Skemmti og reynslusaga
Fyrsta fjallgangan mín var á Hvannadalshnjúk 2100 m.
Það var árið 2006 sem ég tók ákvörðun um að gaman væri að eiga sameiginlegt áhugamál með manninum mínum. Hann er mikill útivistarmaður, hefur gengið fjöll, stundað lax og skotveiði og verið í björgunarsveit frá því hann man eftir sér. Ég var búin að vera í háskólanámi sl. ár og lítið gert annað en að sitja og lesa. Mér hugnaðist best á að byrja að stunda fjallgöngur því á þeim tíma sá ég mig ekki fyrir mér í veiðinni en hafði alltaf langað að stunda einhverja útivist. Þegar maðurinn minn kom svo með þá hugmynd að ganga með FÍ árlega göngu á Hvannadalshnjúk sem Haraldur Örn Ólafsson leiddi um Hvítasunnuna leist mér vel á hugmyndina og sagðist meira en tilbúin að koma með og samþykkti jafnframt að byrja að æfa mig með því að ganga Esjuna. Undirbúningurinn hófst og ég gekk upp í miðja Esju tveim vikum fyrir Hvítasunnu taldi mig hafa æft mig nóg og fannst þetta nú ekki mikið mál. Eftir að hafa farið á kynningarfund hjá FÍ byrjaði ég að verða mér út um nauðsynlegan útbúnað s.s. belti, brodda og ísexi. Ég keypti mér þau föt sem mig vantaði svo ekki sé minnst á sólgleraugu og léttann bakpoka. Spenna ríkti í loftinu þegar lagt var af stað austur, veðurspáin lofaði góðu og fréttir höfðu borist af því að þetta yrði ein fjölmennasta ganga á vegum FÍ á Hnjúkinn sem vakti það mikla athygli að sjálfur Ómar Ragnarsson ætlaði að fljúga yfir og mynda göngugarpana. Með okkur manninum mínum voru í för sonur hans og tengdadóttir sem voru jafn eftirvæntingarfull og við vorum búin að panta okkur herbergi í tvær nætur í Freysnesi. Áætlunin var að leggja átti af stað frá Sandfelli kl. 5 aðfaranótt laugardags. Á kynningarfundi FÍ fyrir gönguna kom fram að gott væri að hafa með sér ca. 2-3 l af vökva, 2-3 flatkökur, kex og mjög gott væri að plástra fætur með íþróttateip áður en lagt væri af stað til þess að forðast blöðrur og svo sólarvörn. Ég var að mér fannst með allt á hreinu. Fyrstu nóttina í Freysnesi gat ég reyndar ekki sofnað, mér fannst eiginlega ekki taka því þar sem við þurftum hvort eð er að vera komin upp um kl. 4. Eftir að hafa bilt mér í rúminu til kl. 1:30 ákvað ég bara að fara á fætur og byrja að plástra á mér lappirnar, við það vakti ég að sjálfsögðu manninn minn sem var ekki mjög glaður. Ég hugsaði með mér áður en við lögðum af stað að Sandfelli að vera nú ekki að drekka eða borða mikið því ekki gæti ég byrjað að labba stútfull af mat og alls ekki vildi ég vera að drekka mikið því ég ætlaði sko ekki að fara að pissa í miðju fjalli. Þarna var ég svo mætt kl. 4:30 tilbúin með fléttur í hárinu, ég hafði gætt þess að setja maskara á augun og var með allar græjur, 2 l af vökva og nesti. Það var hráslagalegt þarna um morguninn svo ég klæddi mig í öll fötin mín sem ég hafði orðið mér út um sem henta á jökul, átti reyndar ágæta gönguskó sem ég hafði keypt nokkrum árum áður sem smellpössuðu mér nr. 37 (ég nota venjulega skó nr. 36-37). Á bílastæðinu við Sandfell var svo hópurinn komin saman 140-150 manns með fararstjórum. Haraldur Örn talaði um fyrirkomulagið, hann gengi fremstur, gengið yrði hægt, gert stopp eftir 10 mín, svo fólk gæti fækkað förum o.sv. fv. ég hlustaði á þetta, geispaði vildi bara fara að labba af stað og klára þetta þar sem ég var orðin dálítið þreytt og syfjuð...
