top of page
Skemmti og reynslusaga
Á Öræfaslóðum - Lónsöræfi

 

Í fyrstu Lónsöræfaferð minni voru það sjö ferðafélagar sem lögðu upp og allir að fara í fyrsta sinn. Maðurinn minn var að sjálfsögðu sjálfskipaður fararstjóri og tók að sér alla skipulagningu s.s. að finna út úr leiðinni, panta skála og finna sögulegan fróðleik um svæðið sem hann var óspar að deila á okkur hin.

 

Ferðafélagana þekki ég en svo sem ekkert persónulega við höfðum verið samferða í lífinu mörgum árum áður og gengið Laugarveginn saman árið 2008. Svo ég vissi svo sem að félagsskapurinn yrði ágætur og hlakkaði til þessa 5 daga í óbyggðum. Ég var í góðu formi enda gengið fjöll regluleg með manninum frá göngunni góðu á Hvanndalshnjúk 2006.

Ég var ekki lengi að pakka í stóra bakpokann minn til 5 daga ferðar með allt á bakinu, ég kveið því ekki því ég er sterk. Nú var ég með á hreinu allt sem snéri að viðeigandi fatnaði, ásamt öðrum búnaði (sólgleraugu, sólvörn, skíðagleraugu, vaðskór og.fl og fl.), ég var líka búin að átta mig á því að ég er ein af þeim sem þarf að drekka gríðarlega mikið í fjallgöngum svo ég undirbjó það vel. Annar staðalútbúnaður var á sínum stað þ.e. snyrtikittið, lítill spegill, augnlinsur og maskari. Sjúkraliðinn í mér var tilbúin með allt sem tilheyrir í sjúkrakassa á fjöll, alveg sama þó ég vissi að fararstjórinn (maðurinn minn) væri með allt svona á hreinu, þá ætlaði ég samt að bera þetta líka í pokanum mínum þessa 5 daga!

 

Árans bjúgurinn er eitt af því sem alltaf hrjáir mig eftir fjallgöngur svo ég var búin að greina þetta með mínum lækni þ.e. að ég fæ alltaf svona áreynslubjúg (ég eiginlega sagði honum það, bara greindi mig sjálf). Hann vildi nú ekki samþykkja það fyrr en eftir ýmsar blóðprufur sem skiluðu engum niðurstöðum, þannig að hann leit loks djúpt í augun á mér og sagði „Jóna, þú ert ein af þeim sem fær svona áreynslubjúg! Ég gef þér vatnslosandi til að taka eftir göngur og til að taka með þér í lengri gönguferðir“ . Svo lyfið var einnig komið á sinn stað ásamt að sjálfsögðu tilheyrandi verkjalyfjum „just in case“!

 

Þremur vikum fyrir brottför er ég svo óheppin að fá kvef og í lungun, svo ég fékk einn skammt af sýklalyfi, sem því miður náði ekki að vinna á veikindunum. Svo aftur fór ég til læknisins viku fyrir brottför og sagði ég verð að fá eitthvað sterkt svo ég verði orðin góð eftir 6 daga. Doksi hlýddi gaf mér tvo skammta af svona 3ja daga sterku sýklalyfi og óskaði mér góðrar ferðar...ég tek það fram að þó það líti út eins og ég sé alltaf hjá læknum þá er það nú ekki svo, þetta atvikaðist bara svona.

Brottfarardagurinn rann upp, leiðin lá austur við vissum að ferðafélagarnir voru lagðir af stað ætluðu að gista á Egilsstöðum og við fararstjórinn á Stöðvafirði vopnuð brauðgrilli. Þarna var ég nefnilega búin að þróa með mér krónískt ofnæmi fyrir flatkökum og hangikjöti og búin að átta mig á að grillaðar samlokur með osti geta dugað í fleiri daga án þess að mygla, maður fer nú ekki fram á meira...ha!

 

Áætlunin var að hittast öll á flugvellinum á Egilsstöðum og finna þar farið sem bera átti okkur upp á Eyjabakka á vit nýrra ævintýra! Framundan var ævintýraferð með öllu því fyrirsjáanlega og óvænta sem gera má ráð fyrir með tilheyrandi tilfinninga-rússíbana allra ferðalanga allt frá ofsagleði og orku yfir í örvæntingu og þreytu!!

 

Fall er fararheill

 

Á Stöðvarfirði var vaknað snemma til þess að ná að grilla 14 samlokur og ganga frá nesti sem samanstóð að mestu af pasta og hafragraut, létt að bera, auðvelt að elda. Þetta gekk nú ekki þrautalaust, rafmagnið fór af og þessu þurfti að redda því samlokurnar urðu að grillast!! svo eldsnemma morguns iðaði allt í einu allt af lífi í gamla húsinu á Stöðvarfirði, kallaður var út maður úr nærliggjandi húsi til að redda málunum. Hann mætti á nærunum einum klæða með stírur í augunum og eftir langa mæðu voru þeir fararstjórinn búnir að redda þessu og sagt var við mig með þjósti „jæja. drífðu þig að grilla þessar samlokur þínar“. Ég var nú ekki alveg að skilja þetta því þetta var líka fyrir hann! Við drifum okkur og best er að lýsa þessu eins og þetta hafi verið í teiknimynd...ég man ég hugsaði: ég vona nú bara að við höfum slökkt á öllu, það væri nú eftir öllu að það kviknaði í...!

Þegar við loks vorum komin á Egilsstaði vorum við þrátt fyrir allt nokkuð tímanlega svo við renndum inn á tjaldsvæði þar sem ein hjónin og dóttir þeirra höfðu gist þessa fyrstu nótt. Þá kom í ljós að þeirra vandræði var að sprungið var á bílnum og ekkert varadekk. Eins og hinu var þessu reddað með góðri aðstoð heimamanna.

 

Brunað var út á flugvöll klukkan var að verða 10 en þá áttu allri að vera komnir, en það vantaði þriðju hjónin í ferðina og farið okkar komið. í streitukasti sem allir fundu fyrir, var farið að reyna að hringja í þau og ekkert svar! Loks nokkrum mínútum síðar renndu þau í hlað. Pakkað var í flýti í bílinn sem flytja átti okkur upp á Eyjabakka, allir settust inn vörpuðu öndinni léttar, klukkan alveg á tíma og ævintýrið að hefjast. Eeee, nei! það var nú ekki svo gott að allt væri búið, bílstjórinn keyrir af stað nokkrar kílómetra snarstoppar bílinn og segir „ ég fer ekki lengra fyrr en allir eru búnir að borga“. Svipurinn á okkur öllum hefur örugglega verið sprengfyndið að sjá, og einn maðurinn réttir fram vísakort. Bílstjórinn segir ákveðin „ég tek ekki kort“ bendir og segir „þarna er hraðbanki“. Jæja, eftir fum og fát var þessu nú loks reddað og við yfirgáfum Egilsstaði, með svonna blendnar tilfinningar, en mikið var hlegið að þessu öllu síðar í ferðinni.

 

Ferðin upp á Eyjabakka tók að mig minnir eitthvað um einn til einn og hálfan tíma. Eftir því sem ofar kom sáum við að veðrið var rigning og smá vindur. Loks stoppar bílstjórinn og segir ég fer ekki lengra. Við hrökkluðumst út, affermdum bílinn og ljóst var að ef við ætluðum að gagna af stað og eiga þokkalegan dag þá þurftum við að klæða okkur í regngallana því þvílík var rigningin og rokið. Bíllinn fór þarna stóðum við að mér fannst á berangri þegar ég horfði yfir sandinn og melana eins langt og skyggnið leyfði því það var líka þoka. Ég fann fyrir einhverskonar óöryggi og varnarleysi þarna uppi og ég er viss um að hin hafi fundið fyrir því líka, nema kannski fararstjórinn sem var með allt á hreinu.

 

Við byrjuðum á að reyna að koma okkur í regngallana, þegar ég var að troða mér í regnbuxurnar sem eitt sinn höfðu passað mér svo vel varð mér ljóst að ég hafði greinilega vaxið aðeins, og ég bölvaði í hljóði. Einn mannanna var svo í allt of stórum buxum að hann tókst næstum á loft í vindinum grínaðist með það í einhverri taugaveiklun að við ættum kannski að skipta um buxur? Mér var sko ekki skemmt, sagði ekki neitt en hugsaði honum þegjandi þörfina!

Jæja, allir komnir í tilheyrandi útbúnað í samræmi við veður, bakpokar á bakið, búnir að raða sér upp í beinni röð eins og hreindýr fyrir framan fararstjórann og svipurinn sagði: Og hvað svo...þú ert leiðsögumaðurinn...í hvaða átt eigum við að labba? ...það er nú doldið kalt hérna, sko!

