Saga vímuefnameðferðar og fjölskyldu stuðnings fyrir vímuefnasjúkar fjölskyldur á Íslandi
Minnesota líkanið sem lagði grunn að nýrri meðferðarnálgun með vímuefnasjúka á Íslandi.
Minnesota Líkanið
Saga áfengis- og vímuefnameðferðar er oft kennd við Minnesota líkanið sem markaði tímamót í meðferðarvinnu með vímuefnasjúka. Þetta líkan breytti hugmyndafræði meðferðarvinnunnar á þann hátt að aðstoð við einstaklinga sem áttu við vímuefnavanda að stríða breyttist í fagleg vinnubrögð gagnvart einstaklingunum þar sem þeir héldu reisn sinni og virðingu á meðan að á meðferð stóð. Áður hafði aðstoð við vímuefnasjúka verið fólgin í að sjúklingarnir voru settir saman í skjólshús, oft á vegum kristilegra félaga fyrir veika einstaklinga þar sem lítil sem engin von var um bata og bætt lífsgæði (White, 1998; Hazelden , e.d.).
Seint á nítjándu öld var mikill drykkjuvandi í Minnesota líkt og í öðrum fylkjum Bandaríkjanna. Á árinu 1873 sendi Dr. Charles Hewitt fylkisstjóra Minnesota eftirfarandi erindi sem hann kallaði: „The Duty of the State in the Care and Cure of Inebriates“. (bls. 199). Innihald erindisins var á eftirfarandi hátt, drykkjuskapur er sjúkdómur sem krefst þess að vera meðhöndlaður líkt og aðrir sjúkdómar. Hægt er að lækna sjúkdóminn ef hann er meðhöndlaður á eðlilegan hátt og það væri skylda fylkisins að huga að þessum hópi sjúklinga jafnvel meira enn annarra sjúklinga þar sem áfengi væri leyfilegt og samofið menningu samfélagsins. Þessi skýrsla hafði þau áhrif að það spruttu upp mörg drykkjuhæli fyrir alkóhólista og sett voru lög um að öldurhús sem seldu áfengi borguðu sérstakan skatt sem rann til reksturs meðferðarheimila drykkjumanna.
Árið 1907 beindu yfirvöld Minnesota enn á ný sjónum sínum að drykkjuvanda áfengissjúkra þegar sett voru lög um tvö prósent skatt á öll vínveitingarleyfi sem rann beint til reksturs meðferðarheimila áfengissjúkra. Eitt af sjúkrahúsum Minnesota, Willmar State Hospital hélt úti meðferð og innheimt skattinn þar til kom að áfengisbanninu, þá missti sjúkrahúsið ákveðið fjármagn enn hélt þó meðferðinni áfram. Í meðferðinni snérist lækningin fyrstu árin aðallega um líkamlega lækningu svo sem með því að beita svokallaðri vatnsmeðferð og rafslosti. Á árunum 1920 til 1950 verða með aukinni þekkingu á sálfræði, áherslubreytingar í meðferðinni og farið er að sinna sjúklingum einnig með sálfræðinálgunum. Þessa breytingu má einnig rekja til aukinnar útbreiðslu AA samtakanna í Bandaríkjunum og í kjölfarið sjónum beint að andlegri líðan drykkjumanna (White, 1998).
Minnesota líkanið var einnig þekkt sem bindindis líkan, meðferð fyrir áfengissjúka á geðsjúkrahúsi sem stofnað var um 1949 - 1950. Tveir ungir menn voru hugmyndasmiðir þessa líkans annar var sálfræðingur og hinn geðlæknismenntaður, hvorugur þeirra hafði reynslu af að meðhöndla áfengissjúka. Hugmyndafræðin eða Minnesota líkanið festi fyrst rætur sínar með grasrótarsamtökum sem setti á stofn meðferðarheimilið sem síðar kom mikið við sögu heitir Hazelden. Fljótlega dreifðist hugmyndafræði Minnesota líkansins út um öll Bandaríkin. Lykil nálgun þessarar hugmyndarfræði var að blanda saman fagfólki og þjónustu einstaklinga sem höfðu tileinkað sér hugmyndafræði AA (e. Alcoholics Anonymous). Þarna var þá þegar um að ræða einstaklingsmiðaða meðferð fyrir áfengissjúka þar sem fjölskyldan var einnig tekin með inn í meðferðina og varð partur af bata þess áfengissjúka (Andersona, McGovernb og Dupontc, 1999). Í næsta kafla verður fjallað um forsöguna á bak við AA samtökin og upphaf þeirra.
Upphaf AA samtakanna (e. Alcoholics Anonymous)
Upphaf AA samtakana í Bandaríkjunum má rekja til samtaka í Oxford sem höfðu kristileg gildi að leiðarljósi og var kallaður Oxford hópurinn. Þessi hópur hafði mikil áhrif snemma á 20 öldinni bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, boðskapur Oxford hópsins var sjálfsskoðun og viðurkenning á því sem miður hafði farið í lífi einstaklingsins. Áhersla var lögð á að gera yfirbót, bænagjörðir og bera boðskapinn út til fleiri einstaklinga (Alcoholics Anonymous, e.d.).
Snemma árs 1930 leitaði Rowland Hazard bankaeigandi í Vermont, til Zurich í Swiss til meðferðar hjá geðlækninum dr. Carl Gustaf Jung vegna áfengisneyslu sinnar á Towns Hospital. Rowland var í meðferð hjá dr.Jung í um það bil eitt ár. Hann var búin að reyna allt til þess að ná stjórn á drykkju sinni Dr. Jung stóð var framsýnn innan sinnar greinar og hugmyndir hans og rannsóknir á mannshuganum höfðu mikil áhrif og hafa enn í dag. Fljótlega eftir að Rowland snéri aftur heim var hann farinn að drekka aftur. Rowland fór því aftur á fund dr.Jungs og ráðfærði sig við hann. Þegar hann spurði dr.Jung hvort nokkur leið væri til að ná tökum á drykkjunni tjáði Dr.Jung honum að hann væri með hugsun krónísks alkóhólista og að hann ætti sér enga von nema að verða fyrir andlegri reynslu sem hefði í för með sér róttækar hugarfarslegar breytingar. Leit Rowlands að andlegri vakningu leiddi hann á fund Oxford hreyfingarinnar í Englandi og þaðan í miðstöð Oxford hreyfingarinnar í Bandaríkjunum Calvary Episcopal Church in New York þegar Rowland er komin þangað er hann orðin virkur meðlimur Oxford hreyfingarinnar (Pittman, 1988; White, 1998).
Í Oxford hreyfingunni kynnist Rowland, Ebby Thatcher hann hafði verið fjárhagslega vel stæður en árið 1934 blasti við algert hrun sem bæði mátti rekja til fjármálakreppu í Bandaríkjunum sem og drykkju hans. Rowland og fleiri úr Oxford hópnum fréttu af Ebby fóru til hans þar sem hann var niðurbrotin af drykkju og fjárhagslegum áhyggjum og sögðu honum frá Oxford hópnum og hvernig þeir hefðu náð því að vera án áfengis og náð bata. Ebby leitaði hjálpar vegna vanda síns hjá þeim stuttu seinna og dvaldi á heimili eins meðlima Calvary – safnaðarins og fljótlega fór Ebby að starfa í söfnuðinum við að aðstoða aðra, samhliða því að honum var hjálpað. Ebby hafði verið ódrukkin í nokkra mánuði þegar hann fréttir að vinur hans og skólabróðir Bill Wilson væri í vanda vegna drykkju sinnar. Þetta var árið 1934. Ebby fer á fund við Bill og fræðir hann um sama boðskap og Dr. Jung hafði fært Rowland fjórum árum áður. Bill var ekki sáttur við trúarlega boðskapinn svo Ebby kom þá með þá hugmynd að Bill reyndi að trúa á Guð samkvæmt hans eigin skilning á Guði. Á þeirri stundu breyttist boðskapur Oxford hreyfingarinnar úr trúarlegri reynslu í andlega upplifun og reynslu (Pittman, 1988; Mitchell, 2003).
