top of page

Lifandi ráðgjöf ehf.

Sagan um upphaf AA-samtakanna

Höfundur:
Hjalti Þór Björnsson (1993)
Áfengis- og vímuefnaráðgjafi, NCAC

Meðgöngutíminn
Árið 1785 skrifaði dr.Benjamin Rush, faðir bandarískrar geðsjúkdómafræði og ritari Sjálfstæðisyfirlýsingarinnar, að alkóhólismi væri sjúkdómur sem þróaðist og eina lausnin væri algert bindindi. Læknar þess tíma tóku þessu fálega og samþykktu engan veginn. Flestir töldu alkóhólista veikgeðja syndara! Bindindishreyfingin (Temperance Movement). Áfengisvandamálið óx mikið seinni hluta 18. aldar og fram á 19. öldina. Aðgangur að áfengi svo og framboð á því jókst jafnt og þétt. Margir dóu úr áfengissýki. Við þessar aðstæður varð bindindishreyfingin til árið 1808 í Saratoga, New York og 1813 í Massachusetts. Hún ól af sér bandarísku bindindisamtökin A.T.S. (American Temperance Movement) árið 1826. Upphafleg hugmynd þeirra (A.T.S.) var að hvetja fólk til hófdrykkju; það er að draga úr eða minnka drykkju. Þetta var fyrsta tilraun í Bandaríkjunum til að fást við afleiðingar áfengissýkinnar. Þessi hreyfing leiddi síðan til stofnunar fyrstu alþjóðlegu bindindishreyfingarinnar árið 1851. Það var í Utica, New York að International Order of Good Templers eða I.O.G.T. var stofnað. Upp úr 1936 hafði sú hugmynd þróast í reglum þessum að algert bindindi var skilyrði meðal félaga þeirra.

Maðurinn sem lagði línurnar í þessum samtökum hét Lymon Beecher. Samtökin töldu sig hafa loforð frá 1/3 hluta þjóðarinnar um að drekka ekki, þegar veldi þeirra stóð sem hæst. Viðhorf bindindishreyfingarinnar til vandræðadrykkju var einfalt: Að koma í veg fyrir drykkju ungs fólks! Halda hófsömum innan hófseminnar! Hinir drykkjusjúku myndu fljótlega deyja (deyja út)! Þeir töldu fylgi við þessa lífssýn leysa vandamálið. Samtökin byrjuðu þó að missa fylgi strax og þau tóku að boða algert bindindi. Sumir af fjárhagslegum stuðningsmönnum hreyfingarinnar, sem vildu gjarnan drekka svolítið, drógu úr stuðningi og yfirgáfu hana eftir fyrstu árin, sem voru þó mjög árangursrík. Samt sem áður ólu þessi samtök af sér aðrar hreyfingar sem létu sig varða þessi mál.

 

Hjálpræðisherinn (Salvation Army)
Fimm árum eftir stofnun hins alþjóðlega I.O.G.T. í Bandaríkjunum, eða árið 1856, stofnaði William Booth í Bretlandi hin alþjóðlegu samtök Hjálpræðisherinn. Hjálpræðisherinn kom til Bandaríkjanna árið 1882. Eru samtök þessi óbeint hugsuð til höfuðs alkóhólismanum.

Washington-samtökin
Þessi samtök hafa verið kölluð brautryðjendur AA-samtakanna. Þau voru stofnuð af alkóhólistum fyrir alkóhólista. Samtök þessi voru kraftmikil en skammlíf. Þann 2. apríl 1840, sátu sex menn að drykkju á bar í Baltimor, Maryland. Síðar um kvöldið ætluðu bindindissamtök að halda fyrirlestur skammt frá. Sér til skemmtunar og til að sjá hvað þar væri á boðstólum, fóru fjórir af þessum sex á fundinn. Þeir komu til baka á barinn, djúpt snortnir af því sem ræðumaðurinn hafði sagt. Þetta leiddi svo til þess að sexmenningarnir töluðu um að stofna sín eigin samtök: Samtök fyrir þá sem vildu hætta að drekka. Hópurinn velti því fyrir sér að nefna samtökin eftir Thomas Jefferson, en hættu við það og nefndu þau Washington samtökin í höfuðið á George Washington. Önnur nöfn festust einnig á samtökunum svo sem Washington-templarasamtökin og Washington-algjört bindindi og fleira, en almennt voru þau kölluð The Wasingtonians. Samtökin stækkuðu og eftir um það bil eitt ár mættu um 1000 manns reglulega á fundi. Þetta voru fyrstu samtökin stofnuð af alkóhólistum sem gátu státað af árangri. Á tveggja ára afmælisfundinum ávarpaði Abraham Lincoln samkomuna. Upp úr þessu voru 5000 deildir stofnaðar. Þegar best lét voru félagar þessara samtaka um 600.000 í Bandaríkjunum. Miðað við fólksfjölda, þá hefur það verið gríðarlegur árangur.