Svo hófust hræðilegustu klukkutímar lífs míns!!!
Sandfellsheiðin
Hópurinn lagði af stað í halarófu upp hlíðina á eftir fyrstu fararstjórunum. Af einhverjum ástæðum þá lentum við maðurinn minn framarlega í hópnum og mér fannst gengið frekar rösklega. Ég hafði reyndar nefnt við skólabróður minn að ég væri að fara þessa ferð og spurt hann við hverju væri að búast? Hann hafði farið þessa leið nokkru áður. Hann svaraði því til að byrjunin væri erfiðust þ.e. að Sandfellið væri nokkuð bratt eða líkt og Esjan, svo eftir það væri þetta svona „aflíðandi“ og þægilegt upp að Hnjúknum þá væru síðustu metrarnir dálítið klöngur. Svo ég var alveg undir það búin að ganga svona „Esju“ í byrjun. Fljótlega fann ég svitann byrja að renna, púlsinn örugglega komin langt yfir eðlileg mörk og mæðin að drepa mig. Þá var stoppað og fararstjórinn kallaði „fækka fötum sem þurfa“ ég var stoppinu svo fegin að ég hafði ekki rænu á að taka af mér pokann til þess að fara úr einhverjum af þeim lögum sem ég hafði kætt mig í svo það eina sem ég gerði var að renna niður ysta laginu og taka af mér húfuna. Svo var haldið áfram og lagt á brattann, ég einbeitti mér að því að horfa á skóna hjá manninum mínum og telja skrefin upp í sextán aftur og aftur til þess að halda tempóinu og reyna að gleyma vanlíðaninni. Sem betur fer var hópurinn stór svo að í hlíðum Sandfells minnkaði hraðinn, stundum komu stopp því það urðu svona harmonikkuáhrif í brekkunum. Eftir ca. 400 m hækkun var stoppað stutt við lítinn læk þar sem hægt er að fylla á vatn í síðasta sinn á leiðinni upp á Hnjúkinn. Ég þurfti ekki að fylla á neitt þar sem ég var með mína 2 l ósnerta vel geymda í pokanum mínum. Ég gat ekki hugsað mér að taka pokann af mér eða setjast því ég var ekki viss um að geta staðið upp aftur svo ég sníkti sopa af manninum mínum, hallaði mér á stafina mín og reyndi að koma öndun og púls í lag. Maðurinn minn spurði mig hvort það væri ekki allt í lagi hjá mér? Ég brosti kokhraust framan í hann og stundi „jú“. Ég vildi nú ekki fara að eyðileggja þessa ferð fyrir honum með því að byrja á að kvarta strax og bara helmingurinn af þessari „Esju“ búin (samkvæmt skólabróður mínum). En málið var að mér var óglatt, svimaði og langaði mest að snúa við! Ég gerði mér enga grein fyrir því að ég leit út eins og eldrauð/blá blaðra með maskara lekandi niður andlitið með svitanum og kvíðaglampa í augunum. Þegar við erum í um 600 m hæð og stutt í brúnir Sandfells heiðarinnar og ástand mitt hefur þá versnað til muna, sé ég að maður stendur í hlíðinni horfir á mig með áhyggjusvip og gengur svo samhliða mér stutta stund. Þarna var á ferðinni Ólafur Örn Haraldsson, Forseti FÍ. Hann heilsar mér vinsamlega og spyr mig hvernig mér liði og hvort ég vilji ekki fækka fötum eða jafnvel snúa við?? Ég svaraði því til „að ég væri í góðu lagi og hefði það alls ekki í hyggju að snúa við“, þó svo að ég hefði gjarnan viljað það en ég ætlaði sko ekki að vera fyrst til að gera það. Af öllum þessum fjölda hlyti einhver að fara að gefast upp fljótlega, ég gæti þá snúið við eftir það. Svo ég hélt áfram, starandi á skó mannsins míns. Þegar þarna er komið var ég líka farin að finna til í náranum, eitthvað sem ég kannaðist ekki við því ég hafði alltaf verið líkamlega hraust. Þegar upp á Sandfell var komið var búið að láta vita að tekin yrði um 20 mín. nestispása og sá að sólin var að koma upp. Mikið var ég fegin þegar ég sá sólina skríða upp fyrir jökulbrúnina og fegin því nú ætti samkvæmt skólabróður mínum að vera létt aflíðandi ganga framundan. Mér fannst ég algjör hetja að hafa lagt þennan áfanga að baki, gat samt ekki verið jafn glöð og hressileg eins og hinir í hópnum, náði ekki þessu tali í kringum mig um útsýni og fl. þegar útsýni mitt hafði að mestu verið skór mannsins míns. Þar sem svitinn hafði bogað af mér allan tímann var ég blaut í gegn og í stoppinu í 7-800 m hæð var smá kul svo ég fann hvernig mér kólnaði allri, mér datt