Eftir þetta gekk Bill ekki vel, hvorki í einkalífi, fjármálum né að halda niðri drykkju sinni og í mikilli vanlíðan hrópar hann á Guð, að ef hann sé til þá vilji hann að Guð gefi honum vísbendingu um að hann væri til. Í þessari líðan verður Bill fyrir andlegri vakningu, fyllist auðmýkt í kjölfarið og viðhorf hans og hugsun breytast. Segja má að þessi reynsla Bill sé hið raunverulega upphaf hugmynda sem verður svo kveikjan að AA samtökunum (Pittman, 1988; Mitchell, 2003). Leiðir Bill Wilson og Dr. Robert Holbrook Smith sem kallaður var Dr. Bob Smith lágu saman í maí 1935 í kjölfar erfiðleika sem Bill verður fyrir. Þessa erfiðleika á starfsvettvangi upplifir hann að ógni bindindi hans og bata og vill því komast í samband við óvirka alkóhólista. Með aðstoð fólks innan Oxford hreyfingarinnar kemst hann í samband við Dr. Bob og dvelur á heimili hans og konu í um það bil þrjá mánuði. Dr. Bob drakk og átti við vanda að stríða. Þeir Bill og Dr. Bob ræddu langtímum saman um áfengissýki. Dr. Bob drakk í síðasta sinn þann 10. júní 1935 eftir að hann hafði farið á nokkurra daga drykkjutúr sem hafði það í för með sér að hann missti af læknaþingi sem hann hafði mætt á í 20 ár. Síðan hefur verið litið svo á að 10. júní 1935 sé nokkurs konar upphafsdagur AA samtakanna stofnað í bænum Akron í fylki Ohio í Bandaríkjunum (AA, 2005).
Oxford hreyfingin heldur áfram að vera starfandi fram til 1937 enn upp frá því fara alkóhólistar að færa sig yfir í fundarsókn hjá AA samtökunum og starfa eftir hugmyndafræði þeirra, það er að segja samkvæmt 12 sporakerfi AA samtakana og erfðavenjum. Árið 1937 var byrjað á að skrifa AA bókina (e. The big book) bókin var gefin út 1939 og var AA samtökunum gefið nafnið í kjölfar þeirrar útgáfu, Alcoholics Anonymous eða AA samtökin (Mitchell, 2003).
Í AA bókinni er fjallað um reynslusögur alkóhólista sem og upplifun einginkvenna alkóhólista ásamt leiðbeiningum um hvernig hægt er að auðga líf sitt og lifa án áfengis. Einnig er fjallað um 12 erfðavenjur AA samtakana og 12 spora kerfið sem er eftirfarandi:
12 spor AA samtakanna
1. Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart áfengi og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi.
2. Við fórum að trúa að máttur okkur æðri gæti gert okkur andlega heilbrigð að nýju.
3. Við tókum þá ákvörðun að fela líf okkar og vilja umsjá Guðs,samkvæmt skilningi okkar á honum.
4. Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.
5. Við játuðum misgjörðir okkar fyrir Guði,sjálfum okkur og annarri manneskju og nákvæmlega hvað í þeim fólst.
6. Við vorum þess albúin að láta Guð fjarlægja alla skapgerðarbrestina.
7. Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.
8. Við skráðum misgjörðir okkar gagnvart náunganum og urðum fús til að bæta fyrir þær.
9. Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særði engan.
10. Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar útaf bar viðurkenndum yfirsjónir okkar umsvifalaust.
11. Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.
12. Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum alkóhólistum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi (AA – bókin, 2005, bls. 272).
12 erfðavenjur AA samtakanna
1. Sameiginleg velferð okkar situr í fyrirrúmi. Bati hvers og eins er undir einingu AA-samtakanna kominn.
2. Í málum deilda er aðeins einn leiðtogi, kærleiksríkur Guð eins og hann birtist í samvisku hvers hóps. Forsvarsmenn okkar eru þjónar sem við treystum en ekki stjórnendur.
3. Til þess að gerast AA-félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka.
4. Sérhver AA-deild á að vera sjálfstæð nema í málum er varða aðrar deildir eða AA-samtökin í heild.
5. Sérhver deild hefur aðeins eitt meginmarkmið: Að flytja alkóhólistum sem enn þjást boðskap samtakanna.
6. AA-deild ætti aldrei að ljá öðrum samtökum eða málstað nafn sitt, fjármagn eða fylgi svo lausafé, eignir eða upphefð fjarlægi okkur ekki upphaflegum tilgangi.
7. Sérhver AA-deild ætti að standa á eigin fótum og hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð.
8. Félagar í AA-samtökunum eru ætíð einungis áhugamenn, en þjónustustöðvar okkar mega ráða launað starfsfólk.
9. AA-samtökin sem slík ætti aldrei að skipuleggja en við getum myndað þjónustunefndir og ráð sem eru ábyrg gagnvart þeim sem þau starfa fyrir.
10. AA-samtökin taka ekki afstöðu til annarra mála en sinna eigin. Nafni þeirra ætti því að halda utan við deilur og dægurþras.
11. Afstaða okkar út á við byggist fyrst og fremst á aðlöðun en ekki áróðri. Í fjölmiðlun ættum við alltaf að gæta nafnleyndar.
12. Nafnleyndin er andlegur grundvöllur allra erfðavenja okkar og minnir okkur á að setja málefni og markmið ofar eigin hag (AA-bókin, 2005, bls. 275).
Með tilkomu AA og reynslusporanna má segja að í fyrsta sinn sé kominn fram heilstæð áætlun fyrir alkóhólista til að ná bata. Sjálfshjálparhópar AA, Al-anon og Alateen teljast til líknarfélaga og annarra hjálparstarfa samkvæmt ÍSAT. íslenskri atvinnugreinaflokkun (Steinunn Hrafnsdóttir, 2008). Al-anon fjölskyldudeildirnar eru félagsskapur karla, kvenna og unglinga sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju ættingja eða vinar. Al-anon leiðin er sjálfshjálparaðferð byggð á tólf reynslusporum AA-samtakanna. Hægt er að öðlast skilning og að fá styrk með því að hlusta og deila reynslu sinni á Al-anon fundum auk þess að nýta þér lesefni Al-anon samtakanna. Al-anon og Alateen leiðin byggir á þremur arfleifðum samtakanna þær leggja grunn að andlegum grunni bæði félaga og deilda. Með því að félagar tileinki sér þessar meginreglur í leik og starfi er hægt að auka sjálfstraust, breyta viðhorfi og einstaklingar geta litið á aðstæður sínar frá öðru sjónarhorni (Al-anon, e.d.).
Í margar aldir var Ísland einangrað samfélag. Viðhorf og gildi í Íslenskri menningu breyttust hægt og þjóðerniskennd Íslendinga varð rótgróin þar íslendingar litu snemma á sig sem sjálfstæða þjóð. Á Íslandi hefur verið ríkjandi skammar viðhorf sem leiðir svo til sektarkenndar hjá þeim sem falla ekki inn í hópinn ef miðað er við það félagslega norm sem ríkjandi er í samfélaginu. Skömm sem nýtt er sem tæki til þess að hafa félagslegt taumhald á fólki er einnig háð því að sektarkennd sé einnig til staðar. Skömm er viðbragð meðal annars við annarra manna áliti og vanþóknun á hegðun einstaklinga sem og eigið álit á hegðun og atferli annarra. AA (e. Alcoholics Anonymous) hefur verið flokkað líkt og meðferð við skömm, það má þó deila um það, þar sem AA virðist búa yfir tækni til þess að vinna einnig með sektarkennd (Hildigunnur Ólafsdóttir, 2000).
Stofnfundur AA - samtakanna á Íslandi var haldinn föstudaginn 16. apríl 1954. Á áttunda áratugnum varð mikill vöxtur í AA - samtökunum á Íslandi það kom í kjölfar þess er Íslendingar fóru að leita sér hjálpar við alkóhólisma hjá Freeport sjúkrahúsinu í Bandaríkjunum. Margir einstaklingar sem sóttu sér meðferðar til Bandaríkjanna stofnuðu AA deildir þegar þeir komu heim (AA, e.d.).
Umræða hefur ávalt verið um að Íslendingar hafi opin huga gagnvart nýjungum, sérstaklega á síðastliðnum áratugum og því hafi AA leiðin fljótlega fest rætur hér á Íslandi. Fjölskyldur á Íslandi sýna styrk sinn á þann hátt að fjölskyldan uppfyllir þörf einstaklingsins fyrir hvatningu og tilfinningalegan stuðning. Þannig getur fjölskyldan dregið úr þeirri þörf fyrir einstaklinginn að vera í og stunda AA fundi. Einnig getur þessu líka verið alveg öfugt farið þar sem afleiðingar drykkjunnar geta verið svo alvarlegar fyrir fjölskyldulífið að það hafi skaðast alvarlega og tengsl rofnað með þeim afleiðingum að í fjölskyldunni er í litla hjálp að fá fyrir þann áfengissjúka. Stuðningsnet fjölskyldunnar og stuðningsnet AA geta ekki eingöngu valdið togstreitu heldur einnig vegið upp hvort annað (Hildigunnur Ólafsdóttir, 2000).
Þegar fjallað er um AA er það á þann hátt að AA sé sjálfshjálparhópur, það er í raun ekki rétt því enginn alkóhólisti getur hjálpað sér sjálfur. Einstaklingar í AA vilja að þetta séu kölluð samhjálparhópar/samtök. Rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna að AA virkar vel og getur hjálpað. Upplýsingar um þessar rannsóknir er að finna í bókinni Treatment Matching in Alcoholism (2003). Í þeirri bók er meðal annars reynt að varpa ljósi á hvort áfengissýki sé læknanlegur sjúkdómur, hvort ein meðferð henti betur en önnur og hvort einnig er leitað svar við hvort AA sé besta leiðin til bata.