Það voru einnig Washington samtökin sem tóku að halda Speaker-fundi, eins og þekktir eru í AA-samtökunum í dag. Sömuleiðis að fundarmenn stæðu upp og segðu frá reynslu sinni, tengdri áfengis-neyslu og afleiðingum hennar. Þessi hefð er trúlega upphafið að því að alkóhólistar deila með sér reynslu sinni, trú, von og kærleika, eins og enn tíðkast í AA-samtökunum. Því miður var ekki boðið upp á neina sérstaka áætlun til að ná andlegum bata fyrir félaga W.S.

Eftir um það bil þrjú ár byrjaði áhuginn á samtökunum að dvína. Samtökin blönduðust inn í mjög alvarleg og hatröm deilumál um þrælahald, sem ollu mikilli upplausn í samtökunum og minnkandi tiltrú fólks á þeim (ekki var um að ræða neinar reglur til að verja samtök þessi eins og erfðavenjur AA-samtakanna verja þau). Washingtonsamtökin tengdust einnig Bann-samtökunum sem voru löngu úrelt og nutu ekki virðingar í þjóðfélaginu. Samt sem áður voru þetta merkileg samtök, með góðar hugmyndir, en aðalástæðan fyrir hruni þeirra var að miklu leyti skortur á framkvæmdaáætlun til að ná settu marki í batanum frá alkóhólisma. Eftir rúm sjö ár höfðu samtökin nokkurn veginn lognast útaf.

 

Þó Washingtonsamtökin virtust sjá andlega vakningu sem hluta af lausninni á vandanum (trúlega reynslan af fundinum í Baltimor), þá er ljóst að þeir höfðu ekkert sjúkdómsinnsæi. Þeir litu ekki á alkóhólisma sem sjúkdóm þrátt fyrir að sú skilgreining hefði verið sett fram af dr.Rush 1785, eða 55 árum áður.

Washingtonsamtökin urðu fyrst til að opna heimili til að meðhöndla alkóhólista árið 1845, eða fyrstu meðferðarstöðina sem sögur fara af.

Emmanúelhreyfingin
Þó að Emmanúelhreyfingin, sem stofnuð var í Boston árið 1900, hafi ekki haft skilning á, né notað sjúkdómsskilgreininguna á alkóhólismanum, þá var það fyrsta hreyfingin sem taldi sálfræðilega þætti hluta af vandanum. E.H. var nær eingöngu í Austurfylkjum Bandaríkjanna. Á blómaskeiði þessarar hreyfingar töldu forsvarsmenn hennar að í þeim væru um 30.000 félagar sem náð hefðu bata eftir þeirra hugmyndum. Bók William James, The Varieties of Religious Experience hafði mikil áhrif á samtökin. Á sama hátt og W.S. þá átti E.H. sinn þátt í sumum hugmyndanna sem síðar ólu af sér AA-samtökin. Úr þessari hreyfingu er talinn fyrsti formlegi og opinberlega skráði áfengisráðgjafinn, Courtney Baylor. Baylor kom á fót skrifstofu til að hitta skjólstæðinga sína. Hann upplýsti að til hans leitaði fólk öll kvöld og tók hann 20 dali fyrir viðtalið. Þrátt fyrir það að hann væri sjálfur endurhæfður alkóhólisti deildi hann ekki þeirri staðreynd með skjólstæðingum sínum. Baylor var mjög farsæll ráðgjafi og hefur trúlega verið fyrstur til að koma upp hnitmiðaðri og árangursríkri meðferðaráætlun fyrir alkóhólista. Einn af þeim sem hann vann með, var Richard Peabody. Peabody þessi skrifaði síðar bókina The Common Sense of Drinking, sem kom út árið 1930. Sú bók var notuð af Oxford-hópnum og lesin af upphafsmönnum AA. Peabody skrifaði um aðferðir og hugmyndir Courtney Baylor. Þennan texta er að finna á bls. 10 og 11: Drykkja er greinilega óskin um að komast undan raunveruleikanum. Hinir villandi töfrar af drykknum stafa af því að áhrif áfengis eru ótrúlega fullnægjandi fyrir ákveðnar sálrænar þarfir. Flestir sem taka einn drykk munu lýsa því sem þeir fá út úr því tilfinningalega á þennan hátt: (1) rólyndi, jafnvægi, kyrrð og slökun. (2) sjálfsánægja, sjálfsöryggi og sjálfsmikilvægi. Á meðan þörf meðalmannsins fyrir hugarró og sjálfsánægju er svalað með neyslu áfengis, ef þess er neytt í hófi, þá eru aðrir eðlilegir að öðru leiti sem bregðast óeðlilega við áfengi, eða þannig að áfengi er alltof heillandi fyrir þá. Það eitrar taugakerfi þeirra. Þeir sem bregðast þannig við áfengi þurfa að útiloka það algjörlega úr lífi sínu, ellegar hljóta þeir mjög alvarlegar afleiðingar af neyslu þess. Það er vel mögulegt að athugasemdir dr.Silkworth¹s í AA bókinni séu að hluta til tilvitnun í bók Peabodys, þegar hann útskýrir óeðlileg viðbrögð við áfengi þegar það kemur í líkama alkóhólista. Bók Peabodys átti stóran þátt í því að koma orðinu alkóhólisti inn í orðaforða fólks, í stað margra annarra svo sem róni, úrhrak, drykkjurútur, o.s.frv. Orðið alkóhólisti, á ensku alcoholic, varð síðan hluti af nafni alþjóðasamtakanna Alcoholics Anonymous (AA skammstöfunin).

