top of page
Search

Meðvirkni og óæskilegur stuðningur.

  • Jóna Margrét Ólafsdóttir
  • Oct 28, 2015
  • 1 min read

Óæskilegur stuðningur er þegar einstaklingur styður við óæskilega hegðun þess veika t.d. með því að styðja við vímuefnaneyslu. Birtingarmyndir eru margar svo sem að kaupa áfengi fyrir viðkomandi eða drekka áfengi með þeim sjúka eða jafnvel að borga vímuefnaskuldir og segja ósatt fyrir viðkomandi t.d. gagnvart fjölskyldu og vinnuveitanda. Þar með er verið að gera þeim veika kleift að vera í neyslu vímuefna án þess að þurfa að bera ábyrgð á hegðun sinni. Viðkomandi gerir sér ekki grein fyrir að hann er í raun að gera rangt, hugsunin er að hjálpa þeim veika vegna væntumþykju eða góðmennsku og hann áttar sig ekki á óeðlilegri hegðun sinni. Streita er alltaf undanfari meðvikni. Það sem gerir það að verkum að einstaklingur þróar með sér meðvirkni er að viðkomandi upplifir að búa við það að öryggi sínu er ógnað: andlega, líkamlega og/eða félagslega. Sem dæmi um þetta er t.d. einstaklingur sem á vímuefnasjúkan maka eða stríðir við aðra virka geðsjúkdóma svo sem þunglyndi eða kvíða. Veikindi viðkomandi geta stuðlað að því að grunnþörfinni „öryggi“ er ógnað og stundum fylgir andlegt og líkamlegt ofbeldi með innan fjölskyldunnar. Hér er meðal annars átt við fjárhagslegt öryggi sem er undirstaða þess að einstaklingar/fjölskyldur hafi þak yfir höfuðið, mat að borða og geti greitt skuldir því miklar líkur eru á því að sá veiki missi úr vinnu eða missi vinnu þegar veikindin eru virk. Andlegt og líkamlegt öryggi og heilsa fylgir hér með. Það er þessi þörf og líðan sem rekur aðstandendur inn í vanlíðunina og óeðlilega hegðun, sem er svo aftur samkvæmt fræðunum er „eðlileg hegðun í óeðlilegum aðstæðum“.


 
 
 

Comments


bottom of page