Gagnrýnisraddir hafa komið fram um AA samtökin, til dæmis eru lagðar fram spurningar um fyrir hvað stendur AA? Einnig hefur eftirfarandi spurningu verið velt upp: Er AA leið til bata fyrir einstaklinga eða er hægt að lýta á þetta sem einhverskonar reglu þar sem fram kemur dýrkunn á Guði eða einstaka persónum?
Í bókinni Treatment Matching in Alcoholism (2003) kemur það fram að því lengri sem áfengismeðferð stendur og eftirfylgni af fagaðilum á sér stað, þeim mun meiri verður batinn og einnig að AA fundir séu það besta sem hægt er að mæla með að lokinni meðferð (Babor og Del Boca, 2003; Bufe, 1998) Fjallað verður um í næsta kafla Hazelden og Freeport sem byggðu meðferðarhugmyndafræði sína á Minnesoda líkaninu og AA nálguninni.
Meðferðarstofnanir í Bandaríkjunum: Hazelden og Freeport
Meðan að lítið gerðist eða miðaði í áfengis- og vímuefnamálum á Íslandi sem og í öðrum Evrópulöndum voru Bandaríkin að ná árangri í þróun meðferðar og meðhöndlunar um áfengis- og vímuefnasýki (Sæmundur Guðvinsson, 1997).
Árið 1949 í sögu áfengismeðferðar í Bandaríkjunum er merkilegt fyrir það að þá er meðferðarstöðin Hazelden stofnuð eins og fjallað hefur verið um hér á undan (Andersona, McGovernb og Dupontc, 1999). Í byrjun var þetta gistiheimili fyrir virka vímuefnaneytendur sem þróaðist yfir í að verða meðferð fyrir vímuefnasjúka í líkingu við Minnesota líkanið. Það sem var mest áríðandi við þessa sögulegu nýung í meðferðarmálum áfengissjúkra var að það gaf einstaklingum möguleika á að fara í meðferð í stað fangelsis, á geðsjúkrahús eða að vera heimilislausir á götunni (Hazelden, e.d.). Minnesota líkanið boðaði félagslegar umbætur í meðferð alkóhólista með nýrri stefnu í meðferðarmálum. Líkanið spilaði stórt hlutverk í að breyta meðferðaraðferðum úr því að meðhöndla áfengissjúka sem vonlausa einstaklinga sem fengu litla sem enga meðferð. Meðferð sem einkenndist af skilningsleysi meðferðaraðila á að áfengissýki var ekki aumingjaskapur og afleiðing af einhverju öðru svo sem öðrum geðsjúkdómum. Alkóhólistar fengu samkvæmt Minnesota líkaninu meðferð við fíkn sinni og alkóhólisma sem álitin var þarna sértækur sjúkdómur ásamt áherslu á að einstaklingarnir héldu reisn sinni og virðingu (Hazelden, e.d.).
Ein af Bandarísku meðferðarstöðunum sem vinsæl var á meðal Íslendinga á árunum 1975 til 1978 var Freeport Hospital í New York fylki (SÁÁ, e.d.). Ástæðan fyrir því að menn fóru í meðferð til Freeport var sú að það skapaðist náið samstarf milli aðila í meðferðarmálum á Íslandi og Freeport. Meðal annars voru þeir Jóhannes Bergsveinsson yfirlæknir áfengis- og vímuefnadeildar Landspítalands og dr. Frans Herzline og synir hans sem áttu Freeport Hospital í góðu sambandi varðandi hugmyndafræði og vinnu með áfengissjúka. Þetta gerðist fyrir stofnun SÁÁ og í gegnum íslenska konu sem bjó í New York að nafni Anna Guðmundsdóttir (Ingólfur Margeirsson, 1994). Eftir 1978 fækkaði þessum ferðum Íslendinga á Freeport Hospital einnig ferða þeirra einstaklinga sem fóru til meðferðar á Hazelden. Upp úr 1984 lögðust þessar ferðir Íslendinga vegna vímuefnasýki til Bandaríkjanna nánast af. Ástæðan fyrir þessum ferðum var að ekki var til viðeigandi meðferð hér á íslandi enn þeir einstaklingar sem fóru utan og náðu bata komu heim með þekkingu sem verður svo undirstaða í uppbyggingu meðferðar úrræða Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda (SÁÁ).
Meðferðin á Freeport Hospital var byggð upp á eftirfarandi hátt: Í fyrstu var tveggja vikna meðferð inn á sjúkrahúsi þar sem fram fór afeitrun og í framhaldi af því var fjögurra vikna meðferð í Connnecticut sem hét Veritas Villa og starfaði í skjóli kaþólsku kirkjunnar (SÁÁ, e.d.). Upphaf meðferðar fyrir vímuefnasjúka og aðstandendur þerra á íslandi var byggð á þekkingu sem kom með þeim einstaklingum sem sótt höfðu meðferð til Bandaríkjanna. Fjallað verður um í næsta kafla uppbyggingu meðferða á Íslandi.
Upphaf meðferðar fyrir vímuefnasjúka á Íslandi og fjölskyldu stuðnings.
Árið 1935 var samþykkt þingsályktunartillaga um að ríkisstjórnin myndi undirbúa stofnun drykkjumannahælis, ekkert varð þó úr tillögunni fyrr enn 1937 þegar bindindisþing á Þingvöllum samþykkti áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar að standa við þingsályktunina frá 1935.
Stórstúka Íslands stóð fyrir fjársöfnun og safnaði 30 þúsund krónum, bæjarstjórn Reykjavíkur og ríkisstjórnin lögðu fram sama pening svo úr varð að hægt var að leigja jörð í Stokkseyrarhreppi, Kumbaravog árið 1942 og byggja þar upp meðferðarheimili. Pláss þar voru fyrir tólf til fimmtán manns, fjármunir dugðu skammt enn lög sem sett höfðu verið 1936 um meðgjöf með einstaklingum sem voru á sjúkrahúsum var látin ganga til meðferðar á Kumbaravogi.
Fyrstu lög um drykkjumannahæli voru sett á Alþingi 1943 og var það sett inní lögin að yfirstjórn þess væri ráðherra sem færi með heilbrigðismál. Kumbaravogur þótti ekki heppilegur staður fyrir meðferð og var honum því lokað árið 1944 og starfsemin flutt að Kaldaðarnesi enn starfsemin þar var lokað 1947 enn þá hafði starfsemin verið lögð niður og staðurinn tæmst af vistmönnum (Sæmundur Guðvinsson,1997).
Eftir að hælinu á Kaldaðarnesi var lokað var tekin sú ákvörðun að áfengisvarnefnd Reykjavíkur mundi stofnsetja leiðbeiningastöð og göngudeild fyrir áfengissjúka. Árið 1949 voru sett lög um að geðveikraspítalinn á Kleppi yrði falið að annast meðferð á öllum áfengissjúkum einstaklingum. Á þessum tíma var Kleppspítali yfirfullur af sjúklingum með geðsjúkdóma og var því fljótlega opnað meðferðarhæli á Flókagötu, þangað fór fólk eftir vist á Kleppi til endurhæfingar. Bláa Bandið var stofnað og í kjölfarið tekin í notkun meðferðardeild á Víðinei á Kjalarnesi fyrir langt gengna alkóhólista, drykkjumannahæli að Gunnarsholti var einnig opnað. Það var meðal annars opnað í samráði við AA menn sem sama ár 1949 stofnuðu AA samtökin á Íslandi. Lög voru sett 1949 á Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að ákveðin prósenta af innkomu mundi renna í sjóð til uppbyggingar áfengisvarna og drykkjumannahæla (Sæmundur Guðvinsson,1997). Þessi nálgun um fjáröflun meðferðar vímuefnasjúkra er í líkingu við Minnesota Líkanið eins og fjallað hefur verið um hér að ofan.
Hugmyndir af faglegri fjölskylduvinnu á Íslandi á upphaf sitt í tengslum við mæður og börn tengt heilsuverndarstöð geðverndardeildar barna. Frumkvöðlar að þeirri vinnu voru meðal annars Sigurjón Björnsson sálfræðingur og Margrét Margeirsdóttir félagsráðgjafi. Árið 1967 hefur Margrét svo störf við geðdeild Landspítalans og 1972 tekur Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi við hennar stafi þá ný komin að utan úr mastersnámi í fjölskyldumeðferð. Markmið þeirra sem störfuðu á Kleppi var að vera með fjölskyldumeðferð en starfið var fólgið í að hitta alla sjúklinga og einnig fjölskyldur þeirra. Áttundi og níundi áratugurinn var blómaskeið fjölskyldumeðferðar fyrir margra hluta sakir. Með faglegri nálgun fjölskyldumeðferða var að hætta að einblína á sjúklinginn og farið að vinna einnig með fjölskyldur. Áherslubreytingar verða einnig á þessum árum á þann hátt að hætt var að leita að sökudólgum eða að reyna að finna orsök og afleiðingar. Þess í stað var leitað hlutleysis og einstaklingurinn fékk notið sýn.