 

Þrátt fyrir að þeir Cortney Baylor og Richard Peabody kæmu með margar góðar hugmyndir í útgáfum sínum og vinnu, skildu þeir ekki til fulls að um sjúkdóm væri að ræða; sjúkdóm ofnæmis og þráhyggju (obsession). Þeir voru þó langt á undan sinni samtíð hvað varðar almenn viðhorf til áfengissýkinnar.

Oxfordhreyfingin (Oxford-Groups)
Oxfordhreyfingin var trúarleg (andleg) hreyfing stofnuð í Bandaríkjunum árið 1918. Þrátt fyrir að hóparnir væru ekki eingöngu ætlaðir alkóhólistum, höfðu þeir greinilega mikil áhrif á þá stefnu sem meðferð alkóhólisma tók. Dr.Frank Buchman, einn af bandarísku stofnendunum, var starfandi sem skólastjóri við drengjaskóla í Philadelfíu. Hann átti í miklum samstarfserfiðleikum við meðstjórnendur sína í skólanum, vegna þess að hann fékk ekki nægt fé til rekstursins. Þessir erfiðleikar enduðu með því að Buchman sagði upp stöðu sinni í miklu fússi og fór til Englands árið 1908. Kvöld eitt árið 1911, þegar hann var staddur í lítilli kirkju í Cumberland á Englandi, talaði kona nokkur um kraftinn í krossinum og hann upplifði skyndilega mikla breytingu á sjálfum sér. Hann sneri heim til Bandaríkjanna og skrifaði bréf til stjórnarinnar í skólanum sem hann hafði hætt hjá í reiði. Hann skrifaði bréf til að bæta fyrir mistök sín. Þrátt fyrir að hann fengi engin svör frá stjórninni losnaði hann við reiðina og sektarkenndina. Buchman tók að starfa með öðrum og ferðaðist til Austurlanda fjær. Meðan hann var þar hitti hann Sam Shoemaker, sem síðar varð prestur. Upp úr 1920 varð söfnuður Sams sem síðar nefndist Calvary House höfuðstöðvar Oxford-hópanna í Bandaríkjunum. Eitt sinn er hann ferðaðist í lest með hóp af stúdentum úr Oxford-háskólanum, kom lestarvörðurinn og vildi vita deili á þeim. Lestarvörðurinn setti skilti á klefa þeirra þar sem á var ritað Oxford-hópur. Þetta varð síðar nafn hópanna og hreyfingarinnar.

Því hefur verið haldið fram að í Oxford-hópunum hefði verið fólk sem var að reyna að lifa lífinu á sama hátt og kristnir menn á fyrstu öld. Fundir hópanna voru einskonar heimboð. Samtökin höfðu enga formlega uppbyggingu og meðlimir borguðu engin gjöld. Í hópnum var fólk með mismunandi trúarskoðanir, sem kom saman til að þroskast eftir andlegum leiðum. Það var engin félagaskrá og þeir sem komu hafði oftast verið boðið af öðrum. Heimboðin voru oftast haldin á vinsælum stöðum, svo sem sumarbúðum, frægum hótelum eða efnameiri heimilum, þar sem gestirnir borðuðu saman og ræddu andleg málefni. Til eru staðfestar upplýsingar um eitt slíkt heimboð í Hollywood þar sem 36.000 manns mættu. Margir áhrifamenn tengdust þessum hóp, meðal annars borgarstjóri New York og Harry Truman forseti. Þá er talið að Oxford-hóparnir hafi haft mikil áhrif á stjórn og umsvif flestra trúarhópa þessa tíma.