ekki í hug að fækka fötum hvað þá að fá mér sæti. Ég hafði það þó af að taka af mér pokann sækja drykkinn minn og eina flatköku. Þegar ég var við það að renna niður síðasta bitanum kemur Haraldur Örn til mín og leggur það til við mig án þess að orðlengja það neitt frekar að nú væri rétti tíminn til að snúa við. Það væri upplagt á þessum stað því þá þyrfti hann ekki að missa einn fararstjórann sinn. Ég varð orðlaus, og í gegnum hugann flaug sú hugsun/von um það hvort það væri hópur á leið niður? En þegar hann hélt áfram að tala til mín þá skildist mér að svo væri nú ekki og ég „þyrfti alls ekki að líta á þetta sem ósigur, koma bara aftur að ári“ Að Ári !!. Hvað meinti maðurinn? Í þessu stutta stoppi fann ég hvernig ég náði tökum á mæðinni og púlsinn komin aðeins niður svo ég varð hálf klumsa yfir þessu tyggjandi restina af flatkökunni. Áður en ég náði að svara tekur skelegg tengdadóttir okkar sig til og svarar fyrir mig: „Heyrðu sko, við erum búin að borga fullt verð fyrir þessa Hnjúksgöngu og hún fer EKKI niður. Reiðin og höfnunin yfir því að ég virtist sú eina sem vísa átti niður gaf mér aukinn kraft til þess að gefast ekki upp. Ég fékk mér slurk úr flöskunni minni skellti pokanum á bakið og þrammaði áfram á eftir hópnum, sár og niðurlægð!
Raðað í línur fyrir jökulinn
Áfram var haldið og framundan var skelfileg upplifun sem að ég tel að engin sem ég var með í línu gleymi nokkru sinni, allrasíst línustjórinn! Svo áfram var haldið. Af einhverjum ástæðum virtist leiðin frá stoppinu á Sandfellsheiði upp í 1100 metra þar sem næsta stopp átti að vera ganga þokkalega. Mæðin hafði aðeins minnkað og ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara. Snjórinn hafði tekið við af steinum og klettum, sólgleraugun voru komin á nefið. Ég var að fá tilfinningu fyrir því að vera næstum því „með etta“. Það var ekki eins bratt (ég blessaði skólabróðurinn í huganum hann virðist alveg hafa gefið réttar upplýsingar) en fólk greikkaði sporið. Ég gekk eins hratt og ég gat þrátt fyrir skerandi sársauka, sérstaklega í hægri nára til þess að reyna að halda í við fólkið mitt. Sólin kom alltaf hærra og hærra upp og ég fann hvað hitnaði í veðri þrátt fyrir að vera komin í þessa hæð. Stoppað var í 1100 m og tilkynnt að tekið yrði smá stopp fólk og hvatt til að fá sér bita, drekka og pissa því nú yrði raðað í línu. Fyrsta línan var kölluð hraðlína og svo koll af kolli til síðustu línu sem var þá „hæglína“. Klukkan var um 10 og ég settist niður í fyrsta sinn síðan kl. 4:30 um morguninn og fór loks úr ysta laginu sem var vind/regnjakki sem þola átti 10.000mm. Ég sótti drykkinn minn og var komin vel á veg með líta nr. 2. að borða gat ég ekki hugsað mér enda maginn í hnút og ég þurfti alls ekki að pissa. Ég sagði við fólkið mitt að ég vildi vera í hægustu línunni taldi að með því væri mesti möguleikinn á að komast alla leið með sem minnstum sársauka og mæði. Maðurinn minn samþykkti það en sonur okkar og tengdadóttir völdu sér miðjulínu. Eftir u.þ.b. 30 mín. var byrjað að raða fólki á línubönd, þarna stóð ég íklædd göngubelti með sólgleraugu, búin að maka á mig sólarvörn tilbúin í þægilega aflíðandi göngu restina af leiðinni. Línustjórinn í hægustu línu var maður á þrítugsaldri sýndist mér. Mér fannst hann klæddur eins og Clint Eastwood í ljósum útivistarfötum með hatt, tóbaksklút og sólgleraugu, rosalega flottur! Hann kynnti sig „Ég heiti Skúli“ hann var ekkert að orðlengja það neitt frekar og byrjaði að raða okkur á línuna. Skúli vildi hafa manninn minn fyrir aftan sig, stórann og sterklegan það væri öryggi í því ef hann myndi detta í sprungu. Á eftir manninum mínum kom ég og á bak við mig voru svo fimm í viðbót svo við vorum átta í „hægu línunni“ hans Skúla. Svo hófst gangan langa yfir jökulinn og mér hefur verið sagt að aumingja Skúli hafði aldrei þurft að takast á við annað eins mál eða aðra eins kerlingu og mig á sínum langa fararstjóra ferli fram að þessu!