Markmiðið með fjölskyldumeðferðinni var að hitta fjölskyldurnar skoða tengslin og styrkleika innan hennar. Það varð að leita lausna til dæmis ef eitthvað var að innan fjölskyldunnar þá var ekki heppilegt fyrir sjúklinginn sem innlagður var vegna geðveiki sinnar að koma aftur heim í sjúkt mynstur fjölskyldunnar. Önnur nýmæli í fjölskyldumeðferð þá voru meðal annars að líta á hvern og einn innan fjölskyldunnar sem einstakling ekki eingöngu sem eina heild, spyrja um enn ekki beint og beita hlutleysisnálgun. Markmiðið var að hjálpa öllum að auka lífsgæði sín á sinn hátt ef það var til dæmis að hjálpa fólki að skilja þá var unnið í því máli svo allir færu í gegnum það með virðingu. Mikill misskilningur var um það að fjölskyldumeðferð gengi aðallega út frá því að halda fjölskyldum saman, leitast var við að lagfæra tengsl og munstur í fjölskyldum ekki breyta fólki (Sigrún Júlíusdóttir prófessor munnleg heimild, 30. september 2010).
Að sögn Sigrúnar Júlíusdóttur var unnið með geðveika og vímuefnasjúka af mikilli mannúð á Kleppi, hætt var að draga fólk í dilka eftir sjúkdómsgreiningum. Þó höfðu vímuefnasjúkir alltaf ákveða sérstöðu. Ekki var notast við á þessum tíma raflosts meðferðir eða spennitreyjur, en ef einhver fékk geðsýkikast eða var í titurvillu (e. delirium tremens) var sá einstaklingur settur í einangrun og með vakt yfir sér. Fagaðilarnir sem störfuðu að fjölskyldumeðferðinni á Kleppi eða Landspítalanum áttu einnig að sinna áfengissjúkum og hitta fjölskyldur þeirra. Þeir einstaklingar sem komu á Klepp voru á deild 10, þetta voru yfirleitt fullorðnir og langt gengnir alkóhólistar sem oft voru búnir að missa sín nánustu fjölskyldutengsl á þessum árum.
Samtals voru það 650 einstaklingar sem sóttu meðferð til Bandaríkjanna þar á meðal voru það þrír menn sem bæði höfðu farið á Freeport og Veritas Villa. Þessir menn voru Hilmar Helgason, Hendrik Berndsen (betur þekktur sem Binni) og Eward Berndsen (betur þekktur sem Lilli. Hilmar og Binni voru þekktir sem verslunarmenn enn Lilli var álitin götunarmaður en nær að verða edrú þegar hann fer utan í áfengismeðferð Sæmundur Guðvinsson,1997). Þessir menn voru meðal annarra stofnendur Freeports klúbbsins en sá klúbbur var stofnaður árið 1976, markmið klúbbsins var að veita þekkingu sem þeir höfðu aflað sér í ferðum sínum til Freeport sem og að flytja inn erlenda fyrirlesara meðal annars Joseph Pirro sem var félagsráðgjafi og naut mikillar virðingar meðal þeirra sem farið höfðu til Freeport.. Þessi klúbbur veitti mikinn innblástur í AA samtökin hér á landi (Eiríkur G. Ragnarsson félagsráðgjafi munnleg heimild, 21. september 2010; AA, e.d.)
Stofnun Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) var árið 1977, í undirbúningsnefnd félagasamtakana sátu: Hilmar Helgason, Valur Júlíusson, læknir sem síðar varð fyrsti forstöðulæknir SÁÁ, Eyjólfur Jónsson skrifstofustjóri, Eggert G. Þorsteinsson alþingismaður, Pétur Sigurðsson alþingismaður og Lilli Berndsen. Leitað var til fleiri aðila í þjóðlífinu svo sem Guðmundar J. Guðmundssonar verkalýðsleiðtoga, Björgólfs Guðmundssonar viðskipamanns og Binna Berndsen viðskiptamanns. Þessi öflugi hópur ásamt fleira fólki tókst að boða til stofnfundar Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnamála (SÁÁ) þann 1. október 1977 í Háskólabíói og talið var að um 900 manns hafi mætt á stofnfundinn. Eftir formlegan fund og kosningu í stjórn félagsins var Hilmar Helgason kosinn formaður SÁÁ og lagt var af stað við að skipuleggja framkvæmdir. Á fyrsta fundi nýkjörnar stjórnar félagasamtakanna voru eftirfarandi fjögur mál tekin fyrir: Stofnun afvötnunarstöðvar, opnun skrifstofu fyrir SÁÁ, félagatal og félagsgjöld sem og útgáfa fréttablaðs sem einnig yrði fjáröflun (Sæmundur Guðvinsson,1997).
Meðferðarstaðir SÁÁ frá byrjun eða 1977 eru eftirfarandi: 1977 er stofnað Reykjadalur þar sem fór fram afeitrun og sjúklingar sendir í framhaldi af því til Bandakíkjanna í eftirmeðferð. Sogn opnar 1978 og þá er hætt að senda sjúklinga erlendis í meðferð og farið er að sinna bæði afeitrun og eftirmeðferð hér á Íslandi. Árið 1984 er sjúkrahúsið Vogur tekið í notkun þar fór fram afeitrun og sjúklingar sendir áfram á Sogn í eftirmeðferð, 1980 opnar svo Staðarfell í Dölum og þá eru tvö eftirmeðferðar heimili til staðar fyrir sjúklinga að fara á. Sogni er lokað árið 1991 þegar eftirmeðferðarheimilið Vik á Kjalarnesi er opnað (Sæmundur Guðvinsson,1997).
Önnur starfsemi var sú að árið 1977 er opnuð göngudeild SÁÁ sem var staðsett í Lágmúla 7. SÁÁ leitaði til Reykjavíkurborgar með það hvernig hægt væri að reka ráðgjafadeild um áfengis- og vímuefnamál í Reykjavík. Á vegum Reykjavíkurborgar hafði verið um árabil starfrækt innan Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkurborgar deild sem bar nafnið Áfengisvarnardeild heilsuverndarstöðvar Reykjavíkurborgar. Starfsemi þessarar deildar var að veita sálfræði viðtöl vegna vímuefnamála enn þá var þar starfandi Kristinn Björnsson sálfræðingur og Eiríkur G. Ragnarsson síðar félagsráðgjafi ásamt fleirum, starfsemi þessarar deildar hafði þá á þessu tímabili árið 1977 verið að lognast út af. Ákveðið var í samráði við Reykjavíkurborg og þáverandi borgarlæknir Skúla Johnsen að sameina Áfengisvarnardeild heilsuverndarstöðvar Reykjavíkurborgar og göngudeild SÁÁ í Lágmúla 7. Í greinagerð frá Heilbrigðisráði Reykjavíkur segir að Reykjavíkurborg geti tekið þátt í slíku samstarfi og yrðu þeir einkaaðilar sem myndu starfa með Reykjavíkurborg að takast á við sömu skyldur og þær sem myndu hvíla á Reykjavíkurborg. Slík samvinna yrði með sama kostnaði og segir í lögum um heilbrigðisþjónustu og vera á ábyrgð Reykjavíkurborgar líkt og veitt væri á heilsugæslustöð (Eiríkur G. Ragnarsson félagsráðgjafi munnleg heimild, 21. september 2010; Heilbrigðisráð Reykjavíkur, 1984).
Starfsemi göngudeildarinnar skiptist á eftirfarandi hátt, ráðgjafar SÁÁ sáu um að taka viðtöl við vímuefnasjúka og beina þeim inn í meðferð og starfsfólk Áfengisvarnardeildar heilsuverndarstöðvarinnar kallaði inn aðstandendur á kynningarfund eða til viðtals og í framhaldi af því gátu aðstandendur sótt sér fjölskyldumeðferð hjá starfsmönnum Áfengisvarnardeild heilsuverndarstöðvarinnar eða í fjölskyldudeild SÁÁ eins og það var kallað einu nafni, þrátt fyrir að vera rekin af Reykjavíkurborg og þeirra yfirmaður var Skúli Johnsen borgarlæknir. Þetta samstarf var með SÁÁ frá árinu 1977 til 1981 (Heilbrigðisráð Reykjavíkur, 1985).
