslu á meðan á meðferð stendur, ótti við fíknina, að geta ekki verið án lyfja og þora því ekki að fara í gegnum þann þátt meðferðarinnar, ótti við viðbrögð ástvina, þar með talið maka eða kærasta, eða jafnvel skilnaðarótti. Hjá mjög mörgum konum er það makinn eða kærastinn sem útvegar vímuefnin og neytir þeirra jafnvel með þeim. Sú staðreynd gerir mörgum konum illgerlegt að halda bindindi að lokinni meðferð. Margt af því sem veldur þessum ótta finnst meðferðaraðilum órökrétt, en afar áríðandi er að skilja þennan kvíða og að geta mætt konunum þar sem þær eru staddar. Þetta er þeirra raunveruleiki. Skilningur á óttanum og viðurkenning á því að hann sé til staðar er lykilatriði í því að fá konurnar til samstarfs (Storie, 2005).
Sérþarfir og þjónusta sem konur þurfa
Í vímuefnameðferð fyrir konur þarf strax að gera ráð fyrir
þeim þáttum sem geta truflað konurnar og komið í veg
fyrir samstarf. Rannsóknir á meðferðarheldni og árangri
hjá konum í vímuefnameðferð sýna að árangur er mestur
þegar gert er ráð fyrir eftirfarandi þáttum strax í upphafi
meðferðar:
Fæði, fatnaður og húsnæði
Læknisþjónusta
Geðlæknisþjónustu
Ferðir og ferðamöguleikar
Atvinnuaðstoð
Lögfræðiaðstoð
Aðstoð við menntun eða atvinnuþjálfun
Þjálfun og kennsla í uppeldisaðstæðum
Fjölskylduskipulagningu
Fjölskyldumeðferð
Hjónaráðgjöf
Barnapössun
Félagslegt aðstoðarnet
Áræðisþjálfun
Fyrir utan þessa þætti skiptir miklu að fjölskyldan öll taki þátt í meðferð konunnar, sérstaklega ef konan hefur fallið og glímir við eftirköst eftir slíkt, t.d. skömm og sjálfsfyrirlitningu. Þá þarf að taka tillit til þess að konum finnst betra að vera í hópum með konum eingöngu, frekar en blönduðum hópum með körlum (Storie, 2005).
Rannsóknir hafa sýnt að allt að 70% kvenna sem misnota kvíðastillandi lyf og koma af þeim sökum til meðferðar hafa verið beittar ofbeldi, andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu. Tilfinningaþrungin umræða um slíka atburði kemur því oft upp í meðferðinni og margar konur þjást af áfallastreituröskun. Mjög margar konur hafa alist upp í áfengissjúkum fjölskyldum eða þar sem mikið ofbeldi gagnvart þeim eða öðrum á heimilinu var til staðar. Áfallastreituröskun og ofbeldisuppeldi geta leitt til lítillar sjálfsvirðingar hjá konunum og skapað hjá þeim þá tilfinningu að þær séu vanmáttugar og hafi ekki vald á lífinu eða þeim verkefnum sem þær standa frammi fyrir. Samanlagt veldur þetta oft kvíðamynstri sem leiðir til endurtekinnar neyslu og falls. Næmi og skilningur meðferðaraðila á þessum vanda er mjög mikilvægur (Storie, 2005).
Líkamlegir þættir
Konur eru næmari á áfengi en karlar. Þetta þýðir að sama magn af hreinum vínanda, að teknu tilliti til líkamsþyngdar, leiðir til hærra áfengismagns í blóði hjá konum en körlum. Þessi mismunur stafar af hærra hlutfalli líkamsfitu og lægra hlutfalli vatns í kvenlíkamanum. Þar sem alkóhólið blandast í allan vökva líkamans eftir upptöku í smáþörmunum leiðir minni vökvi til hærri áfengisþéttni. Þetta aukna næmi kvenna gæti skýrt að hluta til hvers vegna áfengissýki þróast hraðar og fyrr hjá konum en körlum.
Almennt er talið að áfengi ýti undir kynlífslöngun hjá konum, en raunin er sú að konur hafa minni löngun til kynlífsathafna og eiga erfiðara með að fá fullnægingu þegar þær eru undir áhrifum áfengis. Ófrjósemi og önnur kynlífsvandamál má rekja að mestu leyti til áfengissýki á síðari stigum sjúkdómsins. Þau viðhorf að áfengi auki kynlífslöngun og að einstaklingurinn upplifi sig sem meiri kynveru undir áhrifum, valda konum oft kvíða í upphafi batans. Staðreyndin er sú að flestar konur segjast fá meira út úr kynlífi sínu eftir að þær eru orðnar edrú. Líkamlega eru konur verr farnar en karlarnir á sama aldri og oftar en ekki eru þær vannærðar (Blume, 2005).