Það var steikjandi hiti en færi gott þegar línurnar lögðu af stað hver á fætur annarri, loks kom að okkur þar sem við rákum lestina. Við fengum fyrirmæli um það að það mætti alls ekki losa sig úr línunni nema á öruggum stað og með leyfi línustjóra vegna sprunguhættu. Leiðin lá aflíðandi upp á við en mjög fljótlega fann ég fyrir kunnuglegum einkennum s.s. púlsinn upp, mæði, svita og hrikalegum sársauka í náranum, svo ég kalla „ekki fara svona hratt“ línustjórinn Skúli heyrir ekkert svo ég reyni að snúa mér að manninum mínum og hinum í línunni sog spyr: „finnst ykkur þetta ekki vera dálítið hratt gengið?“ En engin tók undir með mér. Í raun var ekkert farið of hratt þetta var bara ég. Línustjórinn kallar „við stoppum í 5 mín. eftir 10 mín. Ég reyndi að harka af mér en fann að ég varð að stoppa, svo við stoppuðum. (þarna byrjaði ég að hugsa skólabróður mínum þegjandi þörfina því ég gat ekki betur séð en framundan voru bara endalausar „hrikalegar“ brekkur). Skúli snýr sér að mér og segir heyrðu við erum rétt að leggja af stað höldum þessum hraða og stoppum á 10 mín. fresti, þá gengur þetta vel hjá okkur og við lendum í lítilli sólbráð. Svo allt í einu gengur hann að mér horfir á svitastrokið andlitið og niður eftir mér og segir „Heyrðu góða við skulum nú bara byrja á því að klæða þig úr!“ Hvað meinti maðurinn?? það skiptir engum togum um það að hann losar af mér bakpokann skipar mér úr vindhelda ljósbláa Cintamani jakkanum mínum sem mér fannst klæða mig svo vel áður en ég lagði af stað. Hann byrjar að renna honum niður, ég reif mig lausa og kláraði verkið. Þá kom í ljós síðerma ullarbolurinn minn, Skúli starði á mig og til himins þar sem sólin skein og bakaði allt og alla og spurði ertu í einhverju innan undir þessu? Ég játti því og fór hálfpartinn hjá mér, hann sagði mér að fara úr bolnum, ég gerði það og stóð loksins á ullarstuttermabol sem taka þarf vart fram að var rennandi blautur eins og hin fötin mín af svita. Pirraður fór hann að troða fötunum mínum í bakpokann minn, tautandi að það væri nú tími til að nota þessa fínu græju sem ég væri með þ.e. nýja bakpokann minn. Hann skipaði mér að drekka svo ég fékk mér vænan sopa af lítra nr. 2. „Jæja“ heldur þú að þetta gangi nú ekki betur núna spurði Skúli og við héldum áfram. Vissulega leið mér betur, ég leit í kringum mig og ég sá að fólk var meira og minna bara á stuttermabolum, þvílíkur var hitinn. En mér fannst hann hafa verið svona fullfrekur við mig, því hann tók það skýrt fram að ef þetta yrði eitthvert vandamál þá þyrfti að snúa