Fjölskyldumeðferðin var má segja flutt inn frá Hazelden, Ingibjörg Björnsdóttir þáverandi deildarstjóri Áfengisvarnardeildarinnar eða fjölskyldudeildar SÁÁ komst í samband við Terence Williams og aðra yfirmenn Hazelden sem gáfu leyfi til þess að nýta efni og prógramm sem Hazelden átti fyrir fjölskyldumeðferðina. Þekking til SÁÁ varðandi fjölskyldumeðferð kemur þaðan sem og ýmsir fyrirlestrar fyrir vímuefnasjúka komu að mörgu leiti frá Hazelden sem og Freeport.
Hazelden var með inniliggjandi meðferð fyrir aðstandendur sem samanstóð að stuðningshópum, fyrirlestrum og verkefnum. Fjölskyldudeildin fékk aðgang að fjölskyldumeðferðar prógrammi Hazelden sem var þýtt og stílfært yfir á íslensku og í kjölfarið búin til fjögurra vikna meðferð. Tvö námskeið voru haldin í einu á þessu fjögurra vikna tímabili eitt að deigi til og annað seinni part dags, það komu margar óskir frá aðstandendum um að fá að vera lengur og þá í hópavinnu og virtist sú vinna vera að gefa fólki mest. Til þess að mæta þessum óskum var sett upp stuðningsprógramm þannig að fólk hittist í hópum aðra hverja viku í nokkrar vikur eftir námskeið. Starfsmenn fjölskyldudeildarinnar á vegum Reykjavíkurborgar voru fjórir og þegar göngudeild SÁÁ flytur starfsemi sína í Síðumúla 3-5 borgaði Reykjavíkurborg þá flutninga. Þá greiddi Reykjavíkurborg fyrirfram leigu til tíu ára á húsnæði fyrir deildina svo og innanstokkmuni (Eiríkur G. Ragnarsson félagsráðgjafi munnleg heimild, 21. september 2010; Heilbrigðisráð Reykjavíkur, 1986)
Áfengisvarnardeild heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur lagði fram greinagerð varðandi samstarf sitt við SÁÁ á fundi 4. janúar, 1985. Í þeirri greinagerð kemur fram að þrátt fyrir gott samstarf við SÁÁ verði að standa vörð um starfsheiti, vinnutíma og störf starfsfólks Reykjavíkurborgar. Einnig er farið fram á í sömu greinagerð að ráðnir verði til starfa læknir og verkefnastjóri sem séu ábyrgir fyrir faglegu starfi gagnvart borgarlækni. Óskað er einnig eftir að sá læknir sem ráðin verði hafi haldgóða þekkingu á fjölskyldumeðferð og að sú þekking muni ekki brjóta í bága við hugmyndafræði SÁÁ eða ógna á nokkurn hátt starfseminni (Heilbrigðisráð Reykjavíkur, 1985). Samkvæmt þessari greinagerð er vísbending að samstarf á milli Áfengisvarnardeildarinnar og SÁÁ sem kallað var fjölskyldumeðferð SÁÁ hafi ekki gengið sem best og ágreiningur verið um ákveðna faglega þætti eða hugmyndafræði sem snéru að fjölskyldumeðferð á þessum árum. Árið 1987 leggur Heilbrigðisráð fram greinagerð á fundi heilbrigðisráðs að Reykjavíkurborg verði verkkaupi af þjónustu fjölskyldumeðferðar SÁÁ og líkur þar samstarfi Áfengisvarnardeildar heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og SÁÁ (Heilbrigðisráð Reykjavíkur, 1987).
Mikil stemming var um SÁÁ á þessum árum Hilmar Helgason, Björgólfur Guðmundsson og Binni Berndsen voru aðal mennirnir sem ruddu braut SÁÁ og öfluðu fjár og þess stuðnings sem þurfti. Á aðalfundi SÁÁ 1978 er formaður samtakanna Hilmar Helgason endurkosin og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er kosin framkvæmdarstjóri SÁÁ og gegnir þeirri stöðu frá árinu 1978 til 1984. Árið 1979 kemur Þórarinn Tyrfingsson læknir til starfa hjá SÁÁ og verður síðar forstöðulæknir sjúkrahússins á Vogi og formaður samtakana árið 1988 og hefur gengt því formannshlutverki fram til dagsins í dag (Eiríkur G. Ragnarsson félagsráðgjafi munnleg heimild, 21. september 2010; Sæmundur Guðvinsson,1997; SÁÁ, e.d.).
Göngudeild Akureyrar er opnuð 1992 með sama markmiði og göngudeildin í Reykjavík. Ásamt þessu rak SÁÁ áfangahús bæði fyrir karla og konur um árabil. Ný göngudeild var svo opnuð sem ber nafnið Von 2006 og er í Efstaleiti 7 og nýjasta úrræðið sem SÁÁ hefur sett á laggirnar er búsetuúrræði sem heitir Vin og er staðsett á Viðarhöfða 45 önnur búsetuúrræði eða áfangahús eru ekki í dag á vegum SÁÁ. Vekja má athygli á því að á fyrstu tuttugu árum SÁÁ var það rekið af stórum hluta af félagsgjöldum og með ýmsum öðrum fjáröflunarleiðum sem félagsmönnum datt í hug svo sem með tónleikahaldi eða útihátíðum (SÁÁ, e.d.).
Önnur úrræði fyrir vímuefnasjúka á Íslandi voru á vegum kristilegra samtaka svo sem Samhjálpar. Frá árinu 1973 hefur Samhjálp rekið meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal en þar eru rúm fyrir 34 einstaklinga. Forsaga Hlaðgerðarkots er sú að Hvítasunnukirkjan keypti Hlaðgerðarkot sem Mæðrastyrksnefnd tók svo við og seldi Samhjálp Hlaðgerðarkot árið 1973 sem hóf þá þegar rekstur vistheimilis fyrir áfengissjúka, Hlaðgerðarkot hefur notið styrkja frá hinu opinbera til vistheimilisins. Önnur úrræði sem Samhjálp rekur meðal annars í samstarfi við Reykjavíkurborg fyrir vímuefnaneytendur eru Gistiskýlið við Þinghólsstræti í Reykjavík, Kaffistofu sem rekin hefur verið frá árinu 1982, áfangahús að Miklubraut 18 og 20. Samhjálp rekur einnig göngudeild sem býður upp á viðtöl við vímuefnasjúka og aðstandendur þeirra sem og að vinna að forvörnum (Samhjálp, e.d.)
SÁÁ eru félagasamtök sem rekur heilbrigðis- og félagsþjónustu með sjálfsaflafé og styrkjum frá ríki og sveitarfélögum. Samhjálp eru kristileg félagasamtök sem einnig halda úti félagsþjónustu að mestu með styrkjum frá sveitarfélögum. Foreldrahús sem rekur meðferð og stuðning við börn og foreldra vegna vímuefnaneyslu eru einnig félagasamtök sem rekið er af styrkjum frá ríki og sveitarfélögum. Öll eru þetta mannúðarsamtök sem hafa hagsmuni einstaklingana að leiðarljósi. Í næsta kafla verður sagt frá þeim meðferðarúrræðum sem í boði eru á Íslandi fyrir aðstandendur vímuefnasjúkra.
Meðferðarúrræði fyrir fjölskyldur vímuefnasjúkra á Íslandi
Meðferðarþjónusta SÁÁ fyrir áfengis og vímuefnasjúka og aðstandendur þeirra er margvísleg og bíður upp á marga valkosti. Á göngudeildum SÁÁ er aðstandendum er fyrst og fremst sinnt með viðtölum og boðið er upp á sérstaka fjölskyldumeðferð. Fjölskyldumeðferðin tekur fjórar vikur, einnig geta aðstandendur sótt vikulegan stuðningshóp í samhliða meðferðinni (SÁÁ, e.d.).
Á árinu 2008 voru skráð í göngudeild SÁÁ 984 einstaklingsviðtöl aðstandanda alkóhólista hjá áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Af þessum 984 einstaklingum fóru 289 einstaklingar í fjölskyldumeðferð hjá SÁÁ. Kynjahlutfall í fjölskyldumeðferðinni er að þátttakendur eru um það bil 25% karlar og 75% konur sem endurspeglar tölur um kynjahlutfall þeirra sem fara í áfengismeðferð (Hörður Oddfríðarson, dagskrárstjóri, munnleg heimild, 22. 12. 2009).
Í fjölskyldumeðferðinni felst fræðslan í því að auka þekkingu þátttakenda á fíknisjúkdómnum. Fjallað er um einkenni alkóhólisma, hverjar eru birtingamyndir sjúkdómsins og hvaða áhrif það hefur á aðstandendur og aðra í félagslegu umhverfi alkóhólistans. Þátttakendur fá leiðbeiningar og stuðning til þess að leita betri samskipta og líðan innan fjölskyldunnar. Að lokinni fjögurra vikna meðferð er stuðningshópur einu sinni í viku í boði fyrir aðstandendur. Fyrir aðstandendur sem búa fyrir utan höfuðborgarsvæðið er boðið uppá helgarnámskeið sem er byggt er upp á fjögurra vikna námskeiðinu. Leitast er við að mæta þörfum einstaklinga með þessum námskeiðum og eru þau einnig í boði á Akureyri ef þátttaka er næg. Á göngudeildum bæði í Reykjavík og Akureyri eru vikulegir fræðslufyrirlestrar fyrir aðstandendur alkóhólista og eru þeir auglýstir sérstaklega (SÁÁ, e.d.).
Foreldrar unglinga sem átt hafa unglinga í meðferð eða eiga unglinga sem eru að byrja að leita sér aðstoðar stendur til boða fræðsludagskrá. Þessi fræðsludagskrá er á sjúkrahúsinu Vogi einu sinni í viku og hentar einnig vel fyrir foreldra sem eru að byrja að leita sér aðstoðar og upplýsinga varðandi vímuefnaneyslu unglings. Mikil áhersla er lögð á að foreldrar og forráðamenn unglinga taki þátt í þeirri meðferð sem unglingurinn fer í gegnum. Læknar, unglingageðlæknar, sálfræðingar og áfengisráðgjafar eru aðgengilegir fyrir foreldra óski þeir eftir, einnig eru foreldrar hvattir til að taka þátt í fjölskyldunámskeiði sem ætlað er fyrir aðstandendur áfengis- og vímuefnasjúkra (SÁÁ, e.d.).
Hjá SÁÁ er gengið út frá því að vanlíðan einstaklings í stjórnlausri neyslu hafi mikil og neikvæð áhrif á fíkilinn sjálfan, nánustu ættingja, vini, félaga, starfsumhverfi og samfélagið í heild sinni. SÁÁ hefur aukið þjónustu sína enn frekar til þess að sinna á markvissari hátt börnum alkóhólista. Sálfræðiþjónusta fyrir börn alkóhólista hófst árið 2007, þjónustan fer fram í VON húsi SÁÁ við Efstaleiti 7 alla virka daga frá kl. 9:00 til 16:00. Markhópurinn eru börn og unglingar á aldrinum 8 til 18 ára, sem ekki eru sjálf byrjuð áfengis- eða vímuefnaneyslu. Sameiginlegur þáttur ungmennanna er að eiga foreldra eða forráðamenn sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða, hvort sem þau eru virk eða óvirk í neyslunni. Í byrjun er viðtal við börn og foreldra saman og síðar er boðið upp á fjögur til sex viðtöl við barnið einu sinni í viku en þó er fjöldi viðtala metinn út frá aðstæðum hverju sinni. Eftir þessa viðtalsþjónustu er boðið upp á vikulega hóptíma í hverjum hóp eru um fjögur til sex börn og er gert ráð fyrir að aldursdreifing innan hvers hóps sé um það bil tvö ár. Í hópastarfinu er unnið í hópverkefnum, hlutverkaleikjum og fleiru. Frá fyrsta viðtali til síðasta hóptíma er gert ráð fyrir viðtölum við foreldra (SÁÁ, e.d.).
Þessi þjónusta felur í sér viðurkenningu á því að barn sem elst upp við vímuefnaneyslu í nánasta fjölskylduumhverfi sínu geti setið uppi með ýmsar afleiðingar, bæði tilfinningalegar og félagslegar. Þjónustan hefur einnig mikilvægt forvarnargildi fyrir umrædd börn með tilliti til hugsanlegrar áfengis- og fíkniefnaneyslu þeirra. Samkvæmt Lárusi Blöndal, sálfræðing hjá SÁÁ eru börn alkóhólista fjórum sinnum líklegri til að ánetjast áfengi eða öðrum vímuefnum á fullorðinsaldri en börn þeirra foreldra ekki eiga við slíkan vanda að stríða. Erlendar rannsóknir gera ráð fyrir að eitt af hverjum fjórum börnum eigi foreldri eða foreldra sem eigi við áfengis- eða annan vímuefnavanda að stríða. Auk þess hefur verið sýnt fram á að þessir einstaklingar séu um það bil fjórum sinnum líklegri til að ánetjast áfengi eða öðrum vímuefnum á fullorðinsaldri en börn þeirra foreldra sem ekki eiga við slíkan vanda að stríða. Niðurstöður rannsókna benda líka til þess að fjölmargir líffræðilegir, sálfræðilegir, félagslegir og persónuleikaþættir til viðbótar við fjölskyldusögu um alkóhólisma skipti máli um það hvort börn þrói með sér fíknisjúkdóm (SÁÁ, e.d.).
Markmið Foreldrahúss sem eru félagasamtök styrkt af ríki og sveitarfélögum er að styðja og styrkja foreldra sem eiga börn og unglinga eru í vanda eða farið hafa í meðferð. Hjá Foreldrahúsinu eru stuðningshópar fyrir foreldra sem eru að ganga í gegnum sorg, áfallastreitu og aðrar erfiðar tilfinningar, samhliða því að vera með ungling sem ýmist er í neyslu eða hefur lokið meðferð og er að reyna að halda sig frá vímuefnum. Sumir foreldrar eru einnig að jafna sig eftir reynslu og áföll eins og ofbeldi eða yfirvofandi sjálfsvígshættu unglingsins (Vímulaus æska, e.d.).
Boðið er uppá hópfundi einu sinni í viku með ráðgjafa. Á þessum fundum geta foreldar talað um líðan sína og fengið faglegar upplýsingar. Mikilvægt er að foreldrar upplifi samkennd í hópavinnunni og að þeir finni að þeir eru ekki einir um að upplifa vímuefnaneyslu og vanlíðan barns eða unglings síns. Mikil sektarkennd, sjálfsásökun og efi um að hafa ekki staðið sig í hlutverki sínu sem foreldri er eitt af því sem foreldrar þurfa að eiga við og vinna úr. Foreldrasíminn er opinn allan sólarhringinn og eru foreldrar hvattir til að nýta sér þá þjónustu. Það er mikið álag á foreldrum sem eiga unglinga í neyslu eða unglinga sem hafa verið í vímuefnaneyslu, því þurfa þessir foreldrar oft stuðning til þess að sinna til dæmis öðrum börnum á heimilinu og til að sinna sjálfum sér. Í Foreldrahúsi eru í boði námskeið í sjálfstyrkingu fyrir börn á aldrinum tíu til tólf ára og unglinga þrettán til sautján ára. Námskeiðið stendur í tíu vikur og mæta foreldrar í tvö skipti með börnum sínum, námið er byggt upp með verkefnavinnu og umræðum. Markmið námsskeiðsins er að efla sjálfstraust, sjálfsvirðingu og sjálfsmynd sem skilar sér í betri lífsgæðum og getu til þess að takast á við verkefni í leik og starfi (Vímulaus æska, e.d.).
Eftirmeðferð er í boði fyrir unglinga og foreldra þeirra. Þessi meðferð er fyrir þá unglinga sem lokið hafa meðferð vegna vímuefnaneyslu. Í boði er allt frá sex mánaða meðferð upp í tveggja ára eftirfylgd og reynt er að mæta þörfum hvers og eins. Í eftirmeðferðinni er unglingunum boðið upp á ýmiskonar fræðslu og aðstoð svo sem sjálfseflingu, efla félagslega færni, samskipti, aðstoð við að sækja um vinnu og læra að lifa án vímuefna (Vímulaus æska, e.d.).
Meðferð Landspítala Háskólasjúkrahúss sem er opinber stofnun fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga er rekin á vegum LSH á meðferðarstöðinni Teigi. Í meðferð hjá LSH Teigi er lögð áhersla á AA og að fjölskyldan leiti einnig aðstoðar í boði eru bæði viðtöl við fagaðila og fjölskyldunámskeið (Ása Guðmundsdóttir og Hildigunnur Ólafsdóttir, 2001).
Á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúsi starfar einstaklingur sem hefur reynslu af því að vera í hlutverki sjúklings inni á geðdeild. Starfsheitið er: Fulltrúi notenda á geðsviði LSH og á að vera bæði sjúklingum og aðstandendum þeirra stuðningur og er þeim gert það ljóst að þeir geti leitað til fulltrúa notenda, sem er þeirra talsmaður. Markmið þeirra sem starfa að vímuefnameðferð á Teigi er að sjúklingar og aðstandendur þeirra sem leita eftir og fá þjónustu hjá þeim finni sig velkomna og að þeir séu þátttakendur í heildinni. Markmiðið er einnig að allir séu vel upplýstir um möguleika í þjónustu og samskiptaleiðum. Þegar meðferð er skipulögð með sjúklingi er nánustu aðstandendum boðið með til samvinnu. Stuðlað er að því að fjölskyldan sé með sjúklingi í ráðum þegar því verður við komið. Samvinna og tengsl geðsviðs við samtök aðstandenda hafa þróast á undanförnum árum. Reglulegir fundir eru með gæðaráði og stjórnendum geðsviðs til þess að geta verið stöðugt að bæta þjónustu við sjúklinga og fjölskyldur þeirra (LSH, e.d.).