 

Yfir Eyjabakka

 

Áður en lengra er haldið ætla ég aðeins að gera grein fyrir ferðafélögum mínum. Ég er búin að nefna að í för voru tvenn önnur hjón á sextugsaldri og dóttir annarra þeirra. Það má eiginlega segja að ekki væri til ólíkara fólk en við sem í þessum hóp voru. Einn maðurinn er þjóðþekktur, ljós yfirlitum, oftast þungur á brún og stór og mikill að velli, svo ég mun kalla hann „ Hinn Stóri“. Í daglegu amstri er þetta maður sem hefur sterkar skoðanir og vill hafa síðasta orðið, en í þessum óbyggðaraðstæðum virtist hann setja allt traust sitt á fararstjórann og var hlýðin eins og vel uppalið barn. Kona hans var alger andstæða, hnellin, pínulítil, grönn og dökk yfirlitum. Hvorugt er vant fjallafólk, „Hinn Stóri“ bar mest allan þeirra farangur í risastórum bakpoka og hún trítlaði með lítinn dagpoka á eftir honum, ég mun kalla hana „Hin Litla“. Saman eiga þau dótturina sem var með í för. Hún var með sítt ljóst hár sem glóði eins og gull í sólinni eða stirndi á eins og silfur í kvöldskímunni. Hún er lítil og grönn afar falleg og með svo stór dökk blá augu að þegar maður horfði í þau var eins og að litið væri í tæra tjörn. Úr augum hennar skein viðkvæmni og góðmennska. Hún er mikil göngukona, leið um og hreyfði sig eins og álfur, alveg þindarlaus...svo ég mun kalla hana „Álfamærin“.  Af og til í göngunni stoppaði hún settist dró fram litla stílabók og skrifaði eitthvað í hana, algerlega í sínum eigin heim, alveg yndislegt sjá og ég stóð sjálfa mig að því að hugsa: Ég vildi að ég hefði þessa innri ró og yfirvegun. Einnig velti ég  því oft fyrir mér hvernig hún gæti verið dóttir þeirra hjóna, svo ólík er hún foreldrum sínum. Hin hjónin er þokkalega reynt fjallafólk, maðurinn meðalmaður á hæð, hárið hvítt sem hann huldi allan tímann með leðurhatti, ég hugsaði stundum um hvort honum væri ekki heitt með hann? Hann var léttur í lund, dálítið markalaus og fór stundum fram úr sér með svona neðanmittis-brandara, ég kalla hann hér  „Hinn Hvíti“. Kona hans er einnig meðalkona af stærð, hafði góða nærveru, sterk og úrræða góð. Dugleg var hún að taka til hendinni, sagði lítið að fyrra bragði en hló hátt og mikið að neðanmittis bröndurum mannsins síns. Maður á jú, að styðja manninn sinn ekki satt? Fararstjórinn er er þaulvanur og margir þekkja hann, mig þekkið þið minna nema sögurnar mínar af útivist, þar sem ég lýsi sjálfri mér á þann hátt að ég vill vera sjálfstæð og er mikil dramadrottning. Ég virðist alltaf meta aðstæður í göngum út frá tilfinningum og hegða mér svo í samræmi við það, tek svo ákvörðun um hvort það hafi verið rétt eða rangt, í stað þess að nota stundum rökhugsun og almenna skynsemi....sem getur komið sér stundum vel!

Eftir að fararstjórinn var búin að taka stöðuna með áttavita og korti sagði hann ákveðin „við göngum af stað í þessa átt“. Þar með var gangan langa hafin með hann í fararbroddi. Eins og áður sagði var rigning og rok sem við gengum með beint í fangið í byrjun. Eftir ca 1 og ½  til 2ja tíma göngu á jöfnum gönguhraða yfir mela og móa fór veðrið að lægja. Á þessum tíma hafði fararstjórinn reglulega stoppað og tekið stöðuna með áttavitanum og kortinu þar sem dularfull þoka hafði legið yfir. Ég skildi vel að það þyrfti að vera með trakkið á hreinu en velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum hann tæki ekki upp tækið og notaði það? Svo laust allt í einu sú hugsun að mér að hann hefði  kannski gleymt tækinu. úps! Við stoppuðum svo ég náði að spyrja svo lítið bæri á hvort það gæti verið? Ég fékk þau svör að kortið og áttavitinn væru miklu öruggari þarna uppi, tækið væri með í för en væri notað bara auka. Ok, þarna og tala nú ekki um eftir ferðina. rann upp fyrir mér allt í einu að áttaviti og kort eru málið enda búið að nota það í fleiri aldir og GPS tæki er skemmtilegt dót með tilliti til hinna ýmsu mælinga. Ég fylltist öryggi því ég vissi að fararstjórinn var með þetta allt á hreinu.

 

Veðrið lagaðist smátt og smátt, rigningin hætti og þokunni létti, við vorum komin með útsýni. Svo langt sem augað eygði var endalaus jafnslétta mela og móa í fjarska mátti sá glitta í vötn hér og þar og á hægri hönd var Snæfellið komið í ljós. Svo sannarlega var tilfinningin að vera staddur í einskismannslandi upp á örævum. Það læddist að mér hugsanir um forfeður okkar sem höfðu farið áður þessa leið gangandi eða ríðandi á hestum í hinum ýmsu erindagjörðum, sumir til að færa sig milli staða í von um vinnu og skjól aðrir í vígahug. Ég gat fundið dulúðina á þessu ósnortna landi (reyndi allt hvað af tók að gleyma Kárahnjúkavirkjun í nokkurra km fjarlægð).

 

Það var léttara yfir mannskapnum og fólk farið að segja sögur og brandara á léttum nótum. Við nestuðum okkur tókum stöðuna, fórum úr regngallanum sem ég var guðs lifandi fegin, þar sem mér leið eins og rússneskum ballettdansara í svona allt of litlum buxum. Áfram var haldið loftið var kalt og áfram var vindurinn í fangið. Ég fann hvernig sveið í lungun og vonaði svo sannarlega að þetta hefði nú ekki þau áhrif að ég yrði aftur veik og sem myndi þá eyðileggja ferðina mína. Í stuttu máli varðandi erfiðleika stig göngu þessa dags þá er þetta tiltölulega jafnt undir fót, smá hæðir og lægðir ekkert til að tala um, við þurftum að krækja fyrir díamó á sumum stöðum. Ég fann að ég var orðin blaut í fæturna. Þrátt fyrir að umhverfið væri dálítið einsleitt var ævintýraljómi yfir því t.d. gegnum við nokkrum sinnum fram á hreindýrahjarðir alla vega þrisvar, það var afar tilkomumikið að sjá. Stefnan var á fyrsta fjallakofann sem eftir því sem leið á daginn var alltaf eftirsóknarlegra að ná. Ég fann hvernig hóstinn og höfuðverkurinn ágerðist hjá mér og mér var þungt fyrir brjóstinu, en ég gerði mitt besta að bera mig vel. Fleiri í hópnum voru orðnir langeygðir eftir kofanum og þegar þreyta gerir vart við sig eftir upplifun bæði streitu og gleði tilfinninga frá því um morguninn, gerist það sem vill oft verða það bætast við nýir fararstjórar. Hinn Hvíti, velti fyrir sér hvort það ætti ekki að fara þessa leið en ekki hina, Hin litla tók þá af skarið og sagði af mikilli festu: Við látum fararstjórann um þetta...svo Hinn Hvíti sagði ekki meir. Áfram var haldið...ég fann að það dró alltaf meira og meira af mér og vissi að ekki bara veikindin heldur líka sýklalyfin væru ekki að gera mér gott þarna, svo ég þráði það eitt að komast í kofan. Eitt var það sem hafði angrað mig áður en við fórum af stað þ.e. að fólkið mitt segir að ég hrjóti, og þegar mér takist best upp sé ég eins og loftpressa....! Ég er nú á annarri skoðun þ.e. bara sú staðreynd að konur hrjóta ekki, þær anda djúpt og vanda sig. En þetta angraði mig samt hálf kveið fyrir að sofa með öllu fólkinu í kofa, heyra svo að ég hafi kannski haldið vöku fyrir einhverjum með hrotum. Ég var líka illa brennd því árið áður höfðum við maðurinn verið í kofa í Þórsmörk ásamt öðrum þá vakti hann mig um miðja nótt sagði mig hrjóta svo aðrir svæfu ekki...þetta hafði auðvitað þau áhrif að ég svaf ekki það sem eftir var nætur og var verulega illa upplögð til göngu daginn eftir. Svo um þetta snérust líka hugsanir mínar þennan fyrsta dag á göngu í Örævum...bannsettur aðsteðjandi vandi, vonandi voru bara allir með eyrnatappa!