allri línunni við. Það vildi ég náttúrulega alls ekki gera, eyðileggja fyrir manninum mínum og hinum í línunni, ég skildi „sko“ halda áfram. Ég harkaði af mér beit vörina á mér til blóðs einbeitti mér að því, en allt kom fyrir ekki. Ég dróst aftur úr svo línan milli mín og mannsins míns strekkist með þeim afleiðingum að ég upplifði að hann væri alltaf að kippa í mig svo nú beindust allar tilfinningar mínar í reiði gagnvart honum sem og línustjóranum. Ég reifst og skammaðist „Hættu að kippa í mig...þarf að labba svona hratt...er ekki hægt að stoppa“ Ég tek það fram að maðurinn minn gerði sitt besta til þess að róa mig og hjálpa mér en ekkert dugði og aumingja hitt fólkið í línunni sem starði á mig eins og ég væri „geimvera“. Allt í einu í ca. 1500 m fer ég svo í andnauð og byrja að grenja ofsalega (líklega af móðursýki) þá sá Skúli sína sæng út breidda og byrjar að kalla í talstöðina „Halló, heyrið í mér! Ég er hér með eina sem er orðin blá í framan, geri ráð fyrir að snúa við, yfir“ (Þarna voru fararstjórar ekki með hlustunartæki í eyrunum svo þetta glumdi til allra fararstjóra í öllum línum. Sonur og tengdadóttir okkar hjóna vissu með sjálfum sér að þarna væri verið að tala um mig og fylgdust með athygli með því hvernig myndi fara). Mér leið ömurlega andlega og líkamlega það stefndi í félagslega erfiðleika líka. Þvílíkur ósigur! Ég var svo niðurlægð og beygð. Ég heyrði fararstjóranna byrja að leggja á ráðin um að kannski væri hægt að sníkja far með einhverjum hóp sem væri á niðurleið fyrir mig, því það voru margir hópar í fjallinu sem þegar höfðu toppað. Skúli sem reynt hafði að hvetja mig leggur þetta til við mig að halda áfram fá far með öðrum niður svo línan þyrfti ekki að snúa við. Ég samþykkti þetta, bara þessi möguleiki að geta farið til baka fljótlega styrkti mig svo við héldum áfram, en við mættum engum! Allavega engum sem hann treysti til að taka mig með sér. Ég fann hvernig hægt og rólega færðist gríðarleg þreyta yfir mig ég varð ofboðslega andlega þreytt...svo þegar við vorum komin í ca. 17-1800 m leysti ég mig rólega úr línunni labbaði til hliðar lagðist niður og langaði bara til að sofa. Það þarf kannski ekki að orða það en Skúla línustjóra og manninum mínum varð mjög illa brugðið. Þeir krupu hjá mér, ég hafði tekið af mér sólgleraugun snéri krímóttu társtroknu andlitinu að þeim og lofaði hátíðlega að vera stillt og sofa bara rólega þar til þau (línan) kæmi til baka. Þarna upplifði ég hvernig er að örmagnast, vilja bara sofa..þvílík vellíðan sem helltist yfir mig...
