top of page

Lifandi ráðgjöf ehf.

Fjölskyldusjúkdómur

Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir

Fagaðilar og fræðimenn sem komið hafa sér saman um að alkóhólismi sé sjúkdómur telja að hann sé fjölskyldusjúkdómur. Það þarf aðeins einn fjölskyldumeðlim sem drekkur ótæpilega til þess að það hafi skaðleg áhrif á aðra í fjölskyldunni (Sölvína Konráðs, 2001).

Foreldrar, maki, börn og systkini verða öll vör við drykkjuskapinn. Í alkóhólískum fjölskyldum ríkir mikil ringulreið og óvissa sem mótast af ástandi þess sem drekkur. Þarfir alkóhólistans og þrár hafa algjöran forgang innan fjölskyldunnar (Óttar Guðmundsson,1992).

Hjá öllum fjölskyldum alkóhólista virðast þrjú boðorð vera í heiðri höfð: ekki tala, ekki treysta, ekki sýna tilfinningar. Þessi boðorð verða til vegna þeirra fordóma sem ríkja í samfélaginu. Þó að margir telji alkóhólisma vera sjúkdóm ríkja enn miklir fordómar. Skömmin og sektarkenndin eru því fastir fylgifiskar þessara fjölskyldna (Sölvína Konráðs, 2001).

Aðstandendur alkóhólista þróa með sér varnarhegðun gegn umhverfinu. Þessi hegðun getur leitt einstaklinga í sjálfskaparvíti því hún elur á tilfinningalegri vanlíðan og sjálfsblekkingu. Það sem einkennir öll samskipti innan og utan fjölskyldunnar er því drykkjan og afleiðing hennar (Sölvína Konráðs,2001).

 

Aðstandendur alkóhólista verða með tímanum jafnveikir og alkóhólistarnir, ef ekki veikari. Alkóhólistar upplifa oftar en ekki aðstandendur sína sem leiðinlega, afskiptasama, freka, uppáþrengjandi, fráhrindandi og ósanngjarna. Þetta er þeirra leið til þess að hafa stjórn á ástandinu. Í fyrstu er verið að réttlæta neysluna með útskýringum, t.d. að neyslan sé vegna streitu, þreytu eða af því dagurinn var svo erfiður. Fjölskyldan afneitar óeðlilegri drykkju og afleiðingum hennar, auk þess sem vanþekking og fordómar fjölskyldu

alkóhólistans eru til staðar. Fjölskyldan skammast sín fyrir alkóhólistann og óttast álit annarra. Þegar fjölskylda alkóhólistans er farin að viðurkenna að drykkjan sé vandamál fer hún að reyna að stjórna honum. Þrýst er á að alkóhólistinn minnki drykkjuna, fara varlegar eða hætti alveg að drekka. Skilningurinn er lítill því makinn er í afneitun á því hvert vandamálið raunverulega er, ergelsi og reiði býr um sig. Alkóhólistinn byrjar að fela drykkjuna og fara á bak við fjölskylduna. Á þessu stigi eru börnin farin að finna streituna og andrúmsloftið er þungt á heimilinu. Eftir því sem á drykkjuferlið líður getur makinn ekki lengur látið sem ekkert sé að, hann hefur áhyggjur af öllu; t.d. getur drykkja makans haft áhrif á fjármál heimilisins (Kinney, 2006).

 

Aðstandendur bregðast við vandræðum alkóhólista og reyna að vernda þá, með því að bæta fyrir og laga það sem aflaga hefur farið og reyna að hafa áhrif á alkóhólistann með því að stjórna. En þessar leiðir og úrræði virka sjaldnast. Jafnframt er fjölskyldan oft á tíðum í því hlutverki að þóknast alkóhólistanum, gera hluti sem taldir eru góðir fyrir hann. Það fer að bera á tjáningarerfiðleikum innan fjölskyldunnar og rifrildi fer vaxandi. Fjölskylda alkóhólistans áttar sig fljótlega á því að ekki þýðir að stjórna honum, stjórnunin mistekst algjörlega. Fjölskyldan fer í vörn gagnvart alkóhólistanum og öðrum í kringum sig og það fer að bera á vaxandi sektarkennd innan hennar. Meðlimir fjölskyldunnar fara að einangra sig og tengsl þeirra við vini og kunningja rofna. Áhugamálum er fórnað vegna drykkju alkóhólistans og fjölskylduboðum fækkar. Þróunin verður til þess að aðstandendur festast í hegðunarmunstri og hlutverki sem verður að teljast sjúklegt og þeir geta einnig brenglast tilfinningalega. Þróun fjölskyldusjúkdómsins byrjar því oftast með því að fjölskyldan afneitar drykkju einstaklingsins og endar á upplausn innan fjölskyldunnar (Kinney, 2006).