 

Loksins kom kofinn í ljós „fyrirheitna landið“ eftir að mig minnir 8 tíma göngu og upplifun á öllum blæbrigðum íslensks veðurfars var það kærkomið, þar sem nú var farið að rigna aftur. Með gleði í hjarta og fögnuð yfir að fyrsta áfanga virtist vera náð greikkuðum við sporið...þá sáum við það! Til þess að komast í kofann þurfti að fara yfir straumharða á sem virtist vera í ham eftir rigninguna. Ég andvarpaði setti undir mig hausinn elti hina niður að ánni, þar sem farið var að skoða hvar væri best að fara? Eins og ég hef áður sagt, læt ég of oft tilfinningar og líðan ráða svo ég tók þá ákvörðun að fara bara yfir beint undir þar sem ég taldi að kofinn væri. Hin fikruðu sig neðar til að finna betra vað. Það skiptir engum togum um það en ég snara af mér gönguskónum klæddi mig í Teva vaðskóna og lét vaða treystandi á að þetta myndi heppnast með stafina mína að vopni. Yfir komst ég við illan leik og mun neðar sá ég hvar hin voru að koma sér yfir. Vegna óskaplegrar þrá eftir að fá að leggjast ákvað ég að vera nú ekki að skipta um skó heldur koma mér upp á brún og ganga á vaðskónum síðustu metrana að kofanum. Það var illfært upp ég datt á hnén steinar meiddu mig í skónum en ég komst að lokum upp. Fyrir framan mig var kofinn ég skjögraði eins og gamalmenni styðjandi mig við stafina mína með gönguskóna hangandi um hálsinn í átt að kofanum. Þegar ég kom þangað var fararstjórinn búin að opna hann. Ég komst inn fór beint að fyrstu kojuna sem ég sá, það eina sem ég gat gert eftir eitt hrikalegt hóstakast var að taka af mér bakpokann ná í svefnpokann og dúnúlpuna mína, koma mér úr blautu fötunum og leggjast fyrir. Þessu var ég búin að áður en síðasti maður kom inn. Ég skalf úr kulda en fann hvernig ég seig inn í algleymið...af og til heyrði ég mannamál, ég heyrði að fararstjórinn útskýrði fyrri veikindi mín fyrir hinum, hann og Hinn Stóri stumruðu yfir mér og reyndu að fá mig til að borða. Af og til þetta kvöld og um nóttina kom ég til sjálfrar mín og heyrði þá óminn af röddum þeirra, ég heyrði hvernig rok og rigning barði kofann svo í honum brakaði og brast. Einhvern tíman heyrði ég líka talað annað tungumál en íslensku þ.e. ensku, ég man ég hugsaði hver er þetta við erum bara ein í skálanum áður en algleymið gleypti mig aftur. Daginn eftir fékk ég svo að heyra um ævintýri næturinnar sem ég missti af...þar sem Álfamærin hafði farið fremst meðal jafningja.... !

 

Frá skálanum í Geldingafelli yfir í Egilssel - morguninn

 

Daginn eftir vaknaði ég fyrst af hópnum, ég teygði úr mér fann að það var hálf kalt í skálanum því eldurinn í kamínunni var löngu slokknaður. Mér til mikillar furðu þá leið mér bara vel svona líkt og hlemmur hafi verið tekin af bæði höfðinu og brjóstinu, það var eins svefninn hefði lagað allt. Ég heyrði að hin voru sofandi bæði lágar hrotur og snörl, það laust niður í huga mér „shit“ ætli ég hafi hrotið mikið? Jæja, það verður þá að hafa það en út verð ég að fara því ég er í spreng. Ég smeygði mér hljóðlega úr svefnpokanum skimaði eftir skónum mínum sem ég sá að stóðu við kamínuna, elskulegur maðurinn minn hafði stillt þeim þar upp til þess að þurrka þá þar sem þeir voru rennandi blautir eftir gönguna í gær. Ég greip með mér snyrtikittið og fór út eins hljóðlega og ég gat. Úti var yndislegt veður ég leit á klukkuna hún var um sjö, þegar ég var búin að fara afsíðis (því á kamar fer ég aldrei í svona ferðum, í engum erindum) settist ég við kofavegginn og dró upp ferðaspegilinn. Það var ekki fögur sjón sem mætti mér í speglinum, við mér blasti mynd af bólgnum grænlending þ.e. ég var svo þrútin í framan að nefið féll að kinnunum og augun voru eins og örlítil svört strik og ekki hjálpaði klíndi maskarinn frá því daginn áður til. Ég reyndi að laga mig til og lappa upp á þetta með því að strjúka framan úr mér með blautþurrkum glenna upp augun og maskara mig á nýjan leik. Í gegnum hugann fór setningin „as good as it gets“ þetta hlyti að lagast er líða færi á daginn með hjálp minna fínu vatnslosandi lyfja.  Það var gott að sitja þarna í kyrrðinni og horfa á útsýnið þ.e. hrjóstrugt landið svo langt sem augað eygði og ég heyrði niðinn í ánni sem virtist í við rólegri enn í daginn áður. Mér fannst ég sjá einhverja hrúgu sem gæti verið grænt tjald með steinum út um allt. Tjald? Nei, þetta gat ekki verið tjald eða efni þetta hlut að vera mosaþúfa, ég hallaði mér einu sinni enn aftur dró andann djúpt umm....hreint loft, áður en ég stóð upp og fór aftur inn í kofan, fersk og fín.

 

Þegar ég opnaði dyrnar á kofanum var eins og ég hefði gengið á vegg, það var alveg ljóst að einhver ferðafélaginn hafði verið með harðfisk (eða ég vonaði það) og verið að gæða sér á því en gleymt að loka pokanum. Fýlan sem skall á mér (sem ég hafði ekki fundið meðan ég lá í kojunni ) var alveg hrikaleg, það var alveg eins og það væri þarna einhver með alveg hrikalega þvagfærasýkingu. Við bröltið í mér hafði ég náð að vekja liðið þannig að við vorum öll komin upp um átta. Loftað var út morgunmatur og kaffi, ég tjáði fólki að ég væri bara nokkuð góð og til í allt. Allir voru svo glaðir með þetta góða veður sem kom í kjölfarið á storminum um nóttina að það kjaftaði á öllum hver tuska, allir að segja sögur og tala um daginn framundan.

Þá verður mér á að segja „Ég held að ég sé nú eitthvað biluð svona getur þetta landslag blekkt augað, mér sýndist ég sjá lítið grænt tjald fyrir utan kofan okkar“. Allt í einu varð dauðaþögn og allir litu hvert á annað, ég var alveg undrandi og sagði“hvað“? Þau spruttu upp og hlupu út úr kofanum og spurðu hvar? hvar?..í undrun minni benti ég þeim á staðin sem græna hrúgaldið lá. Jesús minn  sögðu bæði Hin Litla og Ljúfa kona Hins Hvíta og tóku fyrir munn sér. Þá hefur Álfamærin upp rödd sína og segir með afar vandlátum en skilningsríkum tón „þeim var nær“  og „það er nú bara svoleiðis að það á alltaf að fara eftir reglum, þeir hefðu alveg getað gist hér inni ef þeir hefðu borgað!“

 

Mér varð á að segja „ætlið þið að segja mér að það séu menn undir þessu hrúgaldi og steinum“? Og ég fékk að heyra alla söguna. Upp úr miðnætti þegar ferðafélagar mínir voru að fara að taka á sig náðir er hurðin á kofanum rifin upp og inn fjúka tveir erlendir ferðamenn. Þeir gerðu sig líklega til að finna sér svefnstað sem ekki hefði verið flókið því nóg var plássið. Sá Hvíti og konan hans Ljúfa spyrja mennina að því hvort þeir séu búnir að borga fyrir skálann? Eftir langa mæðu kemur það þá í ljós að svo var ekki. Sá Stóri tilkynnir þeim þá að þeir verði að greiða og þeim bent á þar til gert umslag sem þeir gætu skilið eftir ákveðna upphæð. Þeir töldu sig ekki vera með pening og gætu bara ekki hugsað sér að sofa úti í þessu óveðri. Enga miskunn var að fá hjá félögum mínum og eftir talsvert þref stendur Álfamærin upp tekur í hendur mannanna horfir með stórum bláum augum sínum á þá og sagði víst: „þið skuluð breyta rétt og fara út og sofa í tjaldinu ykkar“. Eins og dæmdir og dáleiddir höfðu þeir þá snúist á hæl og horfið út í myrkrið.

 

Við flýttum okkur að taka saman og ganga frá reima á okkur skóna koma okkur af stað...við horfðum með hrylling á hrúgaldið á leiðinni frá skálanum og vorum stöðugt að líta um öxl í þeirri von um að verða vör við eitthvert lífsmark, en allt var hljótt!