Sálrænir þættir
Fáar langtímarannsóknir, þar sem sálrænir þættir hafa verið rannsakaðir, eru til um áfengissjúkar konur. Rannsókn var gerð á kvenkyns háskólanemum er þær voru 19 ára og síðan fylgst með þeim í 27 ár. Þessi rannsókn sýndi fram á að fylgni væri milli þess að lenda í vandræðum með áfengi síðar á lífsleiðinni og þess að hafa ungur glímt við feimni, drukkið til að komast í vímu og þess að drekka til þess að ganga betur á stefnumótum. Meiri fylgni var á milli þessara vandamála og þess að eiga við drykkjuvandamál í háskóla, þ.e. að hafa drukkið sér til vandræða á háskólaaldri. Stjórnlaus drykkja og hegðunarvandamál á unga aldri segja ekki til um vandamál síðar á ævinni hjá konum, en því er öfugt farið með karlmenn. Margar rannsóknir sýna fram á fylgni milli þess að konur sem eiga við þunglyndi og kynlífsvandamál að stríða á yngri árum, drekka meira og lenda í meiri vanda síðar á lífsleiðinni. Einnig er mikil fylgni á milli þess að ef einstaklingar hafa verið misnotaðir kynferðislega eða orðið fyrir öðru ofbeldi, eykur það líkur bæði á misnotkun áfengis og að verða áfengisfíkill. Geðgreiningar eru mun algengari hjá konum en körlum og mikill munur er á því að hjá konunum koma slíkar greiningar á undan áfengisgreiningum en þessu er öfugt farið hjá körlum. Rannsóknir sýna að hjá tveimur þriðju hlutum kvenna er þunglyndi frumgreining, þ.e. litið er svo á að þunglyndið stafi ekki af áfengisfíkninni og er þá áfengisfíknin önnur greining. Í sömu rannsóknum var frumgreining hjá körlum að tveimur þriðju hlutum áfengissýki (Blume, 2005).
Félagslegir þættir
Hvort sem áfengissýki er arfgengur eða áunninn sjúkdómur hafa félagslegar aðstæður mikil áhrif á framvindu og þróun hans hjá konum. Hefðbundin samfélagsleg viðhorf og væntingar um að konur drekki minna en karlar og drekki aðeins við viðurkenndar og sérstakar aðstæður halda oft aftur af því að sjúkdómurinn áfengissýki þróist. Breytingar á félagslegri stöðu kvenna á síðustu áratugum hafa leitt til þess að konur drekka nú meira og oftar en áður með þeirri afleiðingu að drykkjuvandi og áfengissýki er vaxandi vandamál hjá konum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að drykkjusiðir kvenna mótast mest af maka eða þeim sem stendur konunum næst. Þó að samfélagsleg viðmið geti varið konur að einhverju marki frá því að verða áfengissjúkar geta þessi samfélagslegu viðmið einnig verið mjög eyðileggjandi á þann hátt að ef kona drekkur meira en almennt er viðurkennt í samfélaginu, þá er hún dæmd harðar en ef karlar gera slíkt hið sama. Kvenhlutverkið og móðurímyndin hafa mikil áhrif á sjúkdómsþróunina hjá konum, einfaldlega vegna þess að litið er öðrum augum á drykkju kvenna en karla. Þessir sömu þættir valda því einnig að konur drekka oft meira í felum og inni á heimilunum en karlar. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að þessi viðhorf til kvenna auka neyslu lyfseðilsskyldra lyfja til muna því slík neysla er viðurkenndari en t.d. að fá sér bjór. Margar rannsóknir sýna fram á að vandi kvenna er meira falinn en karla. Þegar áfengissjúk kona fellur ekki inn í staðalímyndina þ.e. það norm sem samfélagið setur er líklegt að sjúkdómur hennar greinist ekki eða mjög seint. Það að passa ekki inn í staðalmyndir samfélagsins veldur skömm og afneitun hjá konunni, sem og fjölskyldu hennar, en einnig hjá fagfólkinu sem ætti að greina og meðhöndla sjúkdóminn snemma. Mestar líkur á því að fá ranga greiningu hjá fagfólki er ef sjúklingurinn er vel menntaður, vel félagslega staddur, fjárhagslega sjálfstæður og kona. Þessi félagslega staðalímynd veldur oft því að konur sem drekka verða fyrir kynferðislegri áreitni sem og stefnumótanauðgunum. Kona sem drekkur er í staðalímyndinni talin vera tilbúin til kynferðislegra athafna eða að leita sér að slíku. Nauðgari sem nauðgar undir áhrifum er talin minna ábyrgur fyrir hegðun sinni en fórnarlamb nauðgunar sem er undir áhrifum. Mörgum fórnarlömbum er kennt um að hafa komið sér í þessar aðstæður. Rannsóknir sýna fram á að ótti ófrískra kvenna sem eru í neyslu við dóm umhverfisins getur leitt til þess að þær leita sér ekki aðstoðar. Slíkt bitnar bæði á barni og móður (Blume, 2005).
Heimildir:
Blume, S. (2005). Addiction in women. Í M. Galanter og H. D. Kleber (ritstj.),
Textbook of Substance abuse treatment (bls. 485 – 490). (2. útgáfa). Washington, DC: American Psychiatric Press, Inc.
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann. ( 2006). Ársrit 2005 -2006. Reykjavík: Íslandsprent.
Storie, M.(2005). Basics of addiction counseling: Desk reference and study guide.
Í M. Storie (Ritstj.), Module V: Special Considerations of counseling (bls 187 – 223). (9. útgáfa). Washington DC: NAADAC
Wilsnack, C. S. og Wilsnack, W. R. (2004). International gender and alcohol research: Recent findings and future directions. Journal of the National Institute on Alcohol and Alcoholism, 26, 245 – 250.