Hugmyndir Oxford-hópanna hafa mjög líklega verið upphafið að félagsskap AA-samtakanna. Meginreglur Oxford-hreyfingarinnar voru: 1) Skilyrðislaus heiðarleiki 2) skilyrðislaust hreinlyndi 3) skilyrðislaus óeigingirni 4) skilyrðislaus ást. Framgangsmáti og sameiginleg markmið þeirra voru: (i) Að deila syndum sínum og freistingum með annarri kristinni manneskju sem hefði falið líf sitt Guði, og að nota það sem hjálpartæki fyrir þriðja aðila til að koma auga á sínar eigin syndir og freistingar og geta létt á samviskunni. (ii) Að afsala sér allri stjórn á lífi sínu í fortíð, nútíð og framtíð og fela stjórnina Guði. (iii) Að gera upp sakir við alla sem þeir höfðu gert á hlut, beint eða óbeint. (iv) Að hlusta á, samþykkja og treysta á stjórn Guðs og lúta henni í öllu sögðu og gerðu, stóru og smáu. Við nánari skoðun þessara markmiða má sjá í þeim hugmyndir sem síðar urðu að 12-spora kerfi AA-samtakanna. Fyrsta markmiðið (að deila syndum sínum), má líkja við 4. og 5. sporið. Öðru markmiðinu (að afsala sér stjórn á lífi sínu), má líkja við 3. sporið. Því þriðja (að gera upp sakir) við 8. og 9. sporið og því fjórða (að treysta Guði) við 11. sporið. Í ritum Oxford-hreyfingarinnar er með synd átt við sjálfselskulegt atferli. Þar eð fáir alkóhólistar gátu sætt sig við þessi hefðbundnu trúarlegu skilyrði, endurritaði Bill Wilson þessar aðferðarlýsingar þannig, að í stað að deila syndum sínum kom; við gerðum rækileg og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar (4. sporið). Á sama hátt varð það að játa að; við játuðum afdráttarlaust fyrir Guði, sjálfum okkur og trúnaðarmanni yfirsjónir okkar (5. sporið). Að lúta stjórn annars í stóru og smáu og aðrar álíka hugmyndir voru mjög óaðgengilegar fyrir nýendurhæfða alkóhólista. Þar sem fáir alkóhólistar vildu lúta stjórn, eða fela sig á vald varð til texti sem segir: Við tókum þá ákvörðun að leita Guðs og láta vilja okkar og líf lúta handleiðslu hans, samkvæmt skilningi okkar á honum (3. sporið). Þessi skilyrði voru mun aðgengilegri og ásættanlegri fyrir alkóhólista. Eitt af skilyrðum Oxfordhreyfingarinnar var að gera upp sakir við aðra og þar eins og víðar í ritum þeirra átti þetta að gerast afdráttarlaust, eða skilyrðislaust. Þessu gátu alkóhólistar ekki tekið og því breytti Bill W. þessu í tvö spor til að auðvelda alkóhólistum þennan þátt. Þessi tvö spor voru að: Við skráðum misgjörðir okkar gegn náunganum (8. sporið), og Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust, þar sem það var hægt (9. Sporið). Þessi spor stóðu undir því sama og þriðja markmið Oxfordhreyfingarinnar. Það síðasta sem Oxfordhreyfingin lagði fyrir liðsmenn sína var að taka ábendingum (leiðsögn). Enginn sjálfmiðaður alkóhólisti vill þiggja leiðsögn frá annarri manneskju. Þess vegna var þeirri aðferð breytt í AA á þann hátt að við skyldum biðja um skilning í gegn um bæn og hugleiðslu og þannig komast að því hver væri vilji Guðs fyrir okkur (11. sporið). Fyrsta og tólfta sporið voru upphaf og endir AA-prógrammsins. Í fyrsta sporinu viðurkenndi alkóhólistinn vanmátt sinn gagnvart áfengi og í því tólfta var sett fram sú hugmynd, að það að deila reynslu sinni og vinna með alkóhólistum, væri besta tryggingin fyrir áframhaldandi edrúmennsku hjá alkóhólistanum. Fullkomin, skipulögð áætlun um hvernig ætti að öðlast bata, var orðin raunveruleg staðreynd.

Við getum auðveldlega séð að bataáætlun AA-samtakanna, fær mikið frá Oxford-hreyfingunni. Stofnendur og upphafsmenn AA-samtakanna, Bill W., dr.Bob, Ebby T. og Rowland H., voru allir AA-meðlimir Oxford hópsins.

Bannárin
Meðan þessi þróun átti sér stað, settu stjórnmálamenn, undir miklum þrýstingi ýmissa trúarhópa, lög sem bönnuðu framleiðslu, dreifingu og sölu áfengis í Bandaríkjunum. Lögin tóku gildi 29.janúar 1919 og urðu með þeim mikil tímamót í sögu þjóðarinnar. Er lagasetning þessi í dag talin vera einhver mestu mistök síðari tíma í sögu Bandaríkjanna. Önnur ríki, þar á meðal Ísland, tóku sér Bandaríkin til fyrirmyndar og bönnuðu áfengi með lögum. Banninu var aflétt í Bandaríkjunum árið 1933, af einni ástæðu; skatttekjur af sölu áfengis töpuðust við bannið og sá biti var orðinn of stór fyrir ríkiskassann. Landið var í mikilli efnahagskreppu og Roosvelt forseti vissi að skattur af áfengissölu gæti hjálpað mikið til við að rétta af fjármálin. Áfengið varð þannig leyft aftur og skattar af því eru enn í dag stór liður í tekjum hins opinbera. Áfengisneysla varð því aftur opinber en skilningsleysi og fáfræði um áfengismálin höfðu lítið breyst og ekkert hafði verið gert til að takast á við hið raunverulega vandamál alkóhólisma.