 

Frá skálanum í Geldingafelli yfir í Egilssel 20 km

 

Áfram héldum við  staðan með áttavitanum og kortinu tekin reglulega. Veðrið var gott, þó ekkert stuttermaveður enda vorum við lengst uppá öræfum og nálægt öræfajökli. Nú var frekar stórgrýtt undir fót ekki mikil hækkun í byrjun bara svona upp og niður. Fjöll og toppa jökla sáum við í fjarska þarna voru engar stikur eða  önnur merki um mannaferðir svo tilfinningin var en til staðar að vera staddur í einskismannslandi.

 

Eftir u.þ.b.  3ja til 4ra tíma göngu og nokkra km að baki stoppuðum við til að borða og taka stöðuna. Sá Stóri dró upp Nóakropp poka og var duglegur að bjóða öllum upp á nammi. Nú var spurningin hvort ætti að ganga fjallgarðinn í átt að Egilsseli með því að halda hæðinni og þá líklega í kaldara lofti og gróðurlausara eða sveigja niður á við og ganga meðfram jökulsánni. Fólk var almennt á þeirri skoðun að halda hæðinni og ég velti fyrir mér hvort fólk væri farið að finna til þreytu? Sjálf var ég góð þrátt fyrir smá hóstaköst af og til. Ekki var meira rætt um atburði næturinnar en ég sá að Álfamærin dró sig út úr hópnum með sínum tignarleik tyllti sér á stórann stein (sem ég átti allt eins von á að hún hyrfi inní) og skrifaði í litlu bókina sína. Ég velti fyrir mér um hvað hún væri að skrifa og mundi þá hennar hlutverk í atburðum næturinnar, gæti það verið að þessi ljúfa yndislega fallega Álfamær leyndi en frekar á sér?

 

Jæja, áfram var haldið nú upp í mót eftir ca klukkustundar göngu  beygðum við fram hjá jökulsporðinum. Skriðjökullinn heillaði mig gjörsamlega en hræddi mig í senn...ég fann undarlega tilfinningu bærast í mér, mig langaði gjörsamlega að taka U beygju og labba upp jökultunguna (þennan draum fékk ég svo uppfylltan ári síðar er við gegnum Lónsöræfi frá Snæfelli).  Þetta var eitthvað svo magnað og kallaði á mig að ég get ekki gleymt þessari tilfinningu, yfirþyrmandi náttúruöflin skriðjökull á eina hönd, steinar, sandur og auðn þar við hliðina á aðra hönd beljandi jökulsáin og grænar hlíðar fjallgarðsins þar á móti.

Eftir stopp og stöðutöku, var haldið áfram inn fjallshlíðina ferðafélagarnir vildu með engu móti lækka hæðina frekar að hækka þannig að við vorum að ganga í ca 200 metra hæð frá bökkum jökulsá ef ekki hærra. Eins og gerist á Ísl. þá skipast veður fljótt í lofti. Það fór að blása svo við bættum við fötum engin var að drepast úr kulda eða neitt þannig við vorum með réttu græjurnar. Eftir labb um nokkra stund heyri ég kallað í gegnum vindinn við ætlum að stoppa við stóru steinana hér framundan. Þessum áningastað er best lýst eins og staðnum Vindhamar í Lord of the ring. Stór björg sem mynduðu svona hring, við gengum nánast allan hringinn til þess að finna besta skjólið. Staðan var tekin, Hinn Stóri var líka með GPS tæki og var að velta fyrir sér mælingum á tækinu með fararstjóranum. Allt í einu fór að snjóa og það dimmdi yfir, við klæddum okkur  en betur og gátum grínast með það að nú værum við búin að fá allan veðurpakkann og fyrir allan peninginn líka! Sú Litla var orðin þreytt og lét það óspart í ljós með pirring út í það að við værum örugglega vilt ef tækin sem ferðafélagarnir voru að skoða væru ekki að sýna sömu mælingar. Fararstjórinn róaði hana og sagði henni að hann hefði hingað til bara notað réttu græjurnar og við værum á hárréttri leið en nú myndum við lækka okkur og þar með komast í betra veður, hún róaðist. Ég hugsaði um þetta landslag og krafturinn í jöklinum togaði, ég reyndi að sjá staðin sem við vorum á áður í fjarska, en við vorum komin of langt til að nokkuð sæist í jökulsporðinn.

 

Áfram héldum við og nú lá leiðin niður á við, mín eigin reynsla af fjallgöngum og sjá til annarra er sú að þegar farið er að reka tærnar í og hnjóta er þreytan farin að segja til sín. Fararstjórinn var fremstur með forskot á eftir honum gekk Álfamærin, ég og Hinn stóri vorum nær samsíða ég þó aðeins fyrir aftan hann, Hinn Hvíti, Ljúfa og Hin Litla ráku svo lestina. Ég tók eftir því að Hinn Stóri var að hnjóta um og augljóst var að hann var þreyttur, enda ekki skrýtið hugsaði ég með öruggleg u.þ.b. 30-40 kg á bakinu því hann var að bera tvo, svona stór maður þolir örugglega ekki svona mikið þó hann sé stór. Minn eigin poki var um 23 kg. og fannst mér það nú í það mesta.

 

Allt í einu sé ég hvernig hann hnýtur um fer í ótrúlega flottan kuðung og veltur tvo kornhnísa...ég hraðaði mér til hans og ætlaði að hjálpa honum því ég gat ekki ímyndað mér annað en hann hefði meitt sig, en þá var hann staðin upp. Ég spurði hvort hann finnidi til einhversstaðar, þá brást hann reiður við og sagði með þjósti „það er ekkert að mér“ og haltraði áfram. Ég hugsaði með mér „vá“ hversu hrokafullur getur maður verið að geta ekki bara svarað eins og maður og viðurkennt að vera þreyttur og finna til!! Við náðum fararstjóranum þá kom í ljós að Hinn Stóri hafði týnt GPS tækinu sínu. Fararstjórinn sagði við snúum við og náum í það..þreytulega sagði sá stóri þá „nei, það er bara farið“ og ég gerði mér enn betur grein fyrir hversu þreyttur hann hlyti að vera og fyrirgaf honum þjösnaskapinn. Sem betur fer kom svo í ljós að kona hans hafði tekið tækið er við yfirgáfum Vindhamar.

Eftir því sem við lækkuðum okkur hitnaði í veðri og viti menn það koma sól! Við gengum inn í grasigrónar brekkur fjallsins og við fararstjórinn  vildum endilega leggja frá okkur bakpokana og ganga niður að bakka jökulsárinnar, bara til að sjá hrikalegt gljúfrið. Ferðafélagarnir vildu það alls ekki en buðust góðfúslega til að bíða ef við vildum fara sem við gerðum. Fötum var fækkað og við fararstjóri hlupum við fót og á hvað römbuðum við? Jú, alveg hrikalegan foss sem var svo stór eða segir maður langur að ómögulegt var að sjá bæði upphaf hans og endi. Ég skreið fram á brúnina horfði niður í ginið á ófreskjunni (fossinum), stórkostlegt!! Fararstjórinn vissi ekki um nafn á þessu ferlíki skoðaði kort og fl. og sagði „það er bara ekkert um þennan foss“. Ok, sagði ég þá skírum við hann bara Jónufoss því ég fann hann á undan þér“, ég veit reyndar ekki til þess að þetta nafn hafi fests við hann. Við flýttum okkur til baka til þess að segja hinum frá og fá þau til að koma með okkur aftur niður að gljúfrinu...en nei þau afþökkuðu það öll og lágu makindalega í sólbaði. Ég var svo sveitt að það rann af mér eftir þessi hlaup svo stopp og stöðutaka var kærkomin.

 

Áfram héldum við og komum að ármótum sem þurfti að fara yfir eftir voru ca 2 km. Ég var orðin þreytt og hrikalega sveitt eins og við öll að sjálfsögðu,  og ég ákvað eins og venjulega að reyna að fara létt út úr hlutunum og fara bara yfir þar sem ég koma að, sem og ég gerði. Það tókst, ferðafélagana sá ég hvergi er ég skimaði eftir þeim, hinum megin við árbakkann. Þegar ég var að klæða mig aftur í gönguskóna sá ég að það var eitthvað bogið við þá!! Fóðrið í öðrum þeirra var sviðið og hafði skriðið saman eins og bráðið plast. Hvað hafði eiginlega gerst?? Annað sá ég líka að framan á tánum á báðum skónum voru mosatuttlur! Ég skoðaði þetta betur og sá þá að gúmmíið á skónum var flagnað frá svo nú voru framan á skónum tvær litlar skóflur...dem, hvað er í gangi hugsaði ég það er eins og þeir hafi bráðnað! Þá mundi ég að ég hafði fundið skóna mína um morguninn þétt við kamínuna vegna góðmennsku mannsins míns sem greinilega hafði bakað blessaða skóna. Ég andvarpaði klæddi mig og gekk af stað. Þá sé ég kvenferðafélagana koma gangandi niður fjallshlíðina sem sögðu mér stoltar að þær hefðu komist yfir á snjóhengju aðeins ofar og ekki þurft að vaða. Ég sagði „óheppnar þið, það var mjög gott að fríska sig og fá sér fótabað“ en sleppti að segja frá að þetta hefði ekki verið það auðveldasta og svekkelsið með skóna. Karlarnir fóru yfir ármótin aðeins neðar.