Að sofna var að sjálfsögðu ekki kostur, svo ég varð að gera svo vel að setjast upp. Línustjórinn Skúli sagði mér að drekka vökva og vildi fá að vita nákvæmlega hvað ég væri búin að drekka mikið og pissa. Þar sem ég er mjög hlíðin sagði ég honum að ég hefði verið með mína 2 l, teygði mig í flöskuna og tók síðasta sopann og bætti við að ég hefði ekki pissað neitt enda engin aðstaða til þess eins og hann ætti að vita betur en allir aðrir, svona rosalega klár eins og hann væri! Auk þess væri ekki viðeigandi að pissa fyrir framan fullt af fólki hugsaði ég. Vatn, vatn kallaði hann til hinna í línunni, hún verður að fá vatn. Allir brugðust hratt og vel við og áður en ég vissi af var búið að troða uppí mig mörgum stútum og hella upp í mig miklu magni af ýmsum vökva og líka einhverju slímkenndu sem átti að vera orka í fljótandi formi. Loksins tókst mér að afþakka frekari vökva og málin voru rædd, Skúli sagði að ég hefði átt að drekka meira og pissa reglulega það væri einfaldlega regla í útivist. Hann sagði að ljóst væri að ég væri ekki nokkru ásigkomulagi til þess að fara alla leið upp á Hnjúkinn og alls ekki væri hægt að skilja mig eftir þarna á öskjubarminum. Nú var komið að samningaviðræðum. „Sko, það sem er í boði fyrir þig Jóna, er að við breytum röðinni, þú verður fyrir aftan mig maðurinn þinn á bak við þig og í sameiningu komum við þér upp þessa síðustu brekku áður en við tekur askja Öræfajökuls“. „Ég geri ráð fyrir að þú hafir það yfir öskjuna yfir að Hnúknum, Þar getur þú svo beðið meðan línan fer upp síðustu 200 metrana“. Svo horfir hann ögrandi á mig og segir „nema þú viljir að við snúum við hérna“? Ég horfði til línufélaga minna og sá vonbrigðin skína úr hverju andliti, úr augum þeirra mátti lesa „Þú ert að verða búin að eyðileggja Hnjúksgönguna okkar!“. Ég stóð upp hafði styrkst við vökvann og var komin í þokkalegt jafnvægi, fann hrokann í mér stigmagnast og sagðist að sjálfsögðu halda áfram. Þannig var það, ég var fest á bak við línustjórann og maðurinn minn á bak við mig og í sameiningu komu þeir mér upp síðustu löngu brekkuna fyrir öskjubrúnina með því að Skúli togaði og maðurinn minn ýtti á rassinn á mér. Án þess að skammast mín drakk ég meira og minna allan vökva línufélaga minna og saug meira að segja úr slöngu línustjórans Skúla þar til vatnspokinn hans var tómur. Gangan yfir öskjuna var frekar auðveld, nokkrir kílómetrar og lítil hækkun. Þar náði ég þokkalegum styrk og hraða og var farin að anda eðlilega. Þegar við komum undir Hnjúkinn þar sem margar línur voru saman komnar annað hvort á leiðinni upp eða að koma niður eftir að hafa toppað, nú eða í hvíld var komið að því að leysa mig úr línunni þannig að félagar mínir gætu „toppað“. Þarna var komin upp sú staða að maðurinn minn hvatti mig til þess að klára ferðina og toppa með þeim enda sá hann að lífsmörk mín fóru batnandi. Skúli sem hafði verið í reglulegu sambandi við hina fararstjórana til þess að upplýsa þá um þau vandamál sem stöðugt herjuðu á þessa hægu línu kom nú og horfði ögrandi á mig og sagði hvasst „Þú getur þetta ekki“. Bara þessi sálfræði espaði upp í mér reiðina svo ég rétti úr mér og sagði „Jú, víst“, og bætti svo við, eee ef þið hjálpið mér og ég leit niður. Línufélagarnir fundu þarna til mikillar ábyrgðar enda höfðum við tengst innilegum tilfinningaböndum í öllum þessum hremmingunum og þeir sögðu „auðvitað klárar þú ferðina eins og við“. Svo það varð úr, maðurinn minn spennti á mig broddana allir tilbúnir og allt byrjaði upp á nýtt. Mæði, aukinn púls, hrikalegur sársauki í hverju skrefi, ég argandi og gargandi biðjandi um stopp og fá að bíða. Aumingja Skúli togaði og togaði og maðurinn minn ýtti og ýtti þessa 200 m. Allt í einu stoppaði Skúli snéri sér snöggt að mér og segir „nú mátt þú Jóna losa þig úr línunni og BÍÐA þú þarft ekki að fara lengra“. Ég horfði undrandi á hann, heyrði hann svo segja við hópinn að nú væru bara 10 m eftir og þá erum við komin á toppinn, þið megið losa ykkur úr línunni og taka myndir og fagna rosalega. Ég horfði á hann og strunsaði af stað. Hann er algjör...! hugsaði ég. Þarna var ég svo komin um kl. 14:00 á topp Hvannadalshnjúks og fannst það frekar óraunverulegt. Eftir stutt stopp á toppnum myndatökur og húrrahróp vorum við fest aftur í línu og snúið við. Það er mér mjög minnistætt þegar við vorum komin nokkra metra niður til baka af Hnúknum var smá stopp í brekkunni, ég og Skúli línustjóri stóðum næstum hlið við hlið þó það megi nú ekki, hann horfir á staðinn þar sem ég stóð á broddunum mínum og sagði „þú stendur á sprungu“ ég leit niður og við mér blasti himinblár litur í gegnum þunnan ís. Ég leit á hann við horfðumst í augu og skellihlógum það var eins og þungu fargi væri af okkur öllum létt...