Foreldrar unglinga sem eiga við drykkju- og/eða vímuefnavanda að etja telja sig hafa gert mistök í uppeldinu. Algengt er einnig að maki alkóhólista fari að trúa því að hann sé ómögulegur. Einstaklingar innan fjölskyldunnar átta sig á því að þörfum þeirra um öryggi, ást og tilfinningalegt jafnvægi er ekki fullnægt. Fjölskyldan er hlaðin streitu, kvíða og mikilli skömm ásamt sektarkennd og reiði. Vonleysi og örvænting vex og veldur oft hjónaskilnaði og flótta annarra einstaklinga innan fjölskyldunnar (Hjalti Björnsson, SÁÁ. Munnleg heimild, 08. 04. 2007).

Hlutverk barna í drykkjusjúkri fjölskyldu

Börn í alkóhólískum fjölskyldum taka oft að sér þýðingarmikil hlutverk. Viðbrögð barnanna við drykkjusjúkum einstaklingum innan fjölskyldunnar geta verið margvísleg. Sum þeirra verða uppreisnargjörn, önnur draga sig í hlé eða þau taka að sér hlutverk foreldris og annast systkini sín, foreldrið sem ekki er drykkjusjúkt ásamt hinum drykkjusjúka (Óttar Guðmundsson, 1992).

Hlutverkum barna drykkjusjúkra foreldra er gjarnan skipt í fjóra flokka eftir því hvaða einginleikar verða mest ríkjandi hjá þeim:

Týnda barnið: Barnið eyðir miklum tíma einsamalt við ýmislegt hljóðlátt dund. Það er mjög rólegt og fáir taka eftir því. Það fær hvorki jákvæða né neikvæða athygli og þetta er barnið sem ekki þarf að hafa áhyggjur af. Barnið finnur að það leiðir ekki til neinna vandræða ef það er eitt með sjálfu sér og þannig finnst því það vera öruggast. Barnið hefur lært að vera ekki í of nánum tilfinningalegum tengslum við fjölskyldu sína. Einnig hefur það lært að veita þá fölsku tilfinningu að ekkert sé að í fjölskyldunni og að drykkjusýki innan hennar valdi ekki neinum skaða.

Trúðurinn: Barnið hefur geislandi persónuleika og er ávallt skemmtilegt. Barnið kemst því af með því að nota kímnigáfu sína. Barnið kemur fjölskyldu sinni og vinum til að hlæja með hinum ýmsu uppákomum. Barnið er vinsælt meðal vina sinna og það kemst upp með flest í skóla. Kennarar þessara barna sjá oft ekki í gegnum látalætin þar sem þau eru svo skemmtileg og uppátæki þeirra saklaus.

Blóraböggullinn: Barnið fyrirlítur fjölskyldu sína og vill ekki vera hluti af henni. Ástæðan er sú að það lærir snemma að hvorki umbun né athygli fæst í fjölskyldunni hvort heldur sem hegðun þess er rétt eða röng. Það sækist eftir neikvæðri athygli og er því oft til vandræða, til dæmis í leikskóla og skóla. Barnið lítur jafnvel á vinina sem fjölskyldu sína því þeir eru mun mikilvægari fyrir það en fjölskyldan og tekur að sér það hlutverk að beina athyglinni að hinum drykkjusjúka. Þetta barn er líklegt til að verða áfengi og öðrum vímuefnum að bráð.

Hetjan: Barnið tekur að sér alla ábyrgð á heimilinu og er sjálfu sér meðvitað um það sem er að gerast. Það reynir öllum stundum að bæta ástandið og láta öðrum líða vel. Barnið skynjar sífellt ófullkomnun og mistök og bætir það upp með því að verða mest áberandi, ábyrgðarfullt og duglegt. Það er þægt og kurteist og gengur iðulega vel í skóla. Það velur sér áhugamál sem gerir miklar kröfur til þess og það stendur sig ávallt vel. Barnið er eini einstaklingurinn í fjölskyldunni sem veitir henni einhverja sjálfsvirðingu. Mörg börn alkóhólista hafa einhver einkenni úr þessum flokkum. Vert er að hafa í huga að fleira en eitt af þessum einkennum getur átt við sama barnið. Oft lenda börnin í þeirri aðstöðu að leika sama hlutverk allt sitt líf (Sölvína Konráðs, 2001).

Heimildir:

Kinney, J. (2006). Loosening the grip. (8. útgáfa). New York: McGraw-Hill.

Óttar Guðmundsson. (1992). Tíminn og tárið: Íslendingar og áfengi í 1100 ár. Reykjavík: Forlagið

Sölvína Konráðs. (2001). Börn alkóhólista. Í Árni Einarsson og Guðni R. Björnsson (Ritstj.), Fíkniefni og forvarnir (bls. 105 - 112). Reykjavík: Fræðslumiðstöð í fíknivörnum

bottom of page