Það sem eftir var ferðar að Egilsseli var ganga yfir grasigróna leið, nokkuð auðvelt. Loksins um áttaleitið birtist einn fallegasti staður landsins þ.e. Egilssel! Skálinn stóð svo fallegur í sumar kvöldsólinni við gríðarlega fallegt og friðsælt vatn, maður varð næstum klökkur að sjá þetta eftir langan og viðburðarríkan dag. Við gengum fram hjá vatninu síðasta spölinn, ég sá að vatnið var hreint og tært og fann gríðarlega löngun til þess að rífa mig úr og stökkva út í það. Þegar í skálann kom byrjuðum við að koma okkur fyrir allir léttir í lund og einhvernvegin afþreyttust bara við að komast á þennan leiðarenda. Löngunin til að henda sér í vatnið og skola svitastrokinn líkamann yfirgaf mig ekki. Svo eftir að hafa komið mér fyrir, taka til snyrtikittið sagði ég ferðafélögum mínum að nú ætlaði ég að baða mig í vatninu...ég lagði af stað byrjaði að hlaupa og klæða mig úr, því eftirvæntingin var svo mikil að komast í bað að þetta leit út eins og í hinni bestu dömubindis – auglýsingu. Ekki frekar en áður hugsa ég áður en ég framkvæmi, heldur stefni ég bara beint á vatnið fyrir framan skálann fyrir allra augum, er ég orðin alsber vaðandi út í vatnið. Ég heyrði allt í einu hróp og köll og heljarinnar hlátur og ég sé að fararstjórinn kemur á harðahlaupum í áttina að mér svo ég sný mér við og fatta þá hvað ég hafði gert! Mér brá svo að ég henti mér á kaf í ískalt vatnið. Það er skemmst frá því að segja að ferðafélagar mínir fóru nú að dæmi mínu þ.e. skelltu sér í bað á afviknari stað.

Um kvöldið þegar ég var að fara að sofa „hein og södd“ flugu margar hugsanir í gegnum hugann. Þessi stórkostlega gönguleið úr hrjóstrugu landslagi einskismannslands yfir í gróður mildara umhverfi. Áður en ég sveif inn í draumalandið var síðasta hugsunin sú að ég var ákveðin í að næsta ferð yrði yfir jökulinn!!

Daginn eftir sá ég eitt best geymda leyndarmál á Ísl. Andi fortíðar, dulúð og örlög sveimuðu yfir allt...

 

Víðidalur

 

Morguninn eftir leyfðum við okkur að drolla og lúra lengur, því dagurinn átti að fara í að ganga yfir í afskektan dal sem ber nefnið Víðidalur. Þar hafði verið búið á öldum áður og síðustu ábúendur horfið í byrjun 20. aldar. Gista átti tvær nætur í þessum skála sem var öllu stærri og flottari en skálinn sem við höfðum gist í fyrstu nóttina. Við vorum heppinn því við vorum ein í skálanum báðar næturnar svo við gátum dreift vel úr okkur, sem betur fer varð engin uppákoma með erlenda ferðamenn í Egilsseli. Kvöldið áður voru rifjaðar upp sögur úr Víðidal og mér varð afar hugleikin sagan af fólkinu sem flúði í Víðidal vegna örbyggðar eða smán eða bara bæði, ég veit ekki ...og settust þar að byggðu bú og eignuðust þar dóttur. Um vetur féll snjóflóð yfir bæinn þeirra sem að mig minnir hreif hann að mestu með sér sem og bóndann og búfé þeirra. Unga húsfreyjan og litla dóttir þeirra komust af og lokuðust inni í búrinu. Þar höfðust þær við í nokkra daga án þess að vita nokkuð um afdrif mannsins, þær reyndu að grafa sig út og loks kom prestur frá Geithellnadal sem vissi af fjölskyldunni til að kanna aðstæður eftir óveðrið og bjargaði þeim. Annars held ég að lítið hafi verið um mannaferðir í dalinn. Ég held að sagan hafi verið eitthvað á þessa leið allavega í mínum huga. Næstu ábúendur í Víðidal byggðu ekki upp sitt bú á rústum bæjarins heldur töluvert fjær til að forðast svona hættu. En rústir beggja bæja er hægt að sjá.

 

Við komum okkur loks á fætur borðuðum, Sá Stóri bauð upp á Nóakropp með kaffinu. Eftir að hafa tekið til nesti fyrir daginn var lagt af stað. Karlarnir báru nú létta bakpoka og við kvenpeningurinn vorum fríar, það var gott að vera pokalaus en drykkinn minn hafði ég í vasanum því ég þarf alltaf að vera að drekka eins og áður sagði. Veðrið var gott svona peysuveður og smá vindur.

 

Þegar við vorum búin að ganga í ca 45 mín yfir mela komum við að brún þar sem við tók aflíðandi brekka niður í dalinn. Þvílíkar breytingar á landslagi við okkur blasti íðilfagur dökkgrænn dalur, þetta var eins og vin í eyðimörk. Við byrjuðum á að fikra okkur niður brekkuna þar sem hægt var að sjá krækiberjalyng, engin ber voru þó orðin þroskuð bara grænjaxlar enda bara júlí. Við komum niður við ofboðslega fallegan foss sem steyptist niður svart bergið og ég gat ímyndað mér að þar sem hann kom niður væri vel hægt að leggjast og baða sig. Ég sá fyrir mér fyrri ábúendur Víðidals fara þangað í þeim erindum  standandi undir fossinum og teyga hendur sínar til himins, þvílík rómantík! Mér var kippt harkalega út úr þessum hugsunum  mínum þegar ég sá að fararstjórinn og Álfamærin gerðu sig líkleg til þess að klifra upp bergið við hliðina á fossinum. Fyrst fór fararstjórinn og komst upp eftir að hafa farið varlega til að finna örugga fótfestu, allt í einum stóða hann aftur uppi og veifaði til okkar skellihlæjandi og kom niður. Nú var komið að því að Álfamærin reyndi sig, faðir hennar Hinn Stóri ætlaði að standa nálægt ef eitthvað kæmi uppá þá gæti hann gripið hana. Það fór í gegnum huga mér Tröllið og Álfurinn og alls ekki fjarri lagi. En auðvitað sveif hún upp bergið snöggt og áreynslulaust og kom til baka rjóð í andliti, ljómandi af gleði og ánægju.

 

Frá því að við lögðum upp frá fyrsta degi hefur ekkert verið á vegi okkar sem minnti á mannaferðir, nema að sjálfsögðu skálarnir. Þarna var í fyrsta sinn sem gert var ráð fyrir umferð manna. Þegar við höfðum gengið um stund meðfram ánni sáum við hvar á bakkanum hinum megin var upprúllað reipi fast við staur og okkar megin var einnig staur í jörðu svo ætla má að til þess að hjálpa ferðamönnum yfir ánna var að strengja reipið milli stauranna svo hægt væri að halda sér í. Fararstjórinn segir:“ ég fer yfir og næ í reipið“. Eftir að hafa metið aðstæður á þann hátt að áin væri dýpri en upp að hné snaraði hann sér úr buxunum og skónum í vaðskó og lagði af stað þegar hann var komin í miðja á, sem er kannski um 10-15 m á breidd (eða lengri) sáum við að hún náði honum upp að rass. Yfir fór hann og kom með reipið batt á milli og sagði:“jæja, þá er þetta tilbúið“. Ég byrjaði að rífa mig úr, en hinum ferðafélögum mínum leist ekkert á þetta. „gæti ekki vera betra að ganga aðeins lengra niður eftir ánni og finna annan stað?“ Spurði Ljúfa og hin tóku undir það. Fararstjórinn sagði að það gæti allt eins verið svo þau ákváðu að ganga af stað. Ég stóð á bakkanum komin úr öllu nema nærbuxunum og sagði:“ég nenni þessu ekki ég ætla sko hér yfir, þó maður blotni smá!“ En ég hugsaði mér líka gott til glóðarinnar að ef þau færu gæti ég líka farið úr naríunum og þar með sloppið við að vökna. Fararstjórinn var þegar farin yfir með helminginn af sínu dóti svo við óðum út í, það var ekkert rosalega kalt en áin náði mér upp á rass. Mér þótti þetta bara frískandi, við þurrkuðum okkur í sólinni sem nú skein allt sem af tók.  Áfram héldum við, í fjarska sáum við ferðafélagana. Þegar í dalinn kom horfði ég á endalausa breiðu af grænu grasi og grónu landi ekki skrýtið að hér hafi fólk getað búið vel í þessum gríðarlega fallega dal. Það var ótrúlegt að hugsa til þess að þessi staður væri upp á öræfum í einskismannslandi, þvílíkar andstæður!

 

Við vorum á undan ferðafélögunum að rústum bæjarstæðanna. Ég gekk um reyndi að gera mér grein fyrir hvernig bæirnir hefðu snúið, sérstaklega bærinn þar sem harmfarir náttúrunnar hafði dunið á litlu fjölskylduna. Ég lagðist í grasið fann ilminn af því, heit sólin bakaði andlitið og handleggi og ég hlustaði...mér fannst ég heyra í lítilli hrokkinhærðri stúlku sem hljóp berfætt í kringum móður sína sem var að hengja upp nýþvegin þvott og hló glettnislega að leik barnsins. Konan snýr sér við, svo mittissítt ljósbrúnt hárið sveiflast í fallegum boga og veifar til mansins síns.  Hann kemur gangandi yfir túnið tekur hana í fang sér og snýr henni í hringi og þau horfast í augu með ást og kátínu í augunum...hugsanirnar fara lengra, það er komin vetur það er kalt og gríðarlega mikill snjór óblíð öræfin kalla!! Þau eru hrædd. Hann segir þeim að bíða í eldhúsinu því hann þarf að gæta að búfénu, þá gerist það...ógnarhávaði snjóflóðið fellur, bang! Mæðgurnar lokast inni barnið kjökrar og móðirin reynir að hugga með brjóstið þungt af örvæntingu og sorg.....ég fæ kökk í hálsinn... “HALLÓ, HALLÓ, hvar eru þið?“ Hvell rödd Hins Hvíta rífur mig upp úr hugsunum mínum, andskotans læti eru þetta „moment breaker“.

 

Við stoppuðum lengi gengum um reyndum að finna brunnin sem grafin var einhversstaðar, töluðum um sögurnar tylltum okkur svo upp við barð og ákváðum að nesta okkur. Við sátum um stund létum sólina baka okkur, Hinn Hvíti var eitthvað órólegur var alltaf að standa upp og talaði óskaplega mikið. Allt í einu stekkur hann að mér hefur upp göngustafinn sinn og rekur hann í barðið við hliðina á mér. Ég æpti og henti mér frá, hvað var að manninum?? Það sem hann hafði gert var að stinga stafnum sínum í stórt geitungabú sem ég sat við hliðina á en hafði ekki tekið eftir. Út flugu ótal geitungar...ég gargaði og öskraði og hljóp í burtu eins og fætur toguðu. Allir hlógu virtust skemmta sér konunglega yfir þessu öllu saman. Ég varð reið og pirruð yfir þessu markaleysi hjá manninum, hann hefði kannski getað varað mig við, fjandans asni!

 

Við gengum lengra inn dalinn áður en við snérum við til skálans, ferðafélagarnir vildu fara sömu leið yfir ána og þau komu, svo leiðir skildu. Ég var fegin. Þegar við komum að ánni þar sem við maðurinn minn höfðum komið yfir, datt mér allt í einu í hug þessi rómantíska hugmynd hvort það væri ekki gaman ef við myndum baða okkur í ánni, við værum hvort sem er ein og yrðum það um stund. Ég sá fyrri mér atriðið úr myndinni „The blue lagoon“ þar sem þau syntu svo glöð og ástfangin í lóninu. Manninum fannst þetta nú ekki góð hugmynd og sagði:“ Sko, ef það væri ekki von á fimm manns hingað innan skamms þá get ég lofað þér því, Jóna að við myndum deyja úr kulda!“ Sneypt og skömmustuleg yfir svona hugmyndum og að sjálfsögðu skítkalt eftir að fara yfir ánna klæddi ég mig í á mettíma. Og sagði svo snúðug „ það er allt í lagi að koma með hugmyndir og hafa gaman!“ Svo skellihlógum við...Alla vega mínar rómantísku hugmyndir hæfa einhverju öðru hitabelti en uppá Öræfum á Íslandi.

Um kvöldið fórum við öll yfir matarbyrgðir okkar og það sem kom í ljós var að allir voru vel settir...nema ég og fararstjórinn, við vorum að renna út af grilluðum samlokum, dem. Annars  var skemmtilegt allir sáttir eftir daginn og framundan að halda áfram för okkar á vit nýrra ævintýra.

 

Frá Egilsseli í Múlaskála í Nesi

 

Um nóttina dreymdi mig yfirnáttúruleg fyrirbæri, ég var stödd innan um tröll, forynjur  og sjálfan dauðan sem geystist um á svörtum hesti inn eftir Víðidal. Ég hrökk upp undir morgunn og fann að ég var gegnköld og búin að henda af mér svefnpokanum. Ég heyrði rólegan andadrátt hinna, kúrði mig aftur og náði að hrista hrollinn úr mér sofna . Við vorum komin upp um kl. 8, eftir mat og kaffi, tókum við saman  og yfirgáfum Egilsselið með hálfgerðum söknuð. Nú lá leiðin meðfram Tröllakrókum sem við vorum búin að heyra að væru gríðarlega fallegt náttúrufyrirbæri. Enn einn daginn vorum við einnig heppin með veður, heiðskýrt, tiltölulega hlýtt, svolítil gola svona peysuveður.

 

Það lá ekkert rosa vel á mér, ég var með hálfgerðan höfuðverk og hóstaði meira, ég hugsaði með mér að þessar blessuðu baðferðir mína hefðu kannski ekki haft góð áhrif á heilsuna, en ýtti þessum hugsunum frá mér aftur því þetta hafði verið gaman og yrði eftirminnilegt. Við gengum í átt að gljúfrinu sem geymdi Tröllakróka innst í minningunni er hæð eða fjall sem ber nafnið Tröllakrókahnúta.  Hækkunin frá skálanum að Hnútunni er um 200 m og 100 m í viðbót upp á sjálfa Hnútuna. Þegar við vorum komin að henni erum við farin að sjá ofan í gljúfrið og hrikalega bergveggina. Fararstjórinn spyr okkur hvort við vildum ekki fara alla leið þ.e. upp á Hnútuna þá voru nú ekki allir á því. Ljóst var að þreyta var komin í liðið. Sú litla sagði:“ ég fer ekki þarna upp, þetta útsýni er nóg fyrir mig, svo er ég líka lofthrædd“. Ég sá að Sá Stóri átti í innri baráttu því þrátt fyrir þreytu var greinilegt að hann langaði upp en jafnframt að styðja sína konu. Í einhverri löngun til að ögra honum, kannski fyrir það hvað hann gat verið hrokafullur stundum sagði ég yfirlætislega, „auðvitað förum við alla leið, það væri nú eins og fara upp á Hvannadalshnjúk og sleppa því að fara upp á Hnjúkinn sjálfan“. Úr varð að allir löbbuðu nema Sú Litla og Ljúfa sem voru bara að dóla sér fyrir neðan Hnútuna á meðan við hin fórum alla leið. Útsýnið var bara eitt orð „Stórkostlegt!“. Við horfðum upp og niður eftir Tröllakrókum og ég get með sanni sagt að gljúfrið ber nafn með rentu. Ég losaði mig við bakpokann lagðist við gljúfurbakkann og horfði á myndirnar sem þrýstu sér út úr berginu. Ég sá risastóra bergrista, jafnvel vopnaða sem mér fannst að maður gæti allt eins átt von á að rifu sig lausa frá bergveggnum og legðu af stað eftir gljúfrinu. Ég sá líka tröll og skessur sem eins og í ævintýrum maður gat ímyndað sér að hefðu steingerfest vegna sólarupprásar. Ég hrökk upp úr þessum dagdraumum við það að fararstjórinn kallaði „Jóna, drífa sig við erum að halda áfram“. Ég stóð upp smellti myndum og hraðaði mér á eftir ferðafélögunum.

Við stoppuðum eftir að hafa gengið meðfram gljúfrinu tókum stöðuna og fengum okkur að borða. Eins og áður sagði var verulega gengið á grilluðu samlokurnar við áttum tvær eftir. Fararstjórinn var þó með flatkökur líka svo samið var um að ég fengi að eiga síðustu tvær. Ég var svöng en ákvað að spara samlokurnar mínar og borðaði bara hálfa í þessu stoppi, fann höfuðverkinn koma aftur af fullum þunga svo nú komu verkjalyfin sér vel.  Áfram var haldið og allt í einu sáum við stikur! Við vorum nú komin inn á stikaða gönguslóð...það kom upp í mér tregi að finna að við vorum að ganga út úr ósnertu landslagi einskismannslands inn á slóðir þar sem greinilega var algengt um ferðamenn. Kannski kjánalegar hugsanir þar sem ástæðan fyrir stikuleysinu væri bara sú að engin hafði nennt að stika lengra?  En ferðafélagar mínir kættust öll við að sjá stikurnar, kannski upplifðu þau nú öryggi á meðan ég vildi ennþá vera á valdi örlaga og hins óþekkta? Þessi dagleið er frekar stutt það tók okkur ca 4 tíma að ganga niður í Múlaskála. Enn einu sinni göngum við úr einu umhverfi í annað, mín tilfinning var sú að ég væri að ganga inní Þórsmörk. Við gengum niður Leiðartungur þar sem angan af birki og gróðri fylltu vitin, Jókulsá í Lóni rann sinn farveg rétt fyrir neðan gönguleiðina. Gott var að halda sér í birkið á leiðinni niðurá við því stundum komu brattir kaflar. Sú Litla var eitthvað óörugg svo fararstjórinn batt hana við sig og á undan henni gekk Sá Stóri. Þegar við vorum svo alveg að koma að skálanum sjáum við hvað fullt af fólki stóð fyrir utan hann. Þetta var eins og að vera nánast slegin utan undir, það er að segja við vorum búin að vera bara sjö saman í næstum fjóra daga í hrikalegri nálægð, upplifa hughrif og stórkostlega náttúru saman...svo allt í einu fleira fólk!! Hinn Hvíti segir hárri röddu...“loksins! baðtími“. og fólk greikkaði sporið...kannski var ég bara ein um að líða svona?

 

Í skálanum fengum við þær upplýsingar að stór hópur væri nú þegar í skálanum og okkur vísað á þann stað sem við áttum að vera. Ég fékk nett áfall herbergið sem við áttum að vera sjö saman í var ekki stærra en 5-6 fm. við sinn hvorn vegginn voru kojur sem rétt gátu rúmað tvær manneskjur hver, ef legið var þétt, bakpokanna okkar þurftum við að geyma á ganginum. Sjálfskipað var að hver hjón væru saman og litla Álfamærin hafði það best ein í rúmi. Þetta var mikil breyting frá því að vera bara ein í skála og hafa allt fyrir sig...og við áttuðum okkur á því hversu gott við höfðum haft það, ekki síst þegar  við ætluðum að komast að í eldhúsinu! En við græddum svo sem líka því um kvöldið hafði þessi hópur fólks eldað kjötsúpu sem afgangur vara af og okkur var velkomið að fá líka. Ég borðaði án þess að skammast mín enda búin að fá mig fullsadda af pasta, pakkamat og hafragraut...einnig hugsaði ég til samlokanna minna sem ég þurfti að spara fyrir morgundaginn. Eftir að hafa borðað og allir farið í sturtu var ákveðið að fara í stutta kvöldgöngu, klukkan var um átta. Hin Litla og Ljúfa drógu sig í hlé og sögðust sitja hjá. Við töluðum við skálavörðinn um skemmtilega stutta gönguleið, hann benti okkur í ýmsar áttir og okkur leist best á ganga á fjallið Gjögrið við gátum séð móta fyrri svona göngustíg aflíðandi í fjallshlíðinni. Ég var þreytt líka en ekki svo að ég yrði eftir, ég treysti mér „sko“ alveg í stutta og þægilega kvöldgöngu svona mett og hrein eftir kalda sturtu í skálanum.

 

Kvöldsólin skein á fjallshlíðina sem virtist glóa eins og gull því það var úr ljósum líparítskriðum. Það bærðist ekki hár á höfði, þó höfðum við með okkur vindjakka og drykki. Við gengum upp þar sem við töldum að uppgangan væri og ljóst var að slóðin var ekki fyrir nema eina manneskju í einu, svo við gengum í halarófu. Upp...upp...þetta var þó nokkuð bratt fannst mér og svitinn bogaði af okkur þvílíkur var hitinn. Eftir því sem ofar dró hætti ég að horfa niður eftir fjallinu og við hvert skref okkar fór skriða af stað svo laust var undir fæti. Ég var orðin virkilega þreytt og hugsaði með mér að ég hefði kannski líka átt að sitja hjá í  þetta sinn. Við náum loks er við höfðum beygt í sveig í fjallshlíðinni að komast upp á grasigróna aflíðandi brekku þar sem göngustígurinn breikkaði og stikur voru sem sýndu hvar fara átti. Ekki átti ég von á að eiga eftir að sjá enn eitt náttúru undrið eða ætti ég að segja frekar fegurðina? Þegar við komum yfir fyrstu hæðina blasti við okkur gullfallegur foss sem steyptist niður falshlíðina. Við gengum að þar sem fossinn kom niður og ég sá fyrst að það væri hægt að ganga á bak við fossinn. Svo enn á ný togaði náttúrulegt vatn í mig á þann hátt að ég vildi helst klæða mig úr og fara í bað, því það rann af mér svitinn svo sturtan fyrr um daginn í skálanum var farin fyrir lítið.

 

Ég klifraði upp að fossinum á eftir fararstjóranum og Þeim Stóra og öll settum við hausinn undir fossinn í öllum förunum þó. Hinn Hvíti klæddi sig úr buxunum sínum og settist í pínulítið lón sem hafði myndast undir fossinum og lá þar makindalega. Ég öfundaði hann  og langaði líka, en gerði ekki. Við skellihlógum og gleðin var alls ráðandi...Álfamærin sat með órætt bros á stein rétt við fossinn, sólin skeið á ljóst hárið svo stirndi á og skrifaði í bókina sína. Þegar ég var komin niður undan fossinum settist ég og virti hana enn á ný fyrir mér og gat ekki varist þessari hugsun að hún gæti svo sannarlega verið af öðrum heimi.

Við fengum okkur vel að drekka héldum þessum hring í kringum fjallið áfram síðasta spölinn þar sem við komum aftur niður að skálanum gátum við rennt okkur fót skriðu niður hlíðina sem var kærkomið. Þessi stutta kvöldganga var aðeins lengri en ég hafði gert ráð fyrir en hefði alls ekki viljað missa af, þetta var frábær endir á góðum degi.

 

Fyrir miðnættið vorum við búin að púsla okkur saman í litla herberginu, við heyrðum skarkala frammi í stóra hópnum. smátt og smátt fjaraði það út og ég heyrði að ferðafélagar mínir voru farin flest að draga ýsur. Við vorum í efri koju og ég var nær brúninni, ég ætlaði aldrei að geta sofnað því ég var svo hrædd um að detta fram úr. Hugurinn fór af stað ég hugsaði um sl. daga fór í gegnum öll smáatriði, velti hinu og þessu fyrir mér og það læddist að mér sú hugsun að mig langaði ekki að þetta kláraðist. Seinni part nætur næ ég að dorma en var alltaf með varann á, vitandi það að á morgunn myndi þessu ævintýri ljúka.

 

Frá Múlaskála í Smiðjunes – Ferðalok

 

Við fórum snemma á fætur, sérstaklega til þess að vera á undan stóra hópnum í eldhúsið. Helst vildum við vera farin, áður en einhver færi á fætur. Eftir mat og kaffi og vera búin að koma bakpokum okkar út, sátum við fyrir utan skálann og gerðum okkur klár. Ennþá einu sinni lék veðrið við okkur, bjart peysuveður. Ég horfði áhyggjufull á skóna mína, ljóst var að skriðurnar í göngunni kvöldið áður hafði ekki bætt úr ástandi þeirra. Litlu skóflurnar framan á tánni voru ekki svo litlar ennþá. Ég tjáði mig við ferðafélaga mína nú loks um málið. Allir skoðuðu skóna í krók og kima, fararstjóranum datt í hug að reyna að finna límband en ég vildi ekkert vesen þetta hlyti að duga daginn. Hinn Hvíti hóf að sjálfsögðu upp raust sína og sagði glaðklakkalegur, „Ef við lendum í erfiðu færi þá látum við Jónu bara labba fremst og moka frá fyrir okkur“. Allir hlógu og ég líka þetta var nú doldið fyndið.

 

Við lögðum af stað leiðin lá yfir þrönga brú yfir Jökulsánna sem var beljandi hvítfyssandi undir okkur. Nú héldum við á Illakamb sem er snarbrött ganga upp á við, sem kom okkur upp úr dalnum. Það var svolítið erfitt að leggja á brattann svona snemma morguns. Það teygðist úr hópnum fararstjórinn og ég fremst svo Hinn Hvíti og Ljúfa, Álfamærin í humátt á eftir þeim, loks komu Hinn Stóri og Litla. Upp, upp var gengið, ég stoppaði stundum og horfði yfir að Gjögri og sá hvar göngustígurinn lá eftir fjallinu, það sniðuga var að ég sá að við höfðum gengið kvöldið áður næstum upp í sömu hæð og förinni var heitið á Illakamb.