Rowland Hazard og dr.Carl Gustaf Jung
Rowland Hazard, bankaeigandi í Vermont, var búinn að reyna allt til að hafa stjórn á drykkju sinni. Árið 1930 fór hann til Zurich í Swiss til meðferðar hjá geðlækninum dr.Carl Gustaf Jung. Dr. Jung stóð afar framarlega í sinni grein og hugmyndir hans og rannsóknir á mannshuganum höfðu mikil áhrif og hafa enn í dag. Þetta var á svipuðum tíma og dr.Silkworth byrjaði að vinna á Towns Hospital. Rowland var í meðferð hjá dr.Jung í um það bil eitt ár, en sneri að því loknu til síns heima. Fljótlega var hann farinn að drekka aftur. Rowland hvarf þá aftur á fund dr.Jungs og ráðfærði sig við hann. Spurði hann dr.Jung hvort nokkur leið væri til að ná tökum á alkóhólinu. Dr.Jung sagði honum að hann væri með hugsun krónísks alkóhólista og að hann ætti sér enga von nema að verða fyrir þýðingarmikilli andlegri reynslu eða á ensku; “vital spiritual experience” sem hefði í för með sér róttækar hugarfarslegar breytingar. Þessa staðhæfingu hafa AA-samtökin gert að höfuðinntaki viðleitni sinnar og hefur hún orðið til þess að milljónir manna um allan heim hafa öðlast bata frá alkóhólisma.

Dr.Carl Gustaf Jung sagði Rowland frá alkóhólistum sem hefðu náð bata, en það væri fátítt og ætti sér ekki stað nema eftir víðtæka trúarlega reynslu sem leiddi til hugarfarsbreytinga. Hann lagði til við Rowland að hann reyndi að koma sér inn í eitthvert trúarlegt umhverfi með von um hið besta. Skömmu síðar var Rowland kominn í samband við Oxford-hreyfinguna og losnaði þar undan drykkjuáþján sinni. Dr.Jung ráðlagði Rowland einnig að lesa bókina The Varieties of Religious Experience eftir William James. Þegar Rowland kom til New York varð hann virkur meðlimur á Oxford-fundunum sem voru haldnir í kirkjunni í Calvary.

Um Ebby Thatcher
Ebby Thatcher hafði verið vel stæður, en 1934 blasti við honum gjaldþrot. Í júlí ákvað hann að fara í sumarbústað fjölskyldunnar í Manchester í Vermont-fylki. Þetta var eina athvarf þessa brotna manns. Bústaðurinn hafði verið í niðurníðslu mjög lengi og hann ákvað að reyna að endurnýja hann eitthvað. Meðan hann var þarna versnaði drykkja hans stöðugt. Rowland Hazard var í sumarbústað sínum nálægt Manchester þar sem hann frétti af drykkjuvandamáli Ebby. Tveir af gestum Rowlands, þeir Shep Cornell og Cebra G. heimsóttu Ebby og sögðu honum frá Oxford-hópunum. Nokkrum dögum seinna heimsótti Rowland Ebby og sagði honum frá áfengisvandamáli sínu, hvernig hann hefði tekist á við það og náð bata.

Innan fárra daga var Ebby aftur í vandræðum vegna drykkju sinnar. Ebby hafði verið að mála þak á bústaðnum þegar fuglahópur kom og settist á það nýmálað. Hann sótti byssu sína í húsið og byrjaði að skjóta stjórnlaust á þessa fiðruðu óvini. Nágrannar hringdu á lögregluna sem handtók Ebby og setti í fangelsi. Við réttarhöldin var dómarinn (faðir Cebra G.) tilbúinn að leggja Ebby inn á hæli fyrir drykkjusjúka. Rowland, sem hafði fylgt Ebby fyrir dóminn, stakk upp á málamiðlun. Eftir að hafa sagt frá því hvernig hann hefði náð bata frá alkóhólisma, samþykkti dómarinn að sleppa Ebby, gegn því að Rowland hefði eftirlit með honum. Ebby gisti um tíma hjá Rowland, eða þar til hann fór til New York með Shep Cornell. Þar bjó Ebby hjá einum meðlima Calvary-safnaðarins. Ebby fór fljótlega að starfa í söfnuðinum við að hjálpa öðrum, samhliða því að honum var hjálpað. Þetta varð honum góð aðstoð í bataþróuninni.