Af niðurleiðinni er ekkert nema gott að segja almenn gleði ríkti í línunni og veðrið himneskt. Sólin hafði brætt snjóinn svo ég gat meira og minna rennt mér fótskriðu niður jökulinn og þar með hlíft náranum. Í 1100 m var losað á ný úr línunni, Skúli kvaddi og ég þakkaði honum innilega fyrir eina mestu reynslu og upplifun lífs míns og eftir að við kvöddumst tvístraðist hópurinn. Ég var eins og hestur á leið heim, svo mikill var hraðinn á mér, ég var reyndar farin að finna aftur til í náranum svo ég vaggaði eins og önd niður Sandfellið. Loksins komust við í bílinn ferðin hafði tekið 13 klukkutíma og mikið var ég glöð. Á bílastæðinu sáum við Skúla bregða fyrir í síðasta sinn hann veifaði okkur og við til baka. Ég þarf víst ekki að orðlengja það að á þessari stundu snérust hugsanir mínar um það að ég ætlaði ALDREI að ganga eitt né neitt aftur og fyrsta sem ég ætlaði að gera er ég hitti skólabróður minn aftur var að berja hann. En ég var stolt af mér að hafa klárað þetta þó ég hafi einnig fundið til skammartilfinningar fyrir að hafa verið svona mikil óhemja og dramadrottning. Þegar á hótelið kom komst ég í sturtu og valt svo upp í rúm og steinsofnaði í fósturstellingu sem betur fer snéri ég að náttborðinu þar sem ég átti íbúfen því að daginn eftir þegar ég vaknaði gat ég ekki hreyft mig. Ég þurfti að teygja mig í íbúfenið taka inn töflur og bíða í 30 mín. þar til þær fóru að virka, þá loks gat ég hreyft mig. Næstu daga gekk ég eins og gamalmenni með hrikalega mikla slitgigt. Vegna áreynslunnar og álagsins og vegna vökvaskorts á líkamann þurfti ég að leita læknis nokkrum dögum seinna til þess að fá vatnslosandi lyf. Ég missti allar táneglurnar af hægri fæti og þrjár af þeirri vinstri, en ég fékk ekki blöðrur á hælana því ég hafði plástrað þá svo vel nóttina góðu. Þrátt fyrir erfiða ferð, skömmina og líkamlegu vandamálin fann ég eftir því sem dagarnir liðu og ég jafnaði mig hvað ég var óumræðanlega stolt af mér! Ég tók þá ákvörðun að fara að ári aftur á Hvannadalshnjúk, manninum mínum til mikillar gleði, en nú ætlaði ég að fara rétt að þessu. Um leið og heilsan komst í lag byrjaði að æfa gekk á Esjuna og Helgafell í Hafnarfirði þrisvar til fjórum sinnum í viku allt sumarið. Um veturinn hélt ég mér í formi með því að stökkva upp á annað hvort fjallið þegar veður leyfði. Svo kom að Hvítasunnuferð FÍ 2007 á Hvannadalshnjúk, ég var jafnvel enn spenntari en síðast og hlakkaði gríðarlega mikið til og ég vissi að nú var ég í góðu formi. Gangan gekk vel, engin vandkvæði ég spurði um Skúla en því miður var hann ekki með því hann bjó víst erlendis. Það gladdi mig mjög þegar Ólafur Örn, Forseti FÍ stoppaði í miðjum brekkum Hnjúksins og óskaði mér til hamingju með að hafa náð að þjálfa mig upp og koma aftur. Hann bætti því við að Skúli yrði örugglega stoltur af mér ef hann sæi mig núna og það fyrsta sem hann ætlaði að gera er hann kæmi heim væri að skrifa honum og segja frá því hvað ég hefði gert.
Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir