top of page

Lifandi ráðgjöf ehf.

Áhrif áfengis

Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir

Áfengi hefur litað líf fólks meira en flest annað í gegnum aldirnar og er það hluti af menningu okkar. Frá örófi alda hefur maðurinn sóst eftir að komast í áfengisvímu. Áfengi er í raun löglegur vímugjafi og hefur neysla þess í hófi talist eðlilegur hlutur í lífi heilsuhraustra manna. Alkóhólismi hefur ávallt fylgt áfengisneyslu fólks og að mati heilbrigðisstarfsmanna og vísindamanna er alkóhólismi sjúkdómur sem þeir telja auðvelt að greina og meðhöndla. Áfengi er beinlínis markaðssett sem vímuefni til að nota í sambandi við skemmtanir og hátíðleg tækifæri. Það hefur einnig um aldir verið notað til lækninga, s.s. við kvíða, svefnleysi og ýmsum kvillum, m.a. hjartaöng (SÁÁ, e.d.). Lyfhrif áfengis á líkamann eru að áfengið veldur vímu og hvetur menn til frekari drykkju. Alkóhólið fer úr líkamanum í formi þvags, með andardrætti og svita. Lifrin hreinsar áfengi úr blóði. Áhrif eins drykkjar vara í klukkustund eftir að hans er neytt (Dodgen og Shea, 2000).

 

Efnafræði áfengis
Til eru margar gerðir af alkóhóli og nefnast þau etanól á fræðimáli en alkóhól er

eitt af þeim. Alkóhól hefur þann eiginleika að komast hratt og auðveldlega úr

meltingarveginum inn í blóðið og dreifast með því um líkamann þar sem sameind

alkóhóls er lítil og fituleysanleg. Alkóhól berst því fljótt til heilans og annarra líffæra.

Því þurfa einstaklingar sem eru stórir og vöðvamiklir meira magn af alkóhóli en

þeir sem eru grannir og vöðvaminni til þess að áfengismagnið í blóði verði

það sama (Inaba og Cohen, 2004).

Fyrstu áfengissameindirnar birtast í blóðrásinni eftir aðeins eina mínútu þegar einstaklingar neyta áfengis. Lítið magn af áfenginu, eða um 10-20%, er tekið strax upp í maganum. Áður en alkóhól kemst út í blóðið eru ensím í vegg smáþarma og magans sem brjóta það niður. 80-90% eru því tekin upp í mjógirninu og þá aðallega í skeifugörninni.
Lifrin losar líkamann við mikið magn alkóhóls eða um 90%. Það gerir hún með því að umbreyta alkóhólinu í önnur efni en 10% alkóhólmagns er skilað óbreyttu með þvagi og öndunarlofti. Við niðurbrot alkóhóls í lifrinni verður til efni sem nefnist acetaldehýð. Lifrin brýtur niður alkóhól í tveimur hlutum. Fyrst breytir ensím, sem nefnist alkóhól dehýdrógenasi, áfengi í acetaldehýð. Síðan breytir acetaldehýð dehýdrógenasi því áfram í ediksýru. Þar næst breytist ediksýran í vatn og koltvísýring vegna áhrifa margra ensíma (Inaba og Cohen, 2004).

 

Verkun áfengis

Vímuefni hafa áhrif á heilann með því að bindast vissum viðtökum og herma þannig eftir innlægum boðefnum heilans. Því er verkun sumra lyfja og efna ákveðin og afmörkuð. Verkun áfengis er almenn, margbreytileg og flókin og hefur það áhrif á nær öll boðefnakerfi heilans. Áfengi er of flókið efni til að geta virkað á ákveðna móttaka. Þannig er áfengisverkun að mestu skýrð út frá áhrifum áfengis á hina ýmsu viðtaka heilans. Við myndun fíknar í hin ýmsu vímuefni sendir hópur taugafrumna boð eftir taugaþráðum sem enda í

heilakjarna sem nefnist accumbens-kjarni. Taugarnar losa boðefnið dópamín í heilakjarnanum og það veldur mönnum vellíðan eða vímu. Þessar taugar eru verulega næmar fyrir áfengi. Margvíslegar athafnir og aðgerðir geta orðið til þess að dópamín losnar í heilakjarnanum. Því er það svo að menn endurtaka slíkar athafnir til að komast í vímu (Inaba og Cohen, 2004).

 

Áfengi hefur þekkt róandi áhrif á heilann og hegðun einstaklinga en getur jafnvel í litlum skömmtum örvað fólk og gert það málglaðara. Áfengi veldur vímu og þeir sem líkar víman auka stöðugt drykkju sína. Þannig hvetur áfengið þá einstaklinga til frekari drykkju og þar með eykst þol þeirra gagnvart áfenginu. Áfengisþol veldur meiri hættu á skemmdum á líffærum, t.d. á heilanum. Þeir einstaklingar sem myndað hafa áfengisþol sýna minni áfengisáhrif en ætla mætti út frá áfengismagninu í blóðinu og fá það sem kallað er hegðunarþol gagnvart áfenginu. Lifrin fer að brjóta áfengið hraðar niður og þannig losar líkaminn sig hraðar við það hjá þeim einstaklingum sem drekka í óhófi. Þolið verður vegna aðlögunar taugafrumna að stöðugu áfengismagni í blóði. Stöðug drykkja veldur breytingum á frumuhimnum og viðbrögðum frumna við boðefnum. Breytingarnar valda ekki einungis því að einstaklingar mynda þol heldur geta þær einnig valdið því að heilinn geti ekki unnið eðlilega nema að hafa áfengi. Ef einstaklingar sem myndað hafa áfengisþol stöðva skyndilega drykkju sína koma fram svokölluð fráhvarfseinkenni. Fráhvörf verða því til þegar heilinn hefur aðlagað sig þrálátu áfengismagni. Heilastarfsemin fer úr jafnvægi í einn til þrjá daga sé drykkju hætt. Ekki má rugla fráhvarfseinkennum saman við eftirköst eftir drykkju eitt kvöld. Eftirköstin verða vegna eituráhrifa áfengis og einkennast af ertingu frá meltingarvegi og höfuðverk. Hins vegar eru fráhvarfseinkenni venjulega óróleiki, skjálfti og ofstarfsemi í sjálfráða taugakerfinu sem kemur meðal annars fram sem hraður hjartsláttur og hár blóðþrýstingur. Til eru alvarlegri fráhvarfseinkenni og má þar nefna krampa og ofskynjanir (Inaba og Cohen, 2004).

Heimildir:

Dodgen, C.E. og Shea, M.W. (2000). Substance use disorders USA: Academic Press, USA 2000.

Inaba, S.D. og Cohen, E.W. (2004). Uppers, downers, all arounders. (5. útgáfa). USA: CNS Publications, Inc.

Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Hvað er alkóhól? Sótt 05.04. 2007 af:
http://saa.is/default.asp?sid_id=9601&tre_rod=001|003|001|&tId=1 


 

bottom of page