Þegar Ebby hafði verið ódrukkinn í nokkra mánuði hitti hann gamla kunningja sem sögðu honum þær fréttir að gamall skólafélagi hans og vinur, Bill Wilson væri í miklum vandræðum út af drykkjuskap. Ebby hafði samband við Bill. Nokkru síðar bauð Bill honum í heimsókn og hlakkaði til að fá sér í glas með sínum gamla vini. Bill til mikillar undrunar kom Ebby edrú og færði honum sama boðskap og Shep, Cebra og Rowland höfðu flutt Ebby áður. Það var í nóvember 1934, heima í eldhúsinu hjá Bill, að Ebby flutti honum boðskapinn sem síðar varð lausn á alkóhólisma hans. Sami boðskapur og Dr.Jung hafði fært Rowland fjórum árum áður. Það fór hrollur um Bill þegar Ebby nefndi Guð, en þá stakk Ebby upp á því að hann reyndi að trúa samkvæmt sínum eigin skilningi á Guði. Á þessari stundu breyttist boðskapurinn úr trúarlegri reynslu í andlega reynslu.

Um Bill Wilson (William Griffith Wilson)
Bill W. og Ebby T. hittust fyrst og urðu vinir þegar þeir gengu saman í skóla í Manchester í Vermontfylki. Sem ungir menn vissu þeir ekki hve mikilvægu hlutverki þeir ættu eftir að gegna í lífi hvors annars síðar á lífsleiðinni. Bill var kallaður í herinn í Fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir þjálfun var hann staðsettur í Ft. Rodman herstöðinni í New Bedford í Massachusetts. Þar fór hann í partý og var boðið í glas sem hann þáði. Hann var þá tuttugu og tveggja ára gamall. Bill var mikill drykkjumaður frá byrjun. Hann var aldrei á neinu meðalstigi í drykkju og hann drakk aldrei einungis vegna félagsskapsins. Eftir heimsstyrjöldina vann hann í Wall Street sem verðbréfasali. Hann þótti snjall sem slíkur og duglegur. Velgengni hans var þó fljótlega ógnað af versnandi drykkju. Haustið 1933 leitaði hann sér í fyrsta sinn aðstoðar á Towns Hospital í New York. Spítali þessi hafði sérhæft sig í meðferð á áfengis- og vímuefnafíklum. Þar hitti hann dr.William D. Silkworth, sem hafði unnið þar síðan árið 1900. Til meðferðar hjá W. Silkworth komu alls um 50.000 alkóhólistar, meðan hann vann að þessum málum. W.Silkworth taldi að einungis tvö prósent hefðu náð bata af þessum stóra hóp sem hann hafði til meðferðar. Silkworth sagði Bill frá kenningum sínum um alkóhólismann. Taldi hann að hér væri um að ræða ofnæmi, samfara andlegri þráhyggju. Hjá Silkworth heyrði Bill í fyrsta sinn að alkóhólismi stafaði ekki af skorti á viljastyrk, og væri heldur ekki merki andlegra vankanta, heldur sjálfstæður sjúkdómur. Honum leið eins og nýjum manni þegar hann yfirgaf spítalann og vissi þá að hann gæti aldrei framar tekið eitt glas án þess að eiga það á hættu að skaðast. Þessi vitneskja dugði stutt og hélt honum ekki edrú frekar en annað. Sumarið 1934 var Bill aftur kominn á spítalann og var þá með sterk einkenni starfrænna truflana á heilastarfseminni. Dr.Silkworth sagði Louis, konu Bills, að hann gæti ekki haldið út eitt ár til viðbótar eins og hann væri á sig kominn og að trúlega þyrfti að loka hann inni til þess að hann færi sér ekki að voða. Bill yfirgaf spítalann og óttinn hélt honum edrú í smá tíma. Hann féll aftur í drykkju vopnahlésdaginn þann 11. nóvember 1934.