Á deildinni eru starfandi geðlæknar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og áfengisráðgjafar. Námskeið fyrir aðstandendur eru haldin einu sinni í mánuði og stendur hvert námskeið yfir eina helgi og byggist upp á fyrirlestrum og hópavinnu. Eftir hvert námskeið er boðið upp á að aðstandendur nýti sér hópvinnu í sex skipti (LSH, e.d.).
Ýmsir fagaðilar bjóða upp á önnur úrræði svo sem félagsráðgjafar, sálfræðingar og prestar sem ekki eru á vegum opinberra aðila né félagasamtaka og tilheyra því einkageiranum. Þessir aðilar bjóða meðal annars upp á sérþjónustu fyrir aðstandendur alkóhólista. Þessi sérþjónusta er til dæmis einstaklings og/eða fjölskylduviðtöl og námskeið um meðvirkni fyrir aðstandendur. Félagsráðgjafar sem starfa á þjónustumiðstöðvum geta vísað einstaklingum til félagsráðgjafa á stofum og til sálfræðinga sem hafa sérþekkingu á áfengis- og vímuefnamálum og er þá sú þjónusta niðurgreidd af hinu opinbera.
Lifandi Ráðgjöf ehf. býður upp á námskeið, fræðslu og ráðgjöf varðandi áfengis- og vímuefnamál fyrir einstaklinga, fjölskyldur, stofnanir og fyrirtæki. Mikilvægt að koma til móts við þarfir fólks og bæta þjónustu. Áfengis- og vímuefna sjúkdómur spyr ekki um stétt né stöðu frekar enn aðrir sjúkdómar og þau úrræði sem í boði eru varðandi sjúkdóminn eru mörg og mismunandi. Það sem hentar einum einstakling eða fjölskyldu þarf ekki að henta öðrum. Þetta á einnig við um tímasetningar til dæmis eru hefðbundnir viðtalstímar hjá fagaðilum oft á milli kl. 9:00 til 17:00. Þessi tími kann að vera þægilegur fyrir meðferðaraðilana en óþægilegur fyrir skjólstæðinginn og að baki þess geta legið ýmsar ástæður. Þrátt fyrir að alkóhólismi sé viðurkenndur sjúkdómur í dag eru til staðar ennþá einhverjir fordómar ekki síst hjá alkóhólistanum sjálfum og fjölskyldu hans. Þessir aðilar eiga stundum erfitt með að fá frí í vinnu án þess að þurfa að útskýra hvert þeir eru að fara eða finnst að viðtal við fagaðila vegna áfengissýki eigi ekki heima á vinnutíma (Lifandi Ráðgjöf e.d.).
Einstaklingar og fjölskyldur með ung börn geta einnig átt erfitt með að fá gæslu fyrir börnin sín á dagtíma. Mikilvægt er að koma til móts við þarfir fólks og bæta þjónustu. Með bættri þjónustu er átt við að í boði sé sá möguleiki að fá viðtal og ráðgjöf við fagaðila vegna áfengis- og vímuefnavanda eftir kl. 17:00 á virkum dögum og um helgar (Lifandi Ráðgjöf, e.d.).
Frjáls félagasamtök hafa stórt hlutverk í mannúðarfélögum sem hafa það að leiðarljósi að bæta lífsgæði einstaklinga. Í næsta kafla verður fjallað um félagasamtök og hvaða hlutverki þau hafa að gegna í samfélögum og þróun þeirra.
Frjáls félagasamtök
Hlutverk frjálsra félagasamtaka sem alls staðar er að finna í heiminum er að auka þjónustu við íbúa samfélaga og fjöldi slíkra félaga fer vaxandi. Frjáls félagasamtök standa fyrir málstað ýmissa hópa svo sem minnihlutahópa og stuðla að auknum jöfnuði í samfélögum og lýðræðislegum umbótum með það að leiðarljósi að búa til réttlátari heim (Steinunn Hrafnsdóttir, 2008). Í grein Ibsen og Habermann (2005) er rakin forsaga sjálfboðaliða og félagasamtaka í Danmörku og á öðrum Norðurlöndum. Í greininni er fjallað um þegar danska krúnan lét undan þrýsting þegna sinna til að fá að tilheyra félagasamtökum og þar með leggja málum lið. Mál sem félagasamtök láta sig varða eru meðal annars fátækt, mismunun, heilsa og ýmis velferðarmál. Uppúr 1850 fóru félagasamtök á Norðurlöndunum að blómstra og verða afl í sínu samfélagi. Hjálparsamtök eða líknarfélög voru algeng og það var mikil upphefð sem fylgdi því að tilheyra slíkum félögum og taka þátt í starfi þeirra. Sérstaklega átti þetta við hjá þeim stéttum sem voru efnameiri í samfélaginu. Hjá hástéttinni hafði það tíðkast í áraraðir að tilheyra og starfa með ákveðnum félögum þar sem voru stunduð sjálfboðaliðastörf meðal annars við að líkna sjúkum og fæða fátæka. Þegar almenningur fékk að stofna frjáls félagasamtök gat fólk farið að leggja ákveðnum málum lið og stuðla að úrbótum með þrýstihópum svo sem í heilbrigðismálum, félagsmálum og menntamálum.
Seint á 19. öld hófust sjálfboðaliðastörf á Íslandi í þágu félagslegrar velferðar. Á tímabilinu 1840 til 1900 voru fjölmörg félög í Reykjavík stofnuð sem virkuðu sem þrýstihópar í fyrstu sem komu ýmsum málum af stað en hið opinbera tók svo við rekstri eða umsjón síðar. Líknar- og mannúðarsamtök voru áberandi í byrjun og einnig félög sem létu réttindabaráttu þeirra sem minna máttu sín varða. Karlar voru oftar enn ekki í forsvari félaganna enn konur sáu um að vinna verkin. Þó voru einnig félög eða mannúðarsamtök sem einungis konur sáu um og konur voru stjórnendur. Þessi félög eru meðal annars ýmis kvenréttindafélög, Mæðrastyrksnefnd og Kvenfélagið Hringurinn sem stofnaður var 1904 (Sigrún Júlíusdóttir og Sigurveig H. Sigurðardóttir, 1997).
Sögu sjálfboðaliðastarfa og félagasamtaka er hægt að skipta í þrjú tímabil, tímabilin einkennast af þróun samfélaganna, aukinni þekkingu og nýrri forgangsröðun. Tímabilið fram til 1930 einkenndist af félagslegri stöðu þeirra sem tóku þátt í sjálfboðaliðastörfum og að það taldist til siðferðilegrar skyldu þeirra efnameiri að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum. Annað tímabilið er stundum kallað gullár frjálsra félagasamtaka og einkenndist af því að mörg félagasamtök urðu til sem stuðluðu að samfélagslegri samstöðu einstaklinga við að bæta réttindi íbúa meðal annars í heilbrigðis, félags- og menntamálum. Eftir seinni heimstyrjöld gerðust merkilegir hlutir í bresku og skandinavísku velferðarkerfunum. Breska velferðarkerfið festi í sessi sjálfboðaliðasamtök í sínu velferðarkerfi en skandinavíska velferðarkerfið fylgdi ekki í kjölfarið. Félagasamtök voru þó til og eru ennþá til í dag sem þrýsta á um málefni minnihlutahópa í Skandinavíu. Í sögu sjálfboðaliðastarfa og frjálsra félagsamtaka er hægt að segja að þriðja tímabilið renni upp um árið 1980 með nýrri hugmyndafræði og pólitík. Rótgróin félagasamtök eru orðin föst í sessi og ný líta dagsins ljós bæði fyrir málstað minnihlutahópa og á pólitískum vettvangi (Ibsen og Habermann, 2005).
Frjáls félagasamtök hafa meðal annars tekið þátt í uppbyggingu í félags- og heilbrigðisþjónustu og hafa vakið athygli á ýmsum velferðar-, mannúðar- og umhverfismálum á Íslandi. Hægt er að nefna nokkur félagasamtök sem barist hafa fyrir mismunandi mannúðarmálum svo sem Rauða Krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Öryrkjabandalagið og Landsbjörg. Af erlendum vettvangi má nefna alþjóðleg samtök og alþjóðlegar stofnanir sem hafa meðal annars mótað í auknum mæli stefnu og samskipti við samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið og Alþjóðabankann. Samkvæmt skilgreiningum tilheyra frjáls félagasamtök þriðja geira samfélagsins, hinir tveir eru einkageirinn og opinberi geirinn og eru þeir betur þekktir í samfélögum. Hægt er að skilgreina þriðja geirann sem svið sem beint eða óbeint heyrir undir stjórn og/eða forræði stjórnvalda og fyrirtækja. Hugtök sem notuð eru til að lýsa starfsemi frjálsra félagasamtaka eru stofnanir sem hafa ekki hagnað að markmiði svo sem mannúðarsamtök, sjálfboðaliðageirinn og sjálfboðaliðasamtök. Það sem liggur að baki frjálsum félagasamtökum eru ákveðnar hugsjónir eða hugmyndafræði það er að segja að vinna að umbótum fyrir einstaklingana í samfélaginu. Í frjálsum félagasamtökum er félagsaðild frjáls og algengt er að skipta hlutverkum félagasamtaka í tvo flokka. Annars vegar hagsmunasamtök svo sem húsfélög, fagfélög og stéttarfélög og hins vegar almannaheillasamtaka í þessum flokki má nefna meðal annars líknarfélög, trúfélög og mannúðarstofnanir (Steinunn Hrafnsdóttir, 2008).