 

Við vorum fyrst upp, það sem þar blasti við var ekki fögur sjón...algert stílbrot!! Ég fann að ég varð pirruð þegar ég sá fjóra risastóra jeppa rétt fyrir ofan Illakamb. Ég hrópaði upp yfir mig „hvað er þetta að gera hér?“ Fararstjórinni fræddi mig á því að hægt væri að keyra hingað og fólk gerði það, gengi svo niður í Múlaskála og eyddi þar tíma. Ég var ekki alveg sátt...mér fannst að ferðin um öræfi og ótroðnar slóðir vera að verða búin fyrr en ég hafði haldið. Við biðum eftir hinum, ég fékk mér að drekka. Ég hafði fyllt eins og venjulega 1 og 1/2  l. pokann minn áður en við fórum eins og hafði ekki áhyggjur af vökvaleysi frekar en hina dagana því ég hafði alltaf getað fyllt á.  Þegar allir voru komnir upp tókum við stöðuna og gengum svo eins og leið lá frá Illakamb. Við gengum milli gilja meðfram lítilli á, sólin skein og gjörsamlega bakaði okkur það bærðist ekki hár á höfði. Svitinn bogaði af mér, ég drakk reglulega úr pokanum mínum og ég fann að ég var orðin svöng. Eftir að hafa gengið í um það bil tvo tíma stoppum við á fallegum stað við lækinn. Ákveðið var að taka nesti, ég teygði mig í síðustu grilluðu samlokuna mína og horfði á hana með ógeði...ég fann hvernig maginn í mér snérist á hvolf, þetta var eitthvað svo ólystugt samt var ekki að sjá að það væri komin mygla í hana. Ég kyngdi ógleðinni og ákvað að láta vaða, þetta er næring, Jóna og ef þú ætlar að labba rest verður þú að borða þetta. Svo ég lét vaða, eftir fyrstu tvo bitana var þetta ekki svo slæmt og ég fann að þetta saddi versta hungrið. Sá Stóri bauð Nóakropp eins og í öllum hinum stoppunum í ferðinni ég þáði ekki í þetta sinn því ég vissi að hjónin voru líka að renna út af nesti, en spurði „segðu mér hvað tókstu eiginlega með þér marga Nóakropp poka.“ Kona hans svaraði stolt „við keyptum sex risapoka áður en  við lögðum af stað.“ Vá, hugsaði ég, hvar kom hann þessu öllu fyrir í bakpokanum fyrir utan allt dótið þeirra, þetta er mér ennþá ráðgáta. Álfamærin dró sig aðeins afsíðis eins og svo oft áður og skrifar í bókina sína, ég ákvað að spyrja hana um hvað hún væri að skrifa? Hún snéri sér að mér, brosti feimnislega og svaraði „ég skrifa ljóð!“ Já, okey, svaraði ég og hélt áfram „þá um ferðina?“ „Nei“ svaraði hún og brosti sínu óræða brosi og sagði „aðallega um fugla“. „Já, okey...ég skil“ sagði ég en skildi í raun samt ekki neitt.

 

Áfram héldum við, nú var gegnið í fjallshlíðum sem virtust endalausar, það er færið var afleitt fannst mér. Við gengum hvert á eftir öðru því ekki var hægt að ganga samsíða og skriður gengu niður fjallshlíðina í hverju skrefi. Vegna þess hversu laust var undir fót var ennþá erfiðara að ganga tala nú ekki um í svona skófluskóm eins og ég var í. Það teygðist úr hópnum enn á ný, fararstjórinn fremstur, ég eftir honum og hin komu svo einhverstaðar á eftir okkur. Við skriðurnar sem runnu undan fótum okkar gaus upp mikið ryk við hvert skref, til þess að fá það ekki eins mikið í vitinn og hósta ekki eins mikið hélt ég mig í góðri fjarlægð frá fremsta manni.

 

Þegar við vorum búin að þræða þessar hlíðar komum við á gróið land, ég fann að ég var orðin verulega aum í öxlunum eftir bakpokaburðinn þessa fimm daga. Þegar við sáum svo göngubrúnna við Eskifell gat ég ekki annað en fundið fyrir sama léttinum og ferðafélagar mínir sem einnig voru orðin framlág eins og ég þarna. Einhvernvegin var ég bara orðin nokkuð sátt við að ferðin var að klárast. Þegar við vorum svo komin yfir þessa stóru göngubrú var tekin staðan og við nestuðum okkur þarna í síðasta sinn. Ég leit í kringum mig og virti ferðafélaga mína fyrir mér, við höfðum öll svitnað mikið svo rykið úr hlíðunum hafði sest í tauma framan í andlitin. Hár okkar allra var klebrað, karlarnir órakaðir, við vorum með sorgarrandir undir nöglunum og fólk að troða í sig síðustu bitunum sínum. Við erum eins og villimenn hugsaði ég og drakk úr pokanum mínum. Allt í einu finn ég að pokinn er að verða tómur, dem...þessu verð ég að redda.

 

Við lögðum af stað yfir langan sandinn, bíllinn átti að sækja okkur í Smiðjunes. Við vorum lengur en við héldum þá leið því við urðum á tveim stöðum að vaða yfir ár. Eftir sandinn tók við vegur sem við gengum svo eftir. Áður en við lögðum af stað eftir veginum stoppuðum við og komum öll saman, almenn gleði ríkti í hópnum því fólk upplifði að gangan væri að klárast og bíllinn bara rétt bak við næstu hæð. En svo var nú aldeilis ekki við gengum af stað enn á ný teygðist úr hópnum en ekki svo að við heyrðum ekki hvert í öðru. Við gengum og gengum eftir veginum, yfir hæð og næstu hæð....hvar var bíllinn?? Allt í einu stóðu öll spjót að fararstjóranum...“hvar er bíllinn?“ Rólega reyndi hann að útskýra að við værum alveg að verða komin svona eins og að róa lítil börn. Ég var búin með allan drykkinn minn og hafði ekki fundið neytt drykkjarhæft vatn. Ég var að deyja úr þorsta..skrýtin tilfinning að finna fyrir alvöru þorsta.

 

Loksins eftir því að virtist endalausa göngu eftir malarvegi niður í Smiðjunes sáum við bílinn. Ég og farastjórinn vorum í fararbroddi svo við vorum komin fyrst að bílnum. Ég spurði bílstjórann hvort það væri möguleiki á að stoppa í sjoppu á leiðinni inn á Egilsstaði því ég yrði að fá eitthvað að drekka. Hann játti því, sá aumur á mér og gaf mér vatn sem hann sagði mér stoltur að hann væri alltaf með í bílnum „þrjár ½ l flöskur af vatni“. Ég hálf reif úr hendi hans 7up flösku með hlandvolgu vatni og sturtaði í mig. Hin skiluðu sér og við komum pokunum okkar fyrir í bílnum, bílstjórinn smellti hópmyndum af okkur, fyrir okkur öll, sem nú þegar ég skoða þær tókust bara nokkuð vel. Við komum okkur  upp í bílinn og lögðum af stað til Egilsstaða. Á leiðinni dottuðu sumir, ég náði því ekki ég vatnið hafði hresst mig við og ég fann að adrenalínið ver ennþá á fullu. Hugurinn fór af stað og ég hugsaði um þessa síðustu fimm daga. Þrátt fyrir að finna eins og áður sagði fyrir söknuð yfir að ferðalagið og ævintýrinu væri lokið fann ég þó einnig fyrir þeim hugsunum að gott yrði að komast í gott bað, borða (því ég var glorsoltin) og sofa í hreinu rúmi.

 

Bílstjórinn keyrði okkur á flugvöllinn á Egilsstöðum þar sem við fórum í bílana okkar. Við vorum búin að ákveða að slútta þessu með því að borða saman á veitingastaðnum á bensínstöðinni. Þegar þangað kom fengum við okkur hamborgara með öllu og fullt af gosi...við vorum öll sátt, rifjuðum upp sögur úr ferðinni, meðal annars aumingja erlendu ferðamennina sem var útihýst fyrstu nóttina. Sem betur fer virðist allt hafa verið í lagi með þá, alla vega var þeirra ekki saknað. Við spjölluðum líka um hvert ætti að ganga í næstu ferð, margar hugmyndir komu fram...En staðreyndin var sú að það voru bara þrjú af þessu „leynifélagi sjö saman“ sem fóru í næstu ævintýraferð yfir Öræfin og öræfajökul ári síðar ásamt 12 öðrum frábærum ferðafélögum, sem var ekki minni upplifun en þessi einstaka ferð um Lónsöræfi.

 

Höfundur: Jóna Margrét Ólafsdóttir

 

 

 

 

 

 

bottom of page