Í lok nóvember 1934 fékk Bill símtal frá Ebby, sem vildi koma í heimsókn. Það fannst Bill góð hugmynd og hlakkaði til að fá einhvern til að drekka með. Hann hafði ekki séð Ebby í fimm ár en þá höfðu þeir báðir verið drekkandi. Bill hafði einnig frétt að Ebby hefði verið lokaður inni á drykkjumannahæli og velti því fyrir sér hvernig honum hefði tekist að sleppa þaðan. Hann vildi heyra Ebby segja frá því. Bill hafði einnig fyrir mörgum árum sett sér þau mörk að ef hann ætti eftir að drekka eins og Ebby, þá ætlaði hann að hætta. Bill til mikillar undrunar var Ebby edrú þegar hann kom og vildi ekki þiggja drykk þegar honum var boðið. Bill tók einnig eftir því að Ebby bæði leit út, og hagaði sér öðruvísi, en hann var vanur. Ebby sagði Bill frá því hvernig hann hefði orðið edrú og héldi sér þannig. Bill hélt áfram að drekka meðan Ebby talaði og þegar Ebby nefndi Guð, fór hrollur um Bill. Hann þoldi hvorki trúboð né skipulögð trúarbrögð. En einu gat hann ekki neitað: Ebby var edrú en hann, Bill, var það ekki. Bill drakk í nokkra daga eftir þetta, en ákvað síðan að fara á einn af þessum Oxford-fundum sem Ebby hafði sagt honum frá. Hann kom við á bar á leiðinni á fundinn og hitti þar mann að nafni Alec og bauð honum með sér á fundinn. Báðir komu illa drukknir á fundinn í Calvary-söfnuðinum. Tekið var vel á móti þeim, borinn fyrir þá matur og kaffi til að reyna að hressa þá við. Það bar lítinn árangur og á miðjum fundi eftir að hafa heyrt nokkra menn tala um reynslu sína, bæði í drykkju og frá henni, vildi Bill tala líka. Hann stóð upp, fór í pontu og tjáði sig! Aldrei síðar gat hann munað hvað hann hafði sagt. Bill var lagður inn á Towns Hospital þann 10. desember 1934. Á leiðinni þangað hafði hann keypt sér nokkra bjóra og var að drekka þá þegar hann talaði við Silkworth við innskráninguna. Þar sagði hann honum að nú hefði hann loks fundið eitthvað sem myndi hjálpa honum til að vera ódrukkinn. Silkworth sagði honum að fara í rúmið. Daginn eftir, þann 11. desember drakk Bill síðasta bjórinn. Hann vissi ekki þá að þetta yrði hans síðasta afeitrun. 12.12. 1934 var því fyrsti dagurinn sem hann var ódrukkinn, einn dag í einu í samfellt 36 ár. Gaman er að skoða þessa dagsetningu í samhengi við 12 spor og 12 erfðavenjur sem síðar urðu til. Næstu daga var Bill í mikilli áfengisþoku. Ebby heimsótti hann og stappaði í hann stálinu. Bill upplifði mikið þunglyndi þegar runnið var af honum. Á fyrstu klukkustundum 14. desember 1934 var ástand hans orðið þannig að hann var fullur sektar og iðrunar, hjálparvana og vonlítill. Hann grét mikið þar til hann lagði ráð sitt í hendur Guðs eins og hann lýsir því í bókinni Lífsviðhorf Bills (As Bill Sees It): Hugarangur mitt varð óbærilegt og loks fannst mér ég vera sokkinn til botns. Í bili fannst mér síðasta vígi þrjósku minnar og stolts hrunið til grunna. Ég vissi ekki fyrr en ég var farinn að hrópa: Ef Guð er til, þá sanni hann sig. Ég er reiðubúinn til að gera hvað sem er! Skyndilega birti og sjúkrastofan varð böðuð hvítu, skæru ljósi. Mér fannst sem um mig léki andblær sem ekki var af þessum heimi. Mér fannst ég allt í einu vera frjáls maður. Smám saman hvarf sýnin. Ég lá eftir í rúminu en góða stund var ég í öðrum heimi, nýjum vitundarheimi. Ég var fullur vellíðunar og fann enn návist HANS og hugsaði með mér: Svo þetta er þá Guð prédikaranna.

Eftir þetta urðu róttækar breytingar á verðmætamati, viðhorfum og hugmyndum Bills. Fór hann að hugsa og hegða sér öðruvísi en áður. Má skoða reynslu þessa sem hina raunverulegu fæðingu hugmyndanna að því sem síðar varð kveikjan að AA-samtökunum. Bill Wilson var 39 ára þegar þetta átti sér stað. Hann andaðist 24. janúar 1971, 76 ára gamall.

Starfað með öðrum
Bill Wilson útskrifaðist af Towns Hospital 18. desember 1934 og hófst strax handa. Hann fór reglulega á fundi í Oxford-hópnum í Calvary-söfnuðinum. Oxford-hópurinn var ekki eingöngu fyrir alkóhólista og leiddi það til þess að þeir tóku að mynda sjálfstæðan hóp innan hópsins. Þeir gerðu sér fljótt grein fyrir því að það að aðstoða aðra við að verða edrú hjálpaði þeim sjálfum að vera ódrukknum. Bill sannfærði Silkworth um að hann gæti aðstoðað menn sem væru á spítalanum. Hann fékk leyfi til að koma þangað og deila reynslu sinni með alkóhólistum sem þar voru. Fljótlega lenti Bill í vandræðum þar sem honum fannst enginn hlusta á sig. Að lokum benti Silkworth honum á hvað hann gerði rangt. Hann sagði honum að hætta að predika yfir mönnunum. Reyna heldur að útskýra fyrir þeim hvernig þetta var hjá honum sjálfum og hvað hefði gerst. Bill fylgdi ráðum Silkworths og þá fóru hlutirnir að gerast.