Hlutverk frjálsra félagasamtaka er margþætt, eitt af því sem félagasamtökin gera er að koma auga á, vekja á því athygli og sinna þjónustu við einstaklinga í samfélögum sem hið opinbera er ekki að gera. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á blönduðu ítölsku velferðarkerfi eins og tíðkast í svo mörgum löndum meðal annars á Íslandi. Í rannsókninni kom eftirfarandi gagnrýni fram á að þar sem að þjónusta frjálsra félagssamtaka, sjálfboðaliða, opinberi geirinn og einkageirinn er í boði er erfitt fylgjast með að þeirri þjónustu sem innt er af hendi og hvort sú þjónusta sé sú besta sem völ er á? Hverjir eru að veita þjónustuna? Eru það fagaðilar sem hafa til þess þá menntun og hæfni sem þörf er á svo sem menntun á sviði heilbrigðis- og félagsmála? Eru þetta aðilar sem eru að starfa vegna reynslu sem þeir eiga að baki og sækja þekkingu sína í eigin reynslubanka? Samkvæmt niðurstöðu þessarar rannsóknar telur höfundur greinarinnar að gæði þjónustu við íbúa samfélaga sem hafa blandaða þjónustu, ekki eins góða og hún gæti verið ef hún væri á einni hendi það er að segja annað hvort hjá hinu opinbera eða í einkageiranum (Fassi, 1996).
Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir, félagsráðgjafi MA
Heimildir
AA, e.d. Hátíðarfundur AA samtakanna. Sótt 15. september 2010 af http://aa.is/pages.php?idpage=11179
AA – samtökin á Íslandi. (2005). AA – bókin. 2. útgáfa. Reykjavík. AA – Útgáfan: Höfundur.
Al-anon, e.d. Hvað er Al-anon. Sótt 16. september 2010 af http://www.al-anon.is/alanon/hvad-er-alanon/
Al-anon, e.d. Hvað er Alateen? Sótt 16. September 2010 af http://www.al-anon.is/alateen/hvad-er-alateen/
Alcoholics Anonymous. (e.d.). History of alcoholics anonymous. Sótt 15. ágúst 2010 af http://aa.org/lang/en/subpage.cfm?page=283
Andersona, J. D., McGovernb, P. J. og Dupontc, L. R. (1999). The Origins of the Minnesota Model of Addiction Treatment-A First Person Account [Rafræn útgáfa]. Journal of Addictive Diseases, 18, 107 – 114.
Ása Guðmundsdóttir og Hildigunnur Ólafsdóttir. (2001). Konur og áfengi. Í Árni Einarsson og Guðni R. Björnsson (Ritstj.), Fíkniefni og forvarnir (bls. 144 -152). Reykjavík: Fræðslumiðstöð í fíknivörnum.
Babor. T. F. og Del Boca, F. K. (2003). Treatment matching in alcoholism. Cambridge University Press.
Bufe, C. (1998). Cult or cure. 2. útgáfa. See Sharp Press. Tucson, Arizona.
Fazzi, L. (1996). Social Policies and the Non-profit Sector in Italy: A Critique of the Ideologies of Contracting Out. Í Economic and Industrial Democracy (e: Vol. 17) bls. 75-97
Hazelden . (e.d.). The Minnesota Model. Sótt 13. ágúst 2010 af http://www.hazelden.org/web/public/minnesotamodel.page
Heilbrigðisráð Reykjavíkur. (1984). Heilbrigðisráð Reykjavíkur: Framkvæmd áfengisvarna. Reykjavík: Höfundur.
Heilbrigðisráð Reykjavíkur. (1985). Heilbrigðisráð Reykjavíkur: Samningur Reykjavíkurborgar og Samtaka áhugafólks um áfengisvandamálið. Reykjavík: Höfundur.
Heilbrigðisráð Reykjavíkur. (1985). Greinagerð; Samstarf Reykjavíkurborgar og Samtaka áhugafólks um áfengisvandamálið. Reykjavík: Höfundur.
Heilbrigðisráð Reykjavíkur. (1987). Heilbrigðisráð: Heilsugæsla. Reykjavík: Höfundur.
Ibsen, I. og Habermann, U. (2005). Defining the Nonprofit Sector: Denmark. Working Papers of the Johns Hopkins Comparative Nonprofit Sector Project. Nr. 44. Baltimore: The Johns Hopkins Center for Civil Society Studies.
Ingólfur Margeirsson. (1994). Frumherjarnir: Saga AA-samtakanna á Íslandi 1948-1964. Reykjavík: AA-útgáfan.
Hildigunnur Ólafsdóttir. (2000). Alcoholics Anonymous in Iceland. Háskólaútgáfan.
Landspítali Háskólasjúkrahús (e.d.). Meðferðarstöðin Teigur - Hringbraut. Sótt 25. september 2010 af: http://www.landspitali.is/pages/14183
Landspítali Háskólasjúkrahús (e.d.). Notendur og fjölskyldur. Sótt 25. september 2010 af: http://www.landspitali.is/pages/14925
Lifandi Ráðgjöf (e.d.). Fréttir. Sótt 25. september 2010 af: http://www.lifandiradgjof.is/index.php?option=content&task=view&id=4&Itemid=27
Mitchell, K. (2003). Early History of Alcoholic Anonymous. Silkworth.net. Sótt 15. ágúst 2010 af http://silkworth.net/mitchellk/mitchellk_library.html
Pittman, B. (1988). AA The Way It Began. Washington: Glen Abbey Books.
Samhjálp (e.d.). Göngudeild. Sótt 26. september 2010 af: http://www.samhjalp.is/index.asp?p=gongudeild.asp
Samhjálp (e.d.). Hlaðgerðarkot. Sótt 26. september 2010 af: http://www.samhjalp.is/index.asp?p=hladgerdarkot.asp
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Greinargerð um rekstur sjúkrastofnanna SÁÁ árið 2003 . Sótt 24. september 2010 af: http://www.saa.is/islenski-vefurinn/samtokin/greinargerd-um-rekstur/
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). The Freeport Experience. Sótt 24. september 2010 af: http://saa.rat.nepal.is/enski-vefurinn/the-freeport-experience/
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Börn alkóhólista í verulegri hættu. sótt 25. september 2010 af: http://www.saa.is/islenski-vefurinn/felagsstarf/pistlar/nr/74131/
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Markmið. sótt 25. september 2010 af: http://www.saa.is/islenski-vefurinn/samtokin/markmid/
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Starfsemin. Sótt 24. september 2010 af: http://saa.rat.nepal.is/islenski-vefurinn/samtokin/starfsemi/
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Fyrir aðstandendur. Sótt 25. september 2010 af: http://saa.is/islenski-vefurinn/medferd/fyrir-adstandendur/
Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann (e.d.). Fyrir unglinga. Sótt 25. september 2010 af: http://saa.is/islenski-vefurinn/medferd/fyrir-unglinga/
Sigrún Júlíusdóttir og Sigurveig H. Sigurðardóttir. (1997). Hvers vegna sjálfboðaliðastörf? Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Social Policies and the Non-profit Sector in Italy: A Critique of the Ideologies of Contracting Out
Steinunn Hrafnsdóttir. (2008). Frjáls félagasamtök og sjálfboðaliðastörf á Íslandi. Í Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir (Ritstj.), Stjórnun og rekstur félagasamtaka (bls. 21-41). Háskólaútgáfan: Oddi.
Sæmundur Guðvinsson. (1997). Bræðralag gegn bakkusi. SÁÁ. Samtök áhugafólks um áengis- og vímuefnavandann. Reykjavík. Prentsmiðjan Grafík.
Vímulaus æska (e.d.). Börnin okkar. Sótt 25. september 2010 af: http://vimulaus.is/cgi-bin/WebObjects/SW.woa/wa/dp?name=vimulaus_a_dofinni&detail=12631
White, W.L. (1998). Slaying the dragon, The history of addiction treatment and recovery in America. (3. útgáfa). USA: A Chestnut Health Systems Publication.