Dr.Bob Smith (Robert Holbrook Smith)
Í maí 1935, lenti Bill Wilson í miklum vandræðum vegna viðskiptasamninga sem mistókust. Hann var þá staddur í Akron, Ohio. Velgengni hans í einkalífinu var ógnað og honum fannst hann standa tæpt gagnvart áfenginu. Hann reyndi að hafa upp á einhverjum alkóhólista sem hann gæti talað við. Prestur á staðnum, Tunks að nafni, lét hann fá nokkur símanúmer sem hann gat hringt í og eftir krókaleiðum náði hann sambandi við Henríettu Sieberling. Hún hafði verið gift alkóhólista en var skilin við hann. Bill sagði henni erindi sitt og hún kom honum í samband við dr.Robert Holbrook Smith, sem hún hafði reyndar lengi án árangurs reynt að aðstoða í gegnum Oxford-hreyfinguna sem hún var meðlimur í. Dr.Bob Smith og Anne kona hans voru búin að vera lengi viðloðandi Oxford-hópinn þar í bæ. Bob hafði lesið mikið um hugmyndir þeirra og stundað fundi hjá hópnum til að komast að því hvernig þeir virkuðu, eins og hann sjálfur lýsti því. Hann drakk þó reglulega. Henríetta bauð Bill heim til sín. Þegar hann kom hringdi hún í Anne og ætlaði að bjóða henni og Dr.Bob að koma. Smitty var þá útúrdrukkinn og þau gátu ekki komið. Næsta dag, 12. maí 1935, hittust Bill Wilson og Dr.Bob Smith í fyrsta sinn. Þegar þeir hittust var Bob órólegur og skalf talsvert. Hann tilkynnti Bill að hann gæti í mesta lagi stoppað í 15 mínútur, en róaðist þó þegar Bill stakk upp á því að hann fengi sér í glas. Þeir töluðu saman í sjö klukkustundir samfleytt. Dr.Bob hafði heyrt flest það áður sem Bill sagði, en það sem var þó öðruvísi var að nú heyrði hann annan alkóhólista segja þetta. Þetta var enginn fyrirlestur, heldur persónuleg reynsla.

Bill dvaldi á heimili Bob og Anne í Akron næstu þrjá mánuði. Dr.Bob hafði verið ódrukkinn í tvær vikur þegar hann ákvað að fara á læknaþing í Atlantic City, fyrstu vikuna í júní. Hann hafði ekki misst af þessu þingi í 20 ár. Þetta endaði á miklum túr og síðan tók við þriggja sólarhringa afeitrun þegar heim var komið. Dr.Bob drakk í síðasta sinn þann 10. júní 1935. Í dag er sá dagur skoðaður sem upphafsdagur AA-samtakanna.

AA verður til
Þann tíma sem Bill dvaldi á heimili Bob og Anne iðkuðu þau hugleiðslu og íhugun alla morgna. Það hófst með hljóðri stund. Eftir nokkurn tíma las Anne kafla úr bókum um trúarleg efni. Síðan fór eitt þeirra með bæn upphátt og eftir það öll í hljóði. Eftir aðra þagnarstund sögðu þau hvort öðru frá því sem kom í huga þeirra. Þessar morgunstundir voru í raun hugmyndir Oxford-hópanna. Margar AA deildir hefja fund á svipaðan hátt í dag. Þegar Bill sneri til New York í ágúst 1935 voru fjórir orðnir edrú og sá fimmti á snúrunni. Frá því um haustið 1935 til vors 1936 hjálpaði Bill tveimur til að verða edrú í New York. Haustið 1937 voru sjö endurhæfðir alkóhólistar í Akron og fimm í New York. New York alkóhólistarnir sögðu skilið við Oxford-hreyfinguna 1937. Eftir það héldu þeir fundi á heimili Bills og Louis Wilson. Í Akron héldu alkóhólistarnir áfram að halda fundi í Oxford-hópnum fram til loka ársins 1939 er þeir skildu sig einnig frá þessari hreyfingu og stofnuðu deild svipað og alkóhólistarnir í New York. Héldu þeir fundina til að byrja með á heimili Dr.Bob. Árið 1937 var hafist handa við að skrifa AA bókina. Bill Wilson lagði þar drjúga hönd á plóginn. Handritið var 1200 blaðsíður. Það var skorið niður í 400 blaðsíður fyrir prentun, enda bókin fljótt kölluð Stóra bókin. Bókin kom úr prentun 1939 og var AA-samtökunum gefið nafnið eftir að bókin kom út.

 

Helstu heimildir:

1. The Variaety og Religious Experience: William James, New York, N. Y., Modern Library 1929.

2. The Way it Began: B. Pittmann, Seattle, Washington, Glen Abby Books 1988.

3 Alcoholics Anonymous Comes of Age: New York, N.Y., AA World Service Inc. 1957.

4. Pass It On; Bill Wilson and the AA Message: New York, N.Y. AA World Service Inc. 1984.

5. Dr.Bob And The Good Old timers: New York, N.Y. AA World Service Inc. 1980.

6. Not God. A History of AA: Ernest Kurtz, Center City, Minnesota Hazelden Educational Services 1979.

 

